í Fréttir, News, VIMIUC

Icelandic Online var eitt þriggja verkefna sem fengu viðurkenningu Íslenskrar málnefndar fyrir vel unnin störf á sviði málræktar á Málræktarþingi sem fram fór í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins 26. september. Viðurkenningin var fyrir íslenskunámskeiðið Bjargir sem ætlað er að auðvelda innflytjendum að ná sem fyrst nauðsynlegum tökum á málinu til þátttöku í starfi og daglegu lífi. Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum og verkefnastjóri Icelandic Online frá upphafi, tók við viðurkenningunni. 

Íslensk málnefnd hefur starfað í 55 ár og hefur það hlutverk að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin hefur einnig veitt viðurkenningar fyrir það sem vel er gert á svið málræktar eða er líklegt til að efla íslenska tungu. Auk Icelandic Online fengu að þessu sinni Vísindavefur Háskóla Íslands og samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar viðurkenningar. 

Icelandic Online er samstarfsverkefni Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Vefurinn geymir vefnámskeið í íslensku sem öðru máli og hefur verið í þróun allt frá árinu 2004. Notendur vefsins skipta tugum þúsunda og eru bæði hér á landi og víða annars staðar í heiminum.

Sjá nánar frétt af vef Háskóla Íslands hér.

Frá afhendingu viðurkenninga Íslenskrar málnefndar. Frá vinstri: Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri Vísindavefsins, Sveinn Aðalsteinsson hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, María Guðmundsdóttir hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, og Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor og einn af aðstandendum Icelandic Online.

Aðrar fréttir
X