í Óflokkað

Rebekka Þráinsdóttir:

Að fanga stemmninguna í verkum Alexanders Púshkín. Um væntanlegar þýðingar á prósaverkum Púshkíns, Spaðadrottningunni og Stöðvarstjóranum.

Þann 10. febrúar næstkomandi eru 180 ár liðin frá því að þjóðskáld Rússa, Alexander Púshkín, lést af sárum sem hann hlaut í einvígi, í blóma lífsins. Púshkín var frumkvöðull á flestum sviðum bókmennta í heimalandi sínu, þar á meðal í skáldsagna- og smásagnagerð, þó að hans sé fyrst og fremst minnst sem ljóðskálds. Fyrir tveimur árum birtust nýjar þýðingar úr frummálinu á tveimur sögum úr smásagnaflokki hans Smásögur Belkíns. Einnig er um þessar mundir unnið að þýðingu á frægustu sögu hans Spaðadrottningunni.

Í þessu erindi mun Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku, velta fyrir sér hvernig hægt er, og hvernig tekst, að fanga þá ólíku stemmningu sem setur svip sinn á þessi verk. Sérstakri athygli verður beint að „Stöðvarstjóranum“, einu sögunni úr Smásögum Belkíns sem enn hefur ekki birst á íslensku svo vitað sé. Um leið verður spurt hvers vegna einmitt sú saga hefur setið óbætt hjá garði en hún hafði mikil áhrif á rússneskar bókmenntir á 19. öld.

Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins 9. febrúar kl. 16-17.

 

Aðrar fréttir
X