í Fréttir, News, VIMIUC

Ársfundur Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fyrir árið 2020 var haldinn í Veröld – húsi Vigdísar föstudaginn 14. maí 2021. Birna Arnbjörnsdóttir forstöðumaður stofnunarinnar stýrði fundinum.

Á fundinum var farið yfir starfsemi ársins 2020 sem var með óvenjulegasta móti vegna heimsfaraldursins sem enn geysar. Ársskýrsla var kynnt og ársreikningar lagðir fram. Farið var yfir starfið framundan en meðal þess sem þar ber hæst er opnun tungumálasýningarinnar Mál í mótun, gagnvirkrar margmiðlunarsýningar um tungumál heimsins og sýningar um Vigdísi Finnbogadóttur sem báðar munu opna í Veröld – húsi Vigdísar árið 2021. Unnið er að stefnumótun fyrir starfsemi næstu ára hjá stofnuninni, sem mun að miklu leyti verða tileinkuð vinnu í þágu Alþjóðlegs áratugar frumbyggjatungumála, en tímabilið 2022-2032 hefur verið útnefnt svo af Sameinuðu þjóðunum, með stofnanir UNESCO sem helstu framkvæmdaraðila.

Ný stjórn stofnunarinnar var kjörin og valdi fundurinn þrjá fulltrúa í nýja stjórn og tvo til vara. Ásdís R. Magnúsdóttir var kjörin nýr formaður stjórnar stofnunarinnar og tekur hún við stöðu forstöðumanns Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum af Birnu Arnbjörnsdóttur. Aðrir stjórnarmenn eru Oddný G. Sverrisdóttir, Kristín Ingvarsdóttir, Geir Þórarinn Þórarinsson og Jóna Guðrún Guðmundsdóttir, sem er fulltrúi doktorsnema. Varamenn í stjórn verða Gísli Magnússon og Erla Erlendsdóttir.

Í lok fundar voru Birnu Arnbjörnsdóttur, prófessor í annarsmálsfræðum og deildarforseta Mála- og menningardeildar færðar þakkir fyrir framlag sitt til stofnunarinnar, en hún hefur sinnt stöðu forstöðumanns frá árinu 2018. Voru henni færð blóm sem þakklætisvottur frá starfsmönnum og meðlimum stofnunarinnar.

Ársskýrslu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fyrir árið 2020 má finna hér.

 

Mynd: F.v. Birna Arnbjörnsdóttir fráfarandi forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Ásdís Rósa Magnúsdóttir nýr forstöðumaður stofnunarinnar. 

Aðrar fréttir
X