í Fréttir, News, VIMIUC

Ásdís Rósa Magnúsdóttir, prófessor í frönsku og stjórnarformaður Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, var í dag sæmd riddarakrossi frönsku heiðursorðunnar fyrir störf sín í þágu franskrar tungu og hlaut þar með nafnbótina „Riddari frönsku heiðursorðunnar“ (Chevalier de l’Ordre National du Mérite). 

Það var Graham Paul, sendiherra Frakklands á Íslandi, sem afhenti Ásdísi Rósu heiðursorðuna við hátíðlega athöfnin sem fór fram í sendiherrabústaðnum á Skálholtsstíg 6 að viðstöddum vinum og vandamönnum Ásdísar Rósu.

Ásdís Rósa Magnúsdóttir stundaði nám í frönsku máli og bókmenntum (Lettres modernes) við Stendhal-háskólann í Grenoble frá 1988-1997 og lauk þaðan doktorsnámi í frönskum bókmenntum miðalda og endurreisnar árið 1997. Hún hefur kennt við Háskóla Íslands frá 1997. Helstu rannsóknasvið hennar eru bókmenntir miðalda, viðtökur og þýðingar franskra bókmennta á Íslandi og í Skandinavíu. Ásdís Rósa situr í ritnefnd Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og er einn af stofnendum og situr í stjórn STUTT – Rannsóknastofu í smásögum og styttri textum sem sett var á laggirnar árið 2019.  Hún hefur sent frá sér fjölmargar greinar um franskar bókmenntir, þýtt, ritstýrt og stuðlað að útgáfu fjölda franskra bókmenntaverka og fræðirita á íslensku og frönsku.  

   
Ásdís Rósa Magnúsdóttir tók við riddarakrossi frönsku heiðursorðunnar fyrir störf sín í þágu franskrar tungu í franska sendiherrabústaðnum þann 29. apríl 2021.

Aðrar fréttir
X