í Fréttir, News
Ásdís Rósa Magnúsdóttir, prófessor í frönsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, var í dag tilnefnd til íslensku þýðingarverðlaunanna fyrir þýðingu sína á bókinni Fríða og dýrið, franskar sögur og ævintýri fyrri alda sem nýlega kom út hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunni. Verkið inniheldur alls 17 franskar sögur, allt frá 12. öld fram til 18. aldar og hafa aldrei birst fyrr í íslenskri þýðingu. Auk þess ritar þýðandinn inngang þar sem saga stuttra sagna eða stuttra texta er sögð. Í umsögn dómnefndar sagði: „Bæði sögurnar og vandaður inngangur þeirra eru mikilsvert framlag til þekkingar okkar á bókmenntum sem við höfum litlar spurnir haft af. Sögurnar eru mjög ólíkar hver annarri og stíll þeirra sömuleiðis. Þann vanda leysir Ásdís með mikilli prýði þannig að hver saga nýtur sérkenna sinna til fulls.“
 
Að Íslensku þýðingarverðlaununum stendur Bandalag þýðenda og túlka í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda. Þau eru veitt fyrir bestu þýðingu á bókmenntaverki og er tilgangur þeirra að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar. Sjö bækur eru tilnefndar að þessu sinni, en alls bárust um 70 bækur frá 15 útgáfum.
 
Íslensku þýðingarverðlaunin verða veitt í febrúar á næsta ári. Í dómnefnd sitja Elísabet Gunnarsdóttir, Guðrún H. Tulinius og Þórður Helgason.
 
Bókin Fríða og dýrið, franskar sögur og ævintýri fyrri alda er fáanleg í öllum helstu bókaverslunum og hægt að panta hana í vefverslun Háskólaútgáfunnar.
Aðrar fréttir
X