í Fréttir, News, VIMIUC

Ásrún Jóhannsdóttir hefur varið doktorsritgerð í ensku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist „Young learner’s lexical proficiency and motivation to learn English in Iceland“ og var unnin undir leiðsögn Birnu Arnbjörnsdóttur, prófessors emeritu við Mála- og menningardeild. Einnig voru í doktorsnefnd þær Hafdís Ingvarsdóttir, prófessor emerita við Menntavísindasvið HÍ, Marianne Nikolov, prófessor emerita við Háskólann í Pécs, og Sif Einarsdóttir, prófessor við Félagsvísindasvið HÍ.

Geir Sigurðsson, forseti Mála- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands mánudaginn 22. ágúst síðastliðinn. Andmælendur voru Jasone Cenoz, prófessor við Háskólann í Baskalandi, og James Milton, prófessor við Háskólann í Swansea. (Smellið hér til að skoða myndir frá vörninni).

Um rannsóknina

Í rannsókninni skoðaði Ásrún viðhorf til ensku og enskunotkun íslenskra barna við upphaf formlegrar enskukennslu í 4. bekk og áhrif þessara þátta á orðaforðaþekkingu þeirra og hvata til að læra ensku. Í rannsóknarspurningum var leitast við að skoða tengsl milli enskuáreitis og enskunotkunar í umhverfi barnanna og stærð orðaforða þeirra, en einnig að skoða áhrif kyns og upphafs enskukennslu á orðaforða þátttakenda. Fyrst var lögð fyrir spurningakönnun um hvata barnanna til námsins og síðan tvö orðaforðapróf sem meta grunnþekkingu og vídd þekkingar við upphaf formlegs náms í ensku í grunnskóla. Niðurstöður benda til að orðaforði nemenda kemur að mestu leyti úr daglegu umhverfi utan skóla og er tengdur áhugasviði þeirra. Niðurstöður sýna einnig að þessi 9 ára börn átta sig á nauðsyn þess að læra ensku til framtíðarnotkunar í skóla og við lestur.

Um doktorsnefnið

Ásrún Jóhannsdóttir lauk BA-prófi í ensku við Háskóla Íslands og MA-prófi í ensku með áherslu á málvísindi og kennslufræði við sama skóla. Ásrún hefur einnig lokið diplóma í kennslufræði til kennsluréttinda. Hún er aðjunkt í ensku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands.

Birna Arnbjörnsdóttir, Hafdís Ingvarsdóttir, Geir Sigurðsson, Ásrún Jóhannsdóttir, Jasone Cenoz, Ólöf Garðarsdóttir og Sif Einarsdóttir.

Birna Arnbjörnsdóttir, Hafdís Ingvarsdóttir, Geir Sigurðsson, Ásrún Jóhannsdóttir, Jasone Cenoz, Ólöf Garðarsdóttir og Sif Einarsdóttir.

Frétt af vef Háskóla Íslands

Aðrar fréttir
X