í Óflokkað

Viðburðaröð Borgarbókasafnsins, Cafe Lingua – lifandi tungumál, hefur teygt anga sína víða og sett svip sinn á samfélagið. Fjölmargir aðilar víða um borgina hafa tekið þátt frá því að þetta fjölmenningarlega verkefni hóf göngu sína. Heill heimur af tungumálum er slagorð verkefnisins og markmiðið er að „afhjúpa” hið fjölbreytta tungumálalandslag Reykjavíkur. Það er þess vegna sérstaklega viðeigandi að sú breyting hafi orðið á verkefninu, að Vigdísarstofnun sé núna formlega orðin aðili að verkefninu. Veröld – hús Vigdísar verður ásamt menningarhúsum Borgarbókasafnsins einn helsti vettvangur tungumálamótanna sem eiga sér stað á Café Lingua.

Þegar hugmyndasmiður Café lingua, Kristín R. Vilhálmsdóttir verkefnastjóri fjölmenningar á Borgarbókasafninu, fór yfir sögu þess á dögunum, birtist skemmtileg minning meðal skjalanna frá opnun Café Lingua í Borgarbókasafninu í Grófinni í nóvember 2012:

„Hér á Café Lingua gerist það skemmtilega, – hingað getum við komið til að tala tungum, – eins og postularnir. Hingað, á Café Lingua, getum við komið og æft okkur í að spjalla á ýmsum tungumálum, – fólk af erlendum uppruna sem vill til að mynda spjalla á íslensku, – sem er nú erfitt mál að læra, – og svo einnig við heimamenn sem viljum stofna til samtals og umræðna á einhverju því tungumáli sem hér verður á boðstólum.”

Vigdís Finnbogadóttir átti þessi orð og var það mikill heiður að velgjörðarsendiherra tungumála UNESCO, sem er eitt af mörgum hlutverkum Vigdísar, var viðstaddur.  Ótal tungumál hafa síðan verið kynnt sem liður í að virkja raddir innflytjenda og opna augu – og eyru – borgarbúa fyrir menningarheimum þeirra sem eiga rætur að rekja til annarra landa. Að kynnast fjölbreyttum tungumálum, og menningunni að baki þeim, stuðlar að fjölmenningarhæfni sem er mikilvægt markmið í hugmyndafræði Borgarbókasafnsins. Þetta markmið á einnig heima á vettvangi Vigdísarstofnunar og ríkir þannig samhljómur milli þessa tveggja samstarfsaðila.

Café Lingua er tilvalinn vettvangur fyrir þá sem vilja efla tungumálakunnáttu sína og hafa áhuga á að spreyta sig á ýmsum tungumálum. Eins og kom fram í opnunarræðu Vigdísar þá fær fólk, með íslensku sem annað mál, tækifæri til að tjá sig á íslensku sem og að kynna öðrum móðurmál sitt.

Viðburðir haustsins fara fram í menningarhúsum Borgarbókasafnsins, í Veröld – húsi Vigdísar og í Stúdentakjallara Háskóla Íslands. Opnunardagskráin, sem fram fer í Veröld – húsi Vigdísar fimmtudaginn 17. ágúst kl. 17, gengur undir titlinum „Fjölbreytileiki tungumála og tungumál í útrýmingarhættu”. Sebastian Drude, forstöðumaður Vigdísarstofnunar, mun svara spurningum á borð við Hversu mörg tungumál eru í heiminum? Hvernig eru þau skyld? Hversu lík eða ólík eru þau? Hvernig hafa þau þróast eða munu þróast í framtíðinni? Hvað gerist þegar tungumál blandast? Hann mun einnig fjalla um fjölbreytileika tungumála og tungumál í útrýmingarhættu, hvernig tungumál hverfa og af hverju. Erindið fer fram á ensku.

Aðrir sem koma að dagskrá Café Lingua haustið 2017:
Mála – og menningardeild, íslenska sem annað mál, rússneska og Rússlands-og Austur-Evrópufræði og nemendafélögin Linguae og Huldumál við Háskóla Íslands, Íslenskuþorpið, Filippseyingar búsettir á Íslandi og „Múltíkúltíkórinn”, fjöltyngdur kór kvenna.

Allir eru velkomnir. Þátttaka ókeypis.

Nánari upplýsingar:
Kristín R. Vilhjálmsdóttir, kristin.r.vilhjalmsdottir@reykjavik.is, s. 618 1420

Facebookhópurinn Café Lingua – lifandi tungumál

Aðrar fréttir
X