í Óflokkað

Það verður sannkölluð heims-jólastemning á Café lingua sem haldið verður í Borgarbókasafninu í Grófinni við Tryggvagötu mánudaginn 14. desember kl. 17:30.  Sungin verða jólalög frá ýmsum löndum, á ýmsum tungumálum. Textablöðum verður dreift og allir syngja með. Margrét Pálsdóttir málfræðingur leiðir sönginn og gítarleikari verður Ársæll Másson.

Margrét er mikil áhugamanneskja um tungumál og tónlist og hefur einstakt lag á að fá fólk með sér í söng. Hún stjórnaði kór íslenskunema við háskólann í Kíl í Þýskalandi þegar hún kenndi þar og fyrir ári stofnaði hún fjölþjóðlegan kór fiskvinnslufólks í Grindavík. Hún verður með nokkra aðstoðarmenn við sönginn sem tala að minnsta kosti þessi 12 tungumál: albönsku, dönsku, ensku, flæmsku, frönsku, íslensku, kínversku, portúgölsku, pólsku, spænsku, serbnesku og þýsku.

Áhugasamir þátttakendur eru hvattir til að senda tillögur að jólalögum inn á hóp Café Lingua á Facebook eða á netfang Margrétar tonarogtal@gmail.com.

Boðið verður upp á jólaglögg og smákökur. Allir velkomnir. Ókeypis aðgangur.

Café Lingua – lifandi tungumál er tungumálavettvangur á vegum Borgarbókasafnsins í samstarfi við ýmsa aðila í samfélaginu. Eitt af markmiðum Café Lingua er að virkja þau tungumál sem hafa ratað til Íslands með fólki hvaðanæva að og auðgað mannlíf og menningu ásamt því að vekja forvitni borgarbúa á heiminum í kringum okkur. Café Lingua er gátt inn í mismunandi tungumála – og menningarheima og tilvalinn vettvangur fyrir þá sem vilja efla tungumálakunnáttu sína og hafa áhuga á að spreyta sig á hinum ýmsu tungumálum.

Þessi viðburður er haldinn í samstarfi Café Lingua, Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda og námsleiðarinnar Íslenska sem annað mál við Háskóla Íslands, Íslenskuþorpsins, Norræna hússins og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
 

Aðrar fréttir
X