Ársskýrsla SVF 2012

Stjórn og starfsmenn

Á árinu 2012 störfuðu 42 fræðimenn við stofnunina auk verkefnisstjóra. Á ársfundi SVF þann 11. maí tóku gildi nýjar reglur um starfsemi stofnunarinnar, en þær kveða á um að forseti Hugvísindasviðs skipi fimm manna stjórn til þriggja ára í senn. Félagar í SVF skulu tilnefna, á grundvelli kosningar á ársfundi, formann stjórnar, sem og þrjá meðstjórnendur og tvo til vara úr sínum röðum. Þá skal einn stjórnarmanna vera úr hópi doktorsnema á fræðasviðum stofnunarinnar.

Með nýju reglunum var fagráð lagt af. Fram að ársfundinum gegndi Auður Hauksdóttir starfi forstöðumanns stofnunarinnar og varaforstöðumaður var Oddný G. Sverrisdóttir. Í fagráði sátu, auk þeirra, þau Birna Arnbjörnsdóttir, Gauti Kristmannsson, Geir Sigurðsson, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Rebekka Þráinsdóttir, sem öll voru kosin til tveggja ára á ársfundi SVF vorið 2010.
Vorið 2012 tók við ný stjórn til þriggja ára, en hana skipa: Auður Hauksdóttir, formaður, Birna Arnbjörnsdóttir, Ásdís R. Magnúsdóttir, Rebekka Þráinsdóttir og Aleksandra Maria Cieslinka, doktorsnemi í þýðingafræðum, tilnefnd af Félagi doktorsnema. Sigurður Pétursson og Oddný G. Sverrisdóttir voru kjörin varamenn. Auður Hauksdóttir gegndi áfram starfi forstöðumanns.
Fagráðið kom saman fjórum sinnum á árinu og ný stjórn fimm sinnum. Í desember áttu starfsmenn fundi með alþjóðlegri ráðgjafanefnd, sem hefur verið stofnuninni til ráðuneytis um uppbyggingu Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar.

Ritnefnd stofnunarinnar var skipuð þeim Ásdísi R. Magnúsdóttur, Erlu Erlendsdóttur og Gauta Kristmannssyni. Á haustmisseri var Gauti erlendis í rannsóknaleyfi og tók Rebekka Þráinsdóttir sæti í ritnefnd í fjarveru hans.

Hrefna Ingólfsdóttir gegndi starfi verkefnisstjóra fram til 1. júní, en þá tók Anna María Benediktsdóttir við starfinu tímabundið eða til 1. september, þegar Guðrún Kristinsdóttir var ráðin verkefnisstjóri, en hún var valin til starfans úr hópi mikils fjölda umsækjenda.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er aðildarstofnun Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands og rannsóknavettvangur kennara í Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Rannsóknir stofnunarinnar snúast um erlend tungumál frá ýmsum sjónarhornum, en helstu rannsóknasviðin eru:

  • Málvísindi, m.a. samanburðarmálvísindi, máltaka, orðaforði, hljóðfræði, annarsmálsfræði.
  • Bókmenntir, m.a. bókmenntir einstakra þjóða og málsvæða, t.d. enskar, þýskar, rússneskar og asískar bókmenntir, bókmenntir spænskumælandi landa og Norðurlandabókmenntir.
  • Menningarfræði í tengslum við ákveðin málsvæði og í samanburði milli málsvæða í sögu og samtíð.
  • Samskipti á erlendum málum og notagildi þeirra í atvinnulífi.
  • Kennsla erlendra tungumála og þróun kennslugagna.
  • Þýðingar, bæði bókmennta- og nytjaþýðingar.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur leggur áherslu á að vekja fólk til vitundar um að fjölmenningarleg viðhorf og þekking á öðrum þjóðum og tungumálum feli í sér persónulegan, menningarlegan og efnahagslegan ávinning. Hnattvæðing kallar á þekkingu og færni sem tekur mið af sívaxandi samskiptum á öllum sviðum og einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki sem nýta sér tungumálakunnáttu og menningarinnsæi standa betur að vígi á alþjóðavettvangi en ella. Í rannsóknastarfi er haft að leiðarljósi að auka skilning á máltileinkun og tungumálakunnáttu á öllum sviðum þjóðlífsins og efla menningarmiðlun. Lögð er sérstök áhersla á miðlun upplýsinga um nýjungar í kennslu tungumála á öllum skólastigum, enda er það markmið stofnunarinnar að styðja kennslu í erlendum tungumálum og byggja upp öflugar rannsóknir á því sviði.
Auk rannsókna stuðlar stofnunin að upplýstri umræðu í þjóðfélaginu um tungumál og tungumálanám, samskipti á erlendum tungum og menningarfræði. Þetta hlutverk sitt rækir hún með fyrirlestra- og ráðstefnuhaldi auk útgáfu fræðirita og kennsluefnis. Stofnunin gefur út tímaritið Milli mála sem kemur út einu sinni á ári og fjallar um rannsóknir á fræðasviðum SVF. Stofnunin tekur þátt í krefjandi verkefnum á fræðasviði sínu í samstarfi við íslenska og erlenda fræðimenn og háskólastofnanir.

Stofnunin fær árlegt framlag frá Háskóla Íslands en auk þess hafa fyrirtæki og stofnanir, ásamt menningar- og rannsóknasjóðum veitt styrki til að hrinda sérstökum verkefnum í framkvæmd. Starfsmenn hafa einnig hlotið styrki úr innlendum og erlendum samkeppnissjóðum til rannsókna sinna. Styrktarsjóður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur hefur það að markmiði að stuðla að vexti og viðgangi stofnunarinnar. Nánari upplýsingar um Styrktarsjóðinn má finna síðar í skýrslunni.

Auk þess að standa fyrir málþingum og fyrirlestrum var stofnunin aðili að þremur alþjóðlegum ráðstefnum á árinu. Í fyrsta lagi kom stofnunin að ráðstefnunni Art in Translation þar sem fjallað var um ýmsa fleti á ritlist, bæði í fræðilegum erindum og listrænum gjörningum. Þá kom hún að ráðstefnunni Homage to Elena Poniatowska sem haldin var í tilefni íslenskrar þýðingar á skáldsögu eftir mexíkóska rithöfundinn og blaðakonuna Elenu Poniatowsku. Einnig stóð stofnunin fyrir ráðstefnunni Lingua Nordica – Lingua Franca þar sem fjallað var um rannsóknir á norrænum tjáskiptum, einkum hvað varðar það sem auðveldar eða torveldar tjáskipti á milli Norðurlandabúa.

Evrópski tungumáladagurinn var að venju haldinn hátíðlegur þann 26. september, að þessu sinni í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, STÍL – Samtök tungumálakennara á Íslandi og Máltæknisetur. Dagskráin bar yfirskriftina „Tungumál, tækni og tækifæri“ og fjallaði um hvernig ný þekking og tækni geta nýst í þágu tungumálanáms og samskipta á erlendum tungumálum.

Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar

Á síðustu árum hefur verið ötullega unnið að því að koma á fót Vigdísarstofnun – alþjóðlegri miðstöð tungumála og menningar. Nýjar starfsreglur fyrir Vigdísarstofnun voru unnar og þær samþykktar af stjórn SVF þann 19. nóvember og af stjórn Hugvísindastofnunar 27. nóvember. Starfsreglur Vigdísarstofnunar má nálgast á www.vigdis.hi.is.
Á aðalráðstefnu Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, sem fram fór í París í nóvember 2011 var samþykkt einróma að heimila að gerður yrði samningur milli UNESCO og ríkisstjórnar Íslands um að Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar starfi undir merkjum UNESCO. Í þessu felst mikil viðurkenning á störfum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og mikilvægur stuðningur við framtíðaráform hennar. Reglur um starfsemi stofnunarinnar hafa nú verið sendar UNESCO og má vænta þess að samningur milli aðila um að Vigdísarstofnun starfi undir merkjum UNESCO verði undirritaður á fyrri hluta næsta árs.

Nú er í undirbúningi að reisa byggingu fyrir Vigdísarstofnun og aðra starfsemi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu.
Á fundi háskólaráðs 7. apríl 2011 var samþykkt skipun byggingarnefndar SVF skv. tillögu Kristínar Ingólfsdóttur rektors. Formaður nefndarinnar er Eiríkur Hilmarsson, lektor í viðskiptafræði, en auk hans skipa nefndina Auður Hauksdóttir, dósent í dönsku og forstöðumaður SVF, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands, Ingjaldur Hannibalsson, prófessor í viðskiptafræði, Inga Jóna Þórðardóttir viðskiptafræðingur og Ásdís Guðrún Sigmundsdóttir, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði. Með nefndinni starfa Halldóra Vífilsdóttir, aðstoðarforstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og Sigurlaug I. Lövdahl, skrifstofustjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands.
Í desember 2011 var efnt til hönnunarsamkeppni um bygginguna og bárust 43 tillögur frá 9 löndum. Niðurstöður voru kunngjörðar hinn 16. maí. Dómnefnd skipuðu: Inga Jóna Þórðardóttir viðskiptafræðingur, formaður, Auður Hauksdóttir, forstöðumaður SVF, Ingjaldur Hannibalsson prófessor, Halldór Gíslason, prófessor við Listaháskólann í Osló, arkitekt FAÍ, og Helgi Mar Hallgrímsson, arkitekt FAÍ. Að vinningstillögunni stóðu þeir Gunnlaugur Magnússon, Haraldur Örn Jónsson, Hjalti Parelius, Hjörtur Hannesson og Kristján Garðarsson frá arkitektastofunni arkitektur. is. Í umsögn dómnefndar um verðlaunatillöguna segir meðal annars: „…helstu kostir tillögunnar eru ágæt tengsl við umhverfið og góð innbyrðis tengsl í byggingunni. Innri rými hverfast um opið miðrými sem tengir allar hæðir hússins og eru góð sjónræn tengsl milli hæða.“
Hönnunarvinna hófst sl. sumar og er áætlað að verklegar framkvæmdir geti hafist á næstu misserum.

Viljayfirlýsing um samstarf um Vigdísarstofnun

Í nóvember 2012 undirrituðu rektorar Háskólans í Bergen, Tækniháskólans í Þrándheimi (NTNU) og Háskóla Íslands, ásamt forsvarsmönnum Hordaland Fylkeskommune og Nynorsk Kultursentrum, viljayfirlýsingu um samstarf um uppbyggingu Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar. Samstarfið tekur til áranna 2013 og 2014 og í viljayfirlýsingunni er sérstök áhersla lögð á mikilvægi norsk-íslenskra og norrænna tungumála- og menningarrannsókna. Kveðið er á um skipun starfshóps, en í honum eigi sæti fulltrúar frá framangreindum stofnunum, ásamt sendilektor í norsku við Háskóla Íslands og lektor í íslensku við Háskólann í Bergen.

Alþjóðlega ráðgjafanefndin

Á undanförnum árum hefur Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur notið fulltingis alþjóðlegrar ráðgjafanefndar, sem hefur verið henni til ráðuneytis um uppbyggingu alþjóðlegu tungu-málamiðstöðvarinnar. Ráðgjafanefndin er skipuð fjórum virtum fræðimönnum, þeim Anju Saxena, prófessor við Uppsalaháskóla, Bernard Comrie, prófessor og forstöðumanni við Max Planck Institut í Leipzig, Jens Allwood, prófessor við Gautaborgarháskóla, og Peter Austin, prófessor við SOAS við Lundúnaháskóla. Dagana 6. og 7. desember átti nefndin fundi með starfsfólki Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur að Bernard Comrie undanskildum, sem forfallaðist vegna veikinda. Á fundunum, sem voru fjölsóttir, fengu starfsmenn SVF kærkomið tækifæri til að kynna og ræða áætlanir um eflingu rannsókna og framtíðarstarf stofnunarinnar.

Stjórn og starfsmenn 

Hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum starfa að jafnaði á fjórða tug fræðimanna. Á árinu gegndi Auður Hauksdóttir starfi forstöðumanns stofnunarinnar og varaforstöðumaður var Oddný G. Sverrisdóttir. Fagráð stofnunarinnar var kosið vorið 2010 til tveggja ára, en í því eiga sæti, auk forstöðumanns og varaforstöðumanns, þau Birna Arnbjörnsdóttir, Gauti Kristmannsson, Geir Sigurðsson, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Rebekka Þráinsdóttir. Verkefnastjóri var Hrefna Ingólfsdóttir.

Fagráðið kom saman sjö sinnum á árinu, en auk þess voru haldnir nokkrir fundir með starfsmönnum stofnunarinnar. Dagana 14.-15. apríl átti fagráðið fund með prófessorunum Jens Allwood við Gautaborgarháskóla og Peter Austin við SOAS í Lundúnum, en þeir eiga báðir, ásamt Anju Saxena, prófessor við Uppsalaháskóla, og Bernard Comrie, prófessor og forstöðumanns hjá Max Planck stofnuninni í Leipzig, sæti í alþjóðlegri nefnd sem hefur verið SVF til ráðgjafar um alþjóðlegu tungumálamiðstöðina.

Í ritstjórn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sátu Ásdís R. Magnúsdóttir, Erla Erlendsdóttir og Gauti Kristmannsson.

Á árinu hlaut Gauti Kristmannsson framgang í starf prófessors.

Starfssvið og hlutverk 

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er rannsóknastofnun innan Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands og rannsóknavettvangur kennara í Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Rannsóknir stofnunarinnar snúast um erlend tungumál frá ýmsum sjónarhornum, en helstu rannsóknarsviðin eru:

• Málvísindi, m.a. samanburðarmálvísindi, máltaka, orðaforði, hljóðfræði, annarsmálsfræði

• Bókmenntir, m.a. bókmenntir einstakra þjóða og málsvæða t.d. enskar og þýskar bókmenntir, asískar og rómanskar bókmenntir og Norðurlandabókmenntir

• Menningarfræði í tengslum við ákveðin málsvæði og í samanburði milli málsvæða í sögu og samtíð

• Samskipti á erlendum málum og notagildi þeirra í atvinnulífi

• Kennsla erlendra tungumála, m.a. þróun kennslugagna

• Þýðingar m.a. bókmennta- og nytjaþýðingar

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur leggur áherslu á að auka skilning á því að fjölmenningarleg viðhorf og þekking á öðrum þjóðum og tungumálum fela í sér persónulegan, menningarlegan og efnahagslegan ávinning. Hnattvæðing kallar á þekkingu og færni sem tekur mið af sívaxandi samskiptum á öllum sviðum. Einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki sem nýta sér tungumálakunnáttu og menningarinnsæi standa betur að vígi á alþjóðavettvangi en ella. Í rannsóknastarfi er haft að leiðarljósi að auka skilning á mál tileinkun og tungumálakunnáttu á öllum sviðum þjóðlífsins og efla menningarmiðlun. Þannig stuðlar stofnunin að auknum og jákvæðum samskiptum við fólk af erlendu þjóðerni og aukinni menningarfærni einstaklinga og þjóðfélagsins í heild. Lögð er sérstök áhersla á miðlun upplýsinga um nýjungar í kennslu tungumála á öllum menntastigum, enda er það markmið stofnunarinnar að styðja kennslu í erlendum tungumálum og byggja upp öflugar rannsóknir á því sviði.

Auk rannsókna stuðlar stofnunin að upplýstri umræðu í þjóðfélaginu um tungumál, tungumálanám, samskipti á erlendum tungum og menningarfræði. Þetta hlutverk sitt rækir hún með fyrirlestra- og ráðstefnuhaldi auk útgáfu fræðirita og kennsluefnis. Stofnunin tekur þátt í krefjandi verkefnum á fræðasviði sínu í samstarfi við íslenska og erlenda fræðimenn og háskólastofnanir. Stofnunin fær árlegt framlag frá Háskóla Íslands en auk þess hafa fyrirtæki og stofnanir, ásamt menningar- og rannsóknarsjóðum veitt styrki til að hrinda sérstökum verkefnum í framkvæmd. Starfsmenn hafa einnig hlotið fjölda styrkja úr innlendum og erlendum samkeppnissjóðum til rannsókna sinna. Styrktarsjóður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur hefur það að markmiði að stuðla að vexti og viðgangi stofnunarinnar og á árinu 2011 fór fyrsta styrkveiting fram hjá sjóðnum þegar úthlutað var tveimur milljónum króna til fimm verkefna á fagsviðum stofnunarinnar. Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Hátíðarsal Háskólans föstudaginn 15. apríl. Nánari upplýsingar um Styrktarsjóðinn má finna síðar í skýrslunni og á vefsíðu stofnunarinnar https://www.vigdis.hi.is/styrktarsjodur

Starfsemi stofnunarinnar

Árið 2011 var tíunda starfsár Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Á þessum tímamótum var lögð áhersla á að efla innra starf stofnunarinnar og móta framtíðarstefnu um rannsóknir og alþjóðlegt samstarf. Að venju var lögð áhersla á að miðla rannsóknum fræðimanna stofnunarinnar með því að standa fyrir ráðstefnum, málþingum og fyrirlestrum og með útgáfu fræðirita. Auk málþinga og fyrirlestra stóð stofnunin fyrir tveimur viðamiklum alþjóðlegum ráðstefnum á árinu 2011. Annars vegar var um að ræða ráðstefnuna NORDAND 10, þar sem fjallað var um rannsóknir á norrænum málum, sem öðru og erlendu máli, og hins vegar ráðstefnuna Milepæl i nordisk fremtidsforskning på sprog- og kulturområdet, sem haldin var í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands. Báðar ráðstefnurnar voru fjölsóttar og þóttu takast með eindæmum vel. Í tilefni af afmæli Vigdísar Finnbogadóttur 15. apríl hélt hinn þekkti málvísindamaður Peter Austin, prófessor við University of London, opinn fyrirlestur í Hátíðarsal Háskólans, sem bar heitið: 7000 tungumál veraldar-Fjölbreytni tungumála og menningar-staðbundið og á heimsvísu. Við þetta tækifæri var úthlutað í fyrsta sinn úr Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

Að venju var Evrópski tungumáladagurinn haldinn hátíðlegur. Að þessu sinni var efnt til fjölbreyttrar dagskrár í Hátíðarsal Háskólans í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, STÍL – samtök tungumálakennara og samtökin AUS, AFS og Móðurmál.

Áfram var unnið að undirbúningi fyrir byggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem mun rísa á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu. Efnt var til hönnunarsamkeppni um bygginguna sem verður um fjögur þúsund fermetrar að stærð þegar bílakjallari er talinn með. Niðurstöður í hönnunarsamkeppni verða kynntar um miðjan maí 2012 og er áætlað að verklegar framkvæmdir geti hafist á fyrri hluta árs 2013 og að byggingin verði tekin í notkun haustið 2014. Íslensk stjórnvöld leituðu eftir samþykki Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, um að alþjóðlega tungumálamiðstöðin fengi að starfa undir formerkjum hennar og var það samþykkt á ársfundi UNESCO í nóvember. Í þessu felst mikil viðurkenning á störfum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og mikilvægur stuðningur við framtíðaráform hennar.

X