EUROCALL 2022 ráðstefnan haldin rafrænt

Ráðstefnan EUROCALL 2022 var haldin á rafrænan hátt dagana 16.-19. ágúst 2022, en hún er haldin árlega að tilstuðlan samtakanna EUROCALL (The European Association for Computer Assisted Language Learning) sem stofnuð voru til að stuðla að sköpun og miðlun þekkingar á sviði hagnýtra málvísinda, stafrænnar kennslufræði, stafræns læsis og tölvustuddra samskipta. Um 280 manns sóttu ráðstefnuna. 

Í ár var þema ráðstefnunnar „Tungumálanám byggt á gervigreind: gagnagreiningarkerfi og notandagögn“ og var hún skipulögð af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 

Sofiya Zahova, framkvæmdastjóri Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, flutti opnunarræðu ráðstefnunnar. Í erindi sínu kallaði hún eftir því að EUROCALL samstarfsnetið samþætti tungumál minnihlutahópa og frumbyggja í starfi sínu sem framlag til Alþjóðlegs áratugar frumbyggjamála 2022-2032.

Ráðstefnan verður haldin að ári í Veröld - húsi Vigdísar.