06okt13:00Afhending Vigdísarverðlaunanna 202313:00 Viðburður :Viðburðir

Upplýsingar um Viðburð

Vigdísarverðlaunin 2023 verða veitt í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands föstudaginn 6. október.

Anne Carson, fornfræðingur og skáld, er handhafi Vigdísarverðlaunanna 2023.

Verðlaunin verða afhent í Hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 6. október 2023 kl. 13 og mun Carson flytja erindi af því tilefni.


Dagskrá

13:00 — Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands býður gesti velkomna og flytur ávarp

13:10 — Afhending Vigdísarverðlaunanna 2023

13:25 — Verðlaunahafinn ávarpar samkomuna

13:30 — Kaffiveitingar

13:50 — Fyrirlestur Anne Carson: Hesitation

Vigdísarverðlaunin eru árlega veitt einstaklingi, félagasamtökum, stofnunum eða öðrum sem brotið hafa blað með störfum sínum í þágu tungumála, menningarheima og þýðingastarfs. Verðlaunin voru sett á laggirnar til að heiðra og vekja athygli á lofsverðu framlagi Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrum forseta Íslands, til menningar og tungumála. Að verðlaununum standa Háskóli Íslands, menningar- og viðskiptaráðuneytið fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar.

Athöfnin fer fram á ensku og er öllum opin.

 

Um Anne Carson

Anne Carson, sérfræðingur í klassískum fræðum, skáld og þýðandi, er handhafi Vigdísarverðlaunanna 2023. Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingi sem brotið hefur blað með störfum sínum í þágu tungumála, menningar og þýðingastarfs. Íslensk stjórnvöld, Háskóli Íslands og Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar efndu til Vigdísarverðlauna í tilefni af stórafmæli Vigdísar Finnbogadóttur vorið 2020, en þá voru jafnframt liðin 40 ár frá sögulegu forsetakjöri hennar. Stuðningur Vigdísar við mikilvægi tungumála og menningar hefur öðrum þræði einkennt ævistarf hennar, en hún er velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO (Mennta, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna). Rektor Háskóla Íslands og fulltrúi menningar- og viðskiptaráðherra munu afhenda Carson verðlaunin við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands þann 6. október 2023 og mun Carson flytja erindi af því tilefni.

Anne Carson er fædd í Kanada. Hún hefur lengst af starfað sem prófessor í klassískum fræðum og kennt grísku og klassískar grískar bókmenntir við háskóla vestan hafs, meðal annars McGill, Princeton og New York-háskóla. Hún er einnig þekkt ljóðskáld, prósahöfundur, esseyisti og þýðandi. Framlag Anne Carson á sviði tungumála og menningar hefur vakið óskipta athygli í fræðum og listum. Efni skáldverka hennar er á stundum samofið arfi klassískrar menningar og gefur jafnframt vísbendingu um djúpstætt samband hugvísinda og listsköpunar. Hún hefur þýtt sum af helstu verkum klassískra bókmennta á forngrísku og latínu, og í skáldverkum ferjað ægifagra sýn harmleikjaskálda á svið samtímamenningar. Hún sver sig þannig í ætt við heimsþekkta rithöfunda nútímans sem fanga samspil sköpunar og eyðingar í mannlegri tilvist og samfélagi með því að horfa til arfs klassískrar menningar.

Carson er handhafi styrkja frá meðal annars Guggenheim Foundation, MacArthur Foundation og American Academy í Berlin. Hún var fyrsta konan til að hljóta T. S. Eliot Prize bókmenntaverðlaunin og henni hafa hlotnast ýmsar aðrar viðurkenningar, þar á meðal Griffin Poetry Prize. Með störfum sínum á sviði klassískra fræða, skáldskapar og þýðinga er Anne Carson verðugur handhafi Vigdísarverðlaunanna 2023.

Fyrri handhafar Vigdísarverðlaunanna eru Juergen Boos (2022), forstjóri Bókastefnunnar í Frankfurt, grænlenska ljóðskáldið og málvísindakonan Katti Frederiksen (2021), og færeyski málvísindamaðurinn, kennarinn og útgefandinn Jonhard Mikkelsen (2020). Í stjórn Vigdísarverðlauna frá 2022 sitja Rósa Signý Gísladóttir dósent í málvísindum (formaður stjórnar), tilnefnd af rektor Háskóla Íslands, Birna Bjarnadóttir rannsóknasérfræðingur í bókmenntum, tilefnd af Vigdísarstofnun, og Sigtryggur Magnason, íslenskufræðingur og aðstoðarmaður innviðaráðherra, tilnefndur af menningarmálaráðherra. Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu Háskóla Íslands, starfar með nefndinni.

 

Nánar um Vigdísarverðlaunin hér.

 

 

Tími

(Föstudagur) 13:00

X