í Fréttir, News, VIMIUC

Vigdísarstofnun, STÍL – Samtök tungumálakennara á Íslandi og Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands taka árlega höndum saman og halda upp á Evrópska tungumáladaginn, með stuðningi Mennta- og barnamálaráðuneytisins. 

Í ár hófst dagskráin með stuttu ávarpi Þórhalls Eyþórssonar, stjórnarmanns í Vigdísarstofnun – alþjóðlegri miðstöð tungumála og menningar, sem bauð gesti velkomna fyrir hönd stofnunarinnar. Kennslufræðingurinn Birgit Henriksen, prófessor emirita frá Kaupmannahafnarháskóla, hélt því næst erindi á ensku um efni bókarinnar Hvorfor gor jeg det, jeg gor? (2020). Í erindi sínu fjallaði hún um hvernig eigin hugmyndir kennara, þekking þeirra og reynsla  í tungumálanámi og -kennslu mótar gjarnan kennsluhætti þeirra. Telur Birgit að ígrundun eigin starfshátta liggi til grundvallar því að vinnulag kennara kallist á við samtímann og að framþróun verði í kennslu. 

Að lokum deildi Ragnheiður Kristinsdóttir, kennari í Verzlunarskólanum og stundakennari við Háskóla Íslands, reynslu sinni af spænskukennslu. Fjallaði hún um fjölbreyttar kennslu- og námsaðferðir þar sem ýmsum aðferðum er beitt til að stuðla að gleði kennara og nemenda í kennslustofunni og jákvæðu viðhorfi nemendanna til námsins.

Fundarstjórn var í höndum Eyjólfs Más Sigurðssonar, forstöðumanns Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands og að lokinni formlegri dagskrá gafst gestum tækifæri til spjalls og ráðagerða yfir léttum veitingum.


Birgit Henriksen hélt erindið „Why do teachers do what they do?“


Ragnheiður Kristinsdóttir fjallaði um gleði í tungumálakennslu

 

Aðrar fréttir
X