í Fréttir, News, VIMIUC

Börn, unglingar og fullorðnir gestir fjölmenntu á Japanshátíð sem haldin var í Veröld – húsi Vigdísar laugardaginn 18. janúar 2020. Þema hátíðarinnar voru Ólympíleikarnir, sem fara fram í Tókýó í Japan á þessu ári.  Sushikennsla, fyrirlestur um Júdóíþróttina og þjóðbúningamátun voru meðal þess sem stóð gestum til boða, auk þess sem hægt var að fá nafnið sitt skrautskrifað á japönsku.  Einn af hápunktum dagsins var magnaður trommuleikur á hefðbundnar japanskar Taiko-trommur, í flutningi sveitarinnar Munedaiko sem kom frá Ítalíu til að sýna listir sínar. Að venju sló „cosplay“ keppnin í gegn, og voru fjölmargir gesta klæddir upp í skrautlega búninga til að taka þátt í henni. 

Japanska hefur um árabil verið kennd við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Greinin nýtur mikilla vinsælda og er ein sú fjölmennasta við deildina. Gott félagslíf og samheldni hefur einkennt námsbrautina frá upphafi, en öll vinna við Japanshátíðina er unnin í sjálfboðavinnu nemenda og kennara hennar, með stuðningi frá Sendiráði Japans í Reykjavík. 

Rætt var við Gunnellu Þorgeirsdóttur, lektor í japönsku og aðalskipuleggjanda hátíðarinnar, í Fréttablaðinu og skemmtileg umfjöllun um hátíðina birtist á vefnum Visir.is og í fréttum Rúv. Meðfylgjandi myndir tók Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari Háskóla Íslands. 

   

     

    

Aðrar fréttir
X