í Óflokkað

Gro-Tove Sandsmark, lektor í norsku við Háskólann í Stavanger og fyrrum sendikennari í norsku við Háskóla Íslands, heldur fyrirlestur um skáldsagnaröð rithöfundarins Oles Edvards Rølvaag um norsku landnemana í Norður-Ameríku.

Fyrirlesturinn fer fram fimmtudaginn 18. febrúar kl. 16.30-17.30 í stofu 106 í Odda.

Rúmlega þriðjungur Norðmanna flutti til Ameríku á tímabilinu 1825-1925. Einn þeirra var Ole Rølvaag, sem skrifaði margar bækur um efnið. Þekktust er bókaröðin um Hansa-fjölskylduna:

  • I de dage – Fortælling om norske nykommere i Amerika. (1924).
  • I de dage – Riket grundlægges. (1925, báðar þýddar á ensku undir titlinum Giants in the Earth 1927).
  • Peder seier. (1928, á ensku Peder Victorious 1929).
  • Den signede dag. (1931, á ensku Their Father’s God, þýdd sama ár).

Bókaflokkurinn er óður til forfeðranna og formæðranna sem stofnuðu norræn samfélög í Miðvestrinu. Reynt er að halda í norska siði og norska tungu en enskan ræður ríkjum í skólanum og börnin eignast írska vini. Yngsti sonurinn, Peder Seier, giftist írskri konu. Menningar- og trúarbragðastríðin á heimilinu verða honum að falli í stjórnmálunum jafnt sem einkalífinu. Önnur vandamál eru undirliggjandi: Útrýmingu og brottrekstri frumbyggjana er ekki lýst en óhugnaður hvílir yfir fornum grafreit á jörð nýbýlisins, sérstaklega í upphafi skáldsögunnar. Skáldsögur Rølvaags eru áhugaverðar, bæði vegna þess að þær fjalla um mikilvæga sögulega atburði, en ekki síður vegna þess að þær varpa ljósi á málefni líðandi stundar. Örvænting, skortur, menningarárekstrar, klofin sjálfsmynd annarar kynslóðar í nýju landi eru sígild vandamál sem fylgja fólksflutningum og eru mjög áberandi í okkar samtíma. 

Athygli er vakin á því að fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku en ekki norsku, eins og áður var auglýst. Allir eru velkomnir.

Aðrar fréttir
X