í Óflokkað

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Rannsóknastofa í táknmálsfræðum standa fyrir fyrirlestri í tilefni af alþjóða móðurmálsdeginum sem haldinn er í febrúar.

Fyrirlesturinn fer fram mánudaginn 29. febrúar kl. 16:30 í stofu 101 í Odda og verður túlkað á milli íslensku og íslensks táknmáls.

Í þessum fyrirlestri verður sjónum beint að íslensku táknmáli en það er móðurmál um 300 Íslendinga. Júlía G. Hreinsdóttir, táknmálskennari og fagstjóri í íslensku táknmáli hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, mun kynna evrópska verkefnið PRO-Sign en markmið þess er að útbúa evrópska staðla í táknmálsfærni með áherslu á kennslu í táknmálsfræði og táknmálstúlkun. Verkefnið er hluti af Evrópska tungumálarammanum (CEFR).  Júlía mun fjalla um ólíka tungumálaramma fyrir raddmál og táknmál en þar skilur ólíkur miðlunarháttur á milli, raddmál eru tjáð með rödd og numin með heyrn en táknmál tjáð með höndum og numin með sjón. Táknmál hafa auk þess ekki ritmál eins og mörg raddmál gera. Farið verður yfir stöðu íslenska táknmálsins innan tungumálarammans og rætt um kennslu, námsefni, námsmat og fleira.

Að fyrirlestri loknum verða sýnd myndbönd frá Barnamenningarhátíð sem haldin var á degi íslenska táknmálsins 2016.

Allir eru velkomnir.

Aðrar fréttir
X