í Óflokkað

Toby Wikström, lektor í frönskum bókmenntum við Tulane University í Bandaríkjunum, flytur hádegisfyrirlestur föstudaginn 15. apríl frá kl. 12-13 í stofu 102 í Lögbergi. Andmælandi er Þorsteinn Helgason, dósent í sagnfræði og sögukennslu við Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn er haldinn á vegum námsleiðar í almennri bókmenntafræði og námsleiðar í Miðausturlandafræðum, í samvinnu við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og ber yfirskriftina „Var orientalismi alevrópskur? Ánauð í múslímskri Norður-Afríku frá íslensku og flæmsku sjónarhorni (1628-1656)“.

Ein helsta hugmynd sem Edward Said setur fram í síumdeildu og áhrifamiklu verki sínu Orientalisma (1978) er það að Evrópa skapaði eigin sjálfsmynd með því að skilgreina sig í andstöðu við múslímaheiminn til austurs, jafnvel áður en orientalisminn sjálfur myndaðist í seinni hluta 18. aldar.  Grundvöllur þessarar hugmyndar eru þau rök að ólík svæði í Evrópu, þrátt fyrir menningarlega og trúarlega fjölbreytni, litu á hin múslímsku Austurlönd á svipaðan hátt.  En hvað um hitt mikla menningarsvæðið sem liggur meðfram suðurströnd Evrópu, við Miðjarðarhafið? Fræðimenn í hinu vaxandi fagi Miðjarðarhafsfræðum (e. Mediterranean Studies) halda því fram að andstæðuparið kristni/islam sem má finna í hjarta kenningar Saids endurspeglar ekki hin óskýru mörk milli menningarheima og trúarbragða sem voru löngum einn helsti eiginleiki þessa svæðis.

Gagnrýni Miðjarðarhafsfræðinganna á orientalisma vekur nokkrar spurningar: 1. Var til (eins og Said myndi gera ráð fyrir) alevrópsk orðræða um múslímaheiminn byggð á reynslu frá Miðjarðarhafinu sjálfu, og tók þessi samevrópska orðræða þátt í myndun evrópskrar samvitundar?  2.  Ef slík orðræða var til, gætum við kallað hana orientalíska í þeim skilningi sem Said lagt í hugtakið?

Í fyrirlestri þessum verður leitast við að svara þessum spurningum með því að bera saman tvo texta um ánauð í Alsír í Norður-Afríku, sem komu frá afar ólíkum svæðum í Evrópu en sem voru samdir á svipuðum tíma: Reisubók síra Ólafs Egilssonar (1628), ein helsta heimild Íslendinga um Tyrkjaránið, og Söguna um ánauð og frelsun herramannsins Emanuel d´Aranda (1658) (La Relation de la captivité & liberté du sieur Emanuel D’Aranda), sem frönskumælandi Flæmingi ritaði. Samanburðurinn á þessum textum mun sýna að orientalismi er ekki dauðadæmdur þrátt fyrir mikla gagnrýni. Til þess að gera grein fyrir mótun evrópskrar sjálfsmyndar þurfa fræðimenn ekki að hafna orientalisma Saids, heldur nota hann í samspili við Miðjarðarhafsfræði.

Toby Wikström flytur fyrirlesturinn á ensku en Þorsteinn Helgason talar á íslensku.

Allir eru velkomnir.

Aðrar fréttir
X