í Óflokkað

Nefndarmenn og ritari nefndar grænlenska þingsins, Inatsisartut, fyrir menningu, menntir, rannsóknir og kirkju (Inatsisartuts Udvalg for Kultur, Uddannelse, Forskning og Kirke), ásamt starfsmanni þingsins, áttu fund með Auði Hauksdóttur, prófessor í dönsku, og Birnu Arnbjörnsdóttur, prófessor í ensku. Tilefni fundarins var það að nefndin hafði óskað eftir kynningu á rannsóknum Auðar á dönskukennslu og stöðu danskrar tungu hér á landi og rannsóknum Birnu á enskukennslu og stöðu ensku. Sérstaklega óskuðu gestirnir eftir upplýsingum um aðdraganda þess að farið var að kenna ensku sem fyrsta erlenda mál í íslenskum grunnskólum í stað dönsku og hvernig til hefði tekist með breytinguna. 

Á fundinum gafst einnig tækifæri til að kynna fyrir grænlensku gestunum fyrirætlanir um starfsemi Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar um tungumál og menningu, en stjórn stofnunarinnar hefur ákveðið að fyrstu árin verði starfsemin helguð tungumálum og menningu á Vestur-Norðurlöndum , þ.e. Grænlandi, Færeyjum, Íslandi og vesturströnd Noregs. Nú þegar hefur verið myndað samstarfsnet fræðimanna sem hafa sérhæft sig í tengslum tungumála og menningar á vestnorræna svæðinu og hefur það hlotið styrk frá Nordplus til tveggja ára. Einnig er fyrirhugað að setja upp sýningu um tungumál og menningu á Vestur-Norðurlöndum í nýbyggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem tekin verður í notkun í vor. Að fundinum loknum gafst gestunum tækifæri til að skoða bygginguna og kynna sér þá starfsemi sem þar verður.  

Gestirnir taldir að ofan: Mimi Karlsen, þingmaður og fv. mennta- og menningarmálaráðherra, Ineqi Kielsen þingmaður, Auður Hauksdóttir, Ole Heinrich, túlkur á skrifstofu grænlenska þingsins Inatsisartut, Peter Olsen, þingmaður og formaður nefndarinnar, og Rikke Frederiksen, ritari nefndarinnar og starfsmaður á skrifstofu þingsins.

 

Aðrar fréttir
X