í Óflokkað

Evrópski tungumáladagurinn var haldinn hátíðlegur í Veröld – húsi Vigdísar þriðjudaginn 26. september. Málþingið Mál er manns aðal var vel sótt, en um hundrað fyrrverandi og núverandi tungumálakennarar og aðrir gestir mættu til að hlusta á umræður kennara um stöðu og áskoranir í tungumálakennslu á Íslandi.

Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, opnaði málþingið og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO ávarpaði samkomuna.

Að því loknu ræddu kennarar um kennslu í sínu tungumáli. Fyrstar voru þær Auður Torfadóttir, fyrrverandi dósent í ensku, og Agnes Ósk Valdimarsdóttir, enskukennari við Fjölbrautarskólann í Ármúla. Þá ræddu Guðrún Tulinius og Hildur Jónsdóttir um spænskukennslu, en Guðrún er spænskukennari við Menntaskólanum í Hamrahlíð og Hildur við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.

Þá ræddu Ásmundur Guðmundsson, fyrrverandi þýskukennari í Menntaskólanum í Reykjavík, og Solveig Þórðardóttir, þýskukennari í Menntaskólanum við Sund, um þýskuna. Frönskuna ræddu Petrína Rós Karlsdóttir, frönskukennari og formaður STÍL, og Solveig Simha, frönskukennari við Landakotsskóla, en Jórunn Tómasdóttir frönskukennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja forfallaðist og því flutti Petrína Rós hennar erindi.

Að lokum var talað um dönskukennslu, og það gerðu þau Stella Guðmundsdóttir, fyrrverandi skólastjóri og dönskukennari við Æfingaskóla Kennaraháskóla Íslands, og Pelle Damby Carø, dönskukennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Hafdís Ingvarsdóttir prófessor stjórnaði málþinginu.

Að málþinginu loknu var boðið upp á léttar veitingar og umræður um tungumálakennslu héldu áfram. 

Hér má sjá fjölda mynda frá Kristni Ingvarssyni, ljósmyndara Háskóla Íslands. 

Aðrar fréttir
X