í Óflokkað

Heiðursverðlaun FIPLV, Fédération Internationale des Professeurs de Langues Vivantes, 2015, hlaut Hafdís Ingvarsdóttir, fyrsti formaður STÍL – Samtaka tungumálakennara á Íslandi og fyrrum prófessor við Háskóla Íslands í menntunarfræði og kennslufræði með kennslu erlendra tungumála sem sérsvið.

Hafdís hefur í starfi og rannsóknum sínum einkum beint sjónum að menntun tungumálakennara en einnig tungumálanámi og tungumálakennslu. STÍL tilnefndi Hafdísi fyrir störf hennar og afhentu Sigurborg Jónsdóttir, forseti NBR, Nordic Baltic Region of FIPLV, fyrir hönd FIPLV, og Petrína Rós Karlsdóttir, forseti STÍL, verðlaunin í Hannesarholti 18. febrúar. Af því tilefni heiðruðu samstarfmenn Hafdísar og fulltrúar aðildarfélaga STÍL hana með nærveru sinni.

Heiðursverðlaun Fédération Internationale des Professeurs de Langues Vivantes eru æðsta viðurkenning samtakanna og veitt þeim félögum sem skarað hafa fram úr á einu eða fleiri sviðum tungumálanáms og tungumálakennslu. 

Öll aðildarfélög FIPLV geta sótt um tilnefningu og þurfa að rökstyðja umsóknina með ítarlegum upplýsingum um menntun og störf viðkomandi í þágu tungumála. Allar umsóknir eru síðan teknar fyrir á sérstökum fundi framkvæmdastjórnar. Að þessu sinni voru fjórar umsóknir samþykktar, þar á meðal umsókn STÍL. Við óskum Hafdísi hjartanlega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.

Aðrar fréttir
X