í Óflokkað

Norrænt Café Lingua, sem verður haldið í Norræna húsinu fimmtudaginn 19. mars kl. 17-18.30, ber að þessu sinni yfirskriftina „Heimur sagnanna“.
 
Árið 2014 voru Íslendingasögur og -þættir gefin út í nýjum þýðingum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í inngangi að útgáfu sagnanna á hverju tungumáli fjalla þjóðhöfðingjar hvers lands um hlutverk sagnanna, bæði sem þjóðarbókmennta Íslendinga og sem norrænan menningararf. Einnig er rætt um þau gífurlegu áhrif sem sögurnar hafa haft á skrif fjölda norrænna rithöfunda. Í tilefni af þessari merku útgáfu verður í Norræna húsinu dagskrá þar sem rætt verður um áhrif Íslendingasagna á eitt þekktasta skáld Norðurlanda og það mikla verkefni að þýða Íslendingasögurnar á norræn mál.

Jón Karl Helgason, prófessor í bókmenntum við Háskóla Íslands, mun fyrst ræða hvernig norska leikskáldið Henrik Ibsen sótti í Íslendingasögur í upphafi rithöfundaferils síns. Síðan munu þrír þýðendur sagnanna, Gro-Tove Sandsmark, sendikennari í norsku við Háskóla Íslands, Gísli Magnússon, lektor í dönsku við Háskóla Íslands, og Mikael Males, nýdoktor í norrænum fræðum við Háskólann í Osló, segja frá reynslu sinni af þýðingunum. Þau ræða hvernig farið er að því að færa sögurnar á norrænar tungur nútímans og upplýsa hver var stefna ritstjóranna í hverju landi.

Café Lingua –  lifandi tungumál er tungumálavettvangur á vegum Borgarbókasafnsins og er þessi viðburður haldinn í samstarfi þess við Norræna húsið, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, námsleið í íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands sem og norræna lektora við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Háskóla Íslands.

Viðburðurinn fer fram á norrænum tungumálum. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

 

Aðrar fréttir
X