í Fréttir, News

Kennsla í hindí hófst í vikunni í Háskóla Íslands. Upphaf kennslunnar markar tímamót því þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á nám í hindí hér á landi. 

Hindí-kennslan er samstarfsverkefni Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands, Indverska sendiráðsins á Íslandi og Endurmenntunar Háskóla Íslands. Indverska sendiráðið útvegaði kennarann, Pranay Krishna Srivastava, en hann er prófessor við Háskólann í Allahabad. 

Boðið er upp á þrjú byrjendanámskeið í hindí, eitt á haustönn og tvö á vorönn, auk þess sem nú í haust er námskeið um indverska menningu og samfélag á boðstólum. 

Námskeiðin eru kennd á ensku og ákveðið var að hafa námið í samstarfi við Endurmenntun svo að fleiri geti nýtt sér þau. Nemendur við Háskóla Íslands geta tekið námskeiðin samhliða öðru námi, en öll námskeiðin eru til 5 ECTS eininga. 

Yfir 340 milljónir manna hafa hindí að móðurmáli, en tungumálið er meðal þeirra tungumála heimsins sem flestir hafa að móðurmáli. Útbreiðsla þess er ekki mikil utan Indlands.

Aðrar fréttir
X