í Óflokkað

Jóhanna Barðdal, rannsóknaprófessor í málvísindum við Háskólann í Gent í Belgíu og gestaprófessor við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Háskóla Íslands, heldur fyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur fimmtudaginn 5. mars kl. 12-13 í stofu 201 í Árnagarði í Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn ber yfirskriftina „Hvað er frumlag?“ Þórhallur Eyþórsson, prófessor í málvísindum við námsbraut í ensku, verður kynnir. Allir eru velkomnir.

Flest kenningarkerfi sem kennd eru við formalisma eru ofansækin („top-down”) en meirihluti þeirra kenningarkerfa sem kenna sig við fúnksjónalisma eru neðansækin („bottom-up”) (sjá Þórhall Eyþórsson og Jóhönnu Barðdal 2005). Ofansækin nálgun felur í sér að hugtakið frumlag er skilgreint fyrirfram og frumlagshegðunin er leidd af þeirri skilgreiningu og notuð sem frumlagspróf. Andstæð nálgun er neðansækin, en í því felst að frumlagsskilgreiningin er leidd af hegðun rökliðarins í frumlagsprófum. Með þessu móti er frumlagshugtakið skilgreint á grundvelli þeirra alhæfinga sem hægt er setja fram um hegðun viðkomandi rökliða í frumlagsprófunum sjálfum (sbr. umræðu hjá Jóhönnu Barðdal og fél. 2014). Enn fremur eru mörg dæmi þess að fræðimenn sleppi því að skilgreina hugtakið frumlag en beiti þess í stað frumlagsprófum til að sýna fram á að ákveðinn liður sé frumlag eða ekki. Í þessu viðhorfi er ekki um að ræða neina sjálfstæða skilgreiningu á frumlagshugtakinu.

Í þessum fyrirlestri verður farið yfir kosti og galla ofangreindra nálgana og afleiðingarnar skoðaðar fyrir rannsóknir á aukafallsfrumlögum í íslensku og skyldum málum, m.a. þýsku (sjá Jóhönnu Barðdal 2006). Leidd verða rök að því að aukin meðvitund um þær takmarkanir sem mismunandi nálganir setja okkur sé nauðsynleg svo að hægt sé að meta gildi frávika frá viðteknum hugmyndum um hegðun dæmigerðs frumlags og jafnframt draga beinar og rökréttar ályktanir um málfræðihlutverk aukafallsfrumlagsliða.
 
Ritaskrá:

  • Jóhanna Barðdal. 2006. Construction-Specific Properties of Syntactic Subjects in Icelandic and German. Cognitive Linguistics 17(1): 39–106.
  • Jóhanna Barðdal, Þórhallur Eyþórsson & Tonya Kim Dewey. 2014. Alternating predicates in Icelandic and German: A Sign-Based Construction Grammar Account. Working Papers in Scandinavian Syntax 93: 51–101.
  • Þórhallur Eyþórsson & Jóhanna Barðdal. 2005. Oblique Subjects: A Common Germanic Inheritance. Language 81(4): 824–881.

 
Jóhanna Barðdal lauk doktorsnámi í norrænum málvísindum frá Lundarháskóla árið 2001 og B.A.-prófi í íslensku og þýsku frá Háskóla Íslands árið 1992. Rannsóknarsvið hennar lýtur að föllum, þróun fallmörkunar, tengslum falla og málfræðihlutverka, tengslum falla og merkingarflokka sagna, pörun setningarlegra og merkingarlegra eiginleika í tákn, virkni og tilbrigðum í föllum og rökliðagerðum og sögulegum samanburðarrannsóknum, ásamt setningalegri og merkingarlegri endurgerð.
Jóhanna vinnur nú að samanburði á hegðun aukafallsfrumlaga í germönskum forn- og nútímamálum, í samvinnu við Þórhall Eyþórsson, og leiðir hún teymi fræðimanna sem beina sjónum sínum að þróun slíkra aukafallsrökliða í elstu lögum indó-evrópskrar tungu. Veglegir styrkir til verkefnisins hafa fengist frá Rannsóknarsjóði Björgvinjar, Rannsóknarráði Noregs og nú síðast frá Evrópska rannsóknarráðinu (European Research Council (ERC)).

Jóhanna hefur birt fjölda greina í alþjóðlegum tímaritum svo sem Language, Linguistics, Lingua, Journal of Linguistics, Studies in Language, Morphology, Cognitive Linguistics, Functions of Language, Nordic Journal of Linguistics, Diachronica, Language Dynamics and Change, Transactions of the Philological Society, Chicago Linguistic Society og Berkeley Linguistic Society. Hún hefur ritstýrt fjölda bóka og ritstýrir nú tímaritinu Journal of Historical Linguistics og bókaröðinni Brill’s Studies in Historical Linguistics. Einnig er hún varaformaður norræna málfræðifélagsins Scandinavian Association for Language and Cognition.

Áður en Jóhanna réðst til starfa í Gent hafði hún verið verkefnisstjóri og rannsóknardósent við Háskólann í Björgvin í Noregi. Þar áður var hún nýdoktor við sömu stofnun og enn áður aðjúnkt við Háskólann í Denton í Texas og stundakennari við Lundarháskóla í Svíþjóð og Manchesterháskóla í Englandi.

Nánar á heimasíðu Jóhönnu við Háskólann í Ghent.

Aðrar fréttir
X