í Fréttir, News

Kvenleiðtogar munu leiða saman hesta sína á opnum viðburði í Veröld – húsi Vigdísar næstkomandi þriðjudagskvöld, 19. nóvember kl. 20:00, til að ræða um konur, tungumál og menningu. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands, Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands, Julia Gillard fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, Dalia Grybauskaitė fyrrverandi forseti Litháen og Irma Erlingsdóttir, dósent við Háskóla Íslands taka þátt í pallborðsumræðum. Birna Arnbjörnsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, taka einnig þátt í viðburðinum. Ólöf Ragnarsdóttir, fréttamaður á Ríkisútvarpinu, mun stjórna umræðunum. 

Pallborðsumræðurnar eru opnar öllum á meðan húsrúm leyfir, en viðburðurinn er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Council of Women World Leaders. Viðburðurinn er haldinn í tengslum við Heimsþing alþjóðasamtakanna Women Political Leaders, Reykjavík Global Forum – Women Leaders, sem stendur yfir í Reykjavík dagana 18. til 20. nóvember. 

Frekari upplýsingar má nálgast á Facebook, en dagskráin er einnig hér fyrir neðan. 

Setning
Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor og forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttir í erlendum tungumálum

Inngangsorð
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands

Pallborðsumræður 
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands
Dalia Grybauskaitė, fyrrum forseti Litháen og fyrrum formaður Samtaka kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders)
Julia Gillard, fyrrum forsætisráðherra Ástralíu
Irma Erlingsdóttir, dósent og framkvæmdastjóri EDDU – öndvegisseturs og Alþjóðlegs jafnréttisskóla (GEST) við Háskóla Íslands

Umræðum stjórnar Ólöf Ragnarsdóttir, fréttamaður á RÚV.

Upptöku af viðburðinum verður streymt hér

 

 

Aðrar fréttir
X