Kvenleiðtogar ræddu konur, tungumál og menningu

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands, Julia Gillard fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, Dalia Grybauskaitė fyrrverandi forseti Litháen og Irma Erlingsdóttir, dósent við Háskóla Íslands ræddu vítt og breitt um konur, tungumál og menningu fyrir fullum sal í Veröld – húsi Vigdísar á þriðjudagskvöld. 

Ólöf Ragnarsdóttir fréttamaður á Ríkisútvarpinu stýrði umræðum þeirra, en áður en að þeim kom bauð Birna Arnbjörnsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, gesti velkomna. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávarpaði samkomuna einnig stuttlega og fjallaði meðal annars um verkefni og viðfangsefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Hægt er að lesa ræðu rektors hér. 

Frjóar umræður sköpuðust um ýmis mál sem tengjast konum, tungumálum og menningu, bæði meðal kvennanna fimm og einnig milli þeirra og gesta í salnum. 

Fundurinn var haldinn í samstarfi Háskóla Íslands, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og The Council of Women World Leaders. Hann var eins konar hliðarviðburður við Heimsþing alþjóðasamtakanna Women Political Leaders, Reykjavík Global Forum – Women Leaders, sem stóð yfir 18. til 20. nóvember. 

Upptaka frá viðburðinum "Women, leadership and the sustainability of languages and cultures".