Orðabókin
LEXÍA er orðabók sem birtist á vefnum. Orðabókin er milli íslensku og frönsku en ætlunin er að fleiri tungumál bætist við síðar. Orðabókin er unnin hjá tveimur háskólastofnunum í Reykjavík: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum (SVF) og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM). SÁM sér um íslenska orðabókarefnið og hefur yfirumsjón með verkinu, þ.m.t. kerfisstjórn og umsjón með gagnagrunni orðabókarinnar. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur ritstýrir franska hluta orðabókarinnar. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, opnaði Lexíu við hátíðlega athöfn í Veröld – húsi Vigdísar þann 16. júní 2021 að viðstöddum fjölda gesta, þar á meðal menningarmálaráðherra Frakklands, forsætisráðherra, rektor Háskóla Íslands og sendiherra Frakklands. Orðabókin var í vinnslu frá árinu 2015, eftir undirbúningstímabil sem hófst nokkru áður.
Orðaforði og efniviður
Orðaforðinn er á við meðalstóra orðabók, um 50 þúsund uppflettiorð. Einkum er um að ræða orð í nútímaíslensku, en einnig er hér að finna ýmis mikilvæg orð úr eldra máli, svo og forníslensku. Efni orðabókarinnar er í stöðugri endurskoðun og reglulega bætast við hana ný orð. Orðabókin er að nánast öllu leyti byggð á öðru verki, íslensk-skandinavísku orðabókinni ISLEX, sem er margmála veforðabók á vegum SÁM. Beygingar íslensku orðanna eru gefnar með tenglum í BÍN (Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls). Hljóðupptökur eru á framburði íslensku orðanna, og víða er að finna myndskreytingar í flettunum.
Ritstjórn og starfsmenn
Íslenski hlutinn: Þórdís Úlfarsdóttir aðalritstjóri, Halldóra Jónsdóttir ritstjóri og verkefnisstjóri
Franski hlutinn: Rósa Elín Davíðsdóttir ritstjóri og verkefnisstjóri frönsku, Jean-Christophe Salaün (frá 2015), François Heenen (frá 2016), Áslaug Marinósdóttir (2016-2017), Auður Sturludóttir (2017), Sigurbjörg Eðvarðsdóttir (frá 2017), Ólöf Pétursdóttir (frá 2017), Hallfríður Helgadóttir (2016-2017), Nathalie Tresch (orðaforði í lögfræði og fjármálum)

Fundur þátttakenda í september 2016: Karl Gadelii, Sorbonne háskóli, François Heenen, Háskóla Íslands, Anna H. Hannesdóttir, Háskólanum í Gautaborg, Jean-Christophe Salaün, Sorbonne háskóla, Þórdís Úlfarsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, HÍ, Rósa Elín Davíðsdóttir, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, HÍ, Áslaug Marinósdóttir, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, HÍ, Halla Helgadóttir, Háskólanum í Gautaborg.

Þátttakendur í verkefninu auk fulltrúa Erasmus plús samstarfsins, árið 2015: Halldóra Jónsdóttir, Ásdís Rósa Magnúsdóttir, Þórdís Úlfarsdóttir, Karl Gadelii, Rósa Elín Davíðsdóttir, Jean-Christophe Salaün, Anna Hannesdóttir, Magnús Sigurðsson, Erla Erlendsdóttir og Guðrún Kristinsdóttir.
Fjármögnun
Styrktaraðilar verkefnisins eru eftirfarandi:
- Undirbúningur verkefnisins var styrktur af efri deild franska þingsins árið 2013
- Menningarráðuneyti Frakklands (Ministère de la Culture): Délégation générale à la langue française et aux langues de France (DGLFLF)
- Centre National du livre – Bókmenntasjóður Frakklands
- Erasmus Plus áætlunin
- Fjárveiting fékkst frá mennta- og menningarmálaráðuneyti Íslands árið 2016 og árið 2020
- Málræktarsjóður 2017
- Kennslumálasjóður Háskóla Íslands
- Háskólasjóður
- Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur