í Óflokkað

Vinnufundir vegna samstarfsverkefnis á háskólastigi, sem styrkt er af Erasmus+ áætluninni, voru haldnir þann 16. og 17. september 2016. Aðalumræðuefnið var gerð íslensk-franskrar orðabókar á vefnum en einnig var fundað um kennslu í Sorbonne-háskóla á vormisseri 2017. Einn þáttur samstarfsverkefnisins er þróun námskeiða í orðabókafræði, annars vegar við Háskóla Íslands (námskeið fyrir nemendur í frönskum fræðum og þýðingafræði á haustmisseri 2016) og hins vegar við Sorbonne-háskóla (fyrir nemendur í norrænum fræðum á vormisseri 2017).

Ritstjórnarfundir hófust á því að framvinda orðabókarvinnunnar var rædd og vinnan framundan skipulögð og markmið sett fyrir janúar 2017. Hópnum gafst jafnframt tækifæri til að ræða bæði fræðilegar og aðferðafræðilegar áskoranir sem vinna við tvímála orðabók felur í sér og einnig var farið yfir helstu vandamál sem upp hafa komið við vinnuna við markmálið, frönsku. Fundirnir gerðu jafnframt kleift að fara yfir aðferðafræði orðabókarvinnunnar og samræma framsetningu. Einnig gafst starfsmönnum færi á að ræða um notkun textasafna og orðabóka við vinnuna.

Eftirfarandi sátu fundina:

  • Þórdís Úlfarsdóttir aðalritstjóri, Stofnun Árni Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskóla Íslands.
  • Rósa E. Davíðsdóttir, verkefnisstjóri og ritstjóri, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Háskóla Íslands.
  • Jean-Christophe Salaün, þýðandi og starfsmaður við orðabókina, Université Paris-Sorbonne – Paris IV.
  • Francois Heenen, aðjunkt í frönsku og starfsmaður við orðabókina, Háskóla Íslands.
  • Áslaug Marínósdóttir, málfræðingur og starfsmaður við orðabókina, Háskóla Íslands.
  • Anna H. Hannesdóttir, prófessor í norrænum málum við háskólann í Gautaborg og yfirmaður stofnunar í orðabókafræði (Lexikaliska institutet) við sama háskóla. Anna er ráðgjafi við orðabókarvinnuna.
  • Halla Helgadóttir, aðjunkt í íslensku og starfsmaður við orðabókina fyrir hönd Háskólans í Gautaborg.
  • Karl Gadelii, prófessor í málvísindum við deild germanskra og norrænna mála í Université Paris-Sorbonne – Paris IV og kennari námskeiðsins „FRA323 orðabækur og þýðingar“ við Háskóla Íslands haustið 2016.

Aðrir starfsmenn verkefnisins eru Halldóra Jónsdóttir, verkefnisstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Guðrún Kristinsdóttir, verkefnisstjóri hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. 

Myndatexti

Karl Gadelii, Francois Heenen, Anna H. Hannesdóttir, Jean-Christophe Salaün, Þórdís Úlfarsdóttir, Rósa E. Davíðsdóttir, Áslaug Marínósdóttir og Halla Helgadóttir.

Aðrar fréttir
X