í Óflokkað

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í samstarfi við námsleið í íslensku fyrir erlenda stúdenta við Háskóla Íslands, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Borgarbókasafn Reykjavíkur þróa um þessar mundir „tungumálaleikhús“ þar sem tungumál eru kennd í gegnum leiklist. Á haustmisseri fór fram tilraunaverkefni samstarfshópsins sem hrint var í framkvæmd í samvinnu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti.

Boðið var upp á íslenskukennslu í gegnum leiklist fyrir tvo hópa nemenda við FB sem hafa íslensku sem annað mál. Annar hópurinn var stutt á veg kominn í íslensku en hinn var skipaður lengra komnum nemendum. Í öðrum hópnum voru 15 nemendur og í hinum 19. Hóparnir tengdust námskeiðunum ÍSAN1BE05 – íslenska sem annað mál og ÍSAN1GE05 – Íslenska sem annað mál III og mældist íslenskukunnátta nemenda á styrkleikanum A2 til B1 samkvæmt Evrópska tungumálarammanum.

Námskeiðin hófust þann 12. september 2016 og fóru fram í Gerðubergi. Nemendur mættu einu sinni í viku 90 mín í senn í 13 vikur, frá 12. september til 5. desember 2016. Umsjónarkennarar hópanna f.h. Fjölbrautaskólans voru þau Gunnhildur Guðbjörnsdóttir og Ragnar Sveinn Magnússon. Kennarar í námskeiðinu voru þar María Garðarsdóttir, aðjunkt í íslensku fyrir erlenda stúdenta við Háskóla Íslands, og Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í frönsku við Háskóla Íslands, sem einnig hafði umsjón með námskeiðinu en hún hefur áralanga reynslu af kennslu tungumála í gegnum leiklist.

Námskeiðið tvinnaði saman leiklist og íslenskukennslu í óhefðbundnu kennsluumhverfi. Þátttaka nemenda var forsenda þess að námskeiðið næði tilætluðum árangri. Markmiðið var að efla hæfni í tjáningu talaðs máls, þjálfa framsögu, styrkja sjálfsímynd nemenda og ýta undir frásagnarhvöt þeirra og ímyndunarafl.
Lokasýning fór fram í Gerðubergi mánudaginn 5. desember kl. 16. Um var að ræða 35 mínútna sýningu þar sem nemendur sýndu stuttar uppsetningar á örsögum Elísabetar Jökulsdóttur ásamt því að flytja eigin ljóð.

Námskeiðið var unnið með styrk frá Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) og Þróunarsjóði innflytjendamála.

Hér má sjá myndir sem teknar voru á lokasýningunni.
 

Aðrar fréttir
X