Veröld – Hús Vigdísar hýsir tvær sýningar á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskóla Íslands í sýningarrýmum sem staðsett eru á fyrstu hæð hússins.

Á sýningunni Mál í mótun gefst kostur á að kanna hin ýmsu tungumál heimsins og fræðast um lífshlaup þeirra og í Vigdísarstofu er fjallað er um ævi og störf Vigdísar Finnbogadóttur. 

Við bjóðum skólahópum að heimsækja sýningarnar alla virka daga skólaársins (jan-maí og sep-nóv). Markhópur sýninganna eru nemendur á aldrinum 12-19 ára en tekið er á móti öðrum aldurshópum eftir samkomulagi. Kennsluvefur hefur verið settur upp fyrir sýningarnar þar sem kennarar geta sótt verkefni sem hægt er að vinna með nemendum fyrir og eftir heimsókn, og annað ítarefni í tengslum við tungumál.

Hægt er að bóka heimsókn á sýningarnar hér.

 

 

Mál í mótun

Mál í mótun er gagnvirk sýning um tungumál heimsins í Veröld – húsi Vigdísar. Sýningin var sett upp á vegum Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar. Hún er hluti af framlagi stofnunarinnar til Alþjóðlegs áratugar frumbyggjatungumála sem Sameinuðu þjóðirnar ýttu formlega úr vör árið 2022.

Á sýningunni Mál í mótun fá gestir tækifæri til að skyggnast inn í heim tungumálanna og kynnast hinum ýmsu tungumálum sem töluð eru í dag, allt frá gríðarstórum heimsmálum til fámennistungumála í útrýmingarhættu.

Við fræðumst um hinar fjölmörgu hliðar tungumála með hjálp gagnvirkra margmiðlunarverka og heyrum raddir á þeim ólíku málum sem töluð eru á Íslandi í dag. Við sjáum hvernig tungumál hafa þróast samhliða sögu mannsins á jörðinni í meira en 300.000 ár og hvernig þau hafa dreifst og flakkað heimshorna á milli. Loks kynnumst við lífshlaupi tungumála sem, líkt og önnur lifandi fyrirbæri, verða til, þróast og taka breytingum áður en þau loks deyja út. Þá veltum við fyrir okkur hvernig hægt er að stuðla að varðveislu tungumála svo að þau geti dafnað um ókomna tíð.

Faglegur umsjónarmaður: Birna Arnbjörnsdóttir.
Ritstjórar: Birna Arnbjörnsdóttir og Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir.
Sýningarhönnun: Gagarín og andrúm arkitektar.
Stýrihópur: Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir, Eyjólfur Már Sigurðsson og María Th. Ólafsdóttir.

 

 

Vigdísarstofa

Í Vigdísarstofu má finna sýningu þar sem fjallað er um ævi og störf Vigdísar Finnbogadóttur, forseta Íslands 1980–1996, en hún var skipuð velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO árið 1998.

Faglegur umsjónarmaður: Birna Arnbjörnsdóttir.
Sýningarhönnun: Gagarín og andrúm arkitektar.

 

Myndir: Gagarin/Magnús Elvar Jónsson og Vigdísarstofnun
Myndband: Gagarin
X