í Óflokkað

Auður Hauksdóttir, forstöðumaður SVF, og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, eru fulltrúar Íslands í samstarfsnetinu European Language Resource Coordination (ELRC). Um er að ræða samstarfshóp sem settur var á fót vorið 2015 innan Connecting Europe Facility-áætlunar Evrópusambandsins (http://ec.europa.eu/digital-agenda/en/connecting-europe-facility). Meginmarkmið samstarfshópsins er að safna og koma upp málgögnum sem geti nýst við þróun vélrænna þýðinga í þeim tilgangi að auðvelda aðgengi að þjónustu milli tungumála og málsvæða. Verkefnið nær til alls Evrópska efnahagssvæðisins, þ.e. opinberra tungumála Evrópusambandsríkjanna, auk norsku og íslensku. Í samstarfinu felst ábyrgð á að kynna verkefnið fyrir íslenskri stjórnsýslu með því að skipuleggja málþing þar sem lýst verður nauðsyn þess að safna málföngum (málföng er nýyrði fyrir hugtakið language resources, þ.e. málgögn og hugbúnað tengd tungumálum) en mikið magn sértækra málfanga er skilyrði fyrir vélrænum þýðingum.

Föstudaginn 11. nóvember 2016 var haldið málþing í Safnahúsinu við Hverfisgötu til að kynna átaksverkefnið á Íslandi. Ætlunin var að vekja athygli á verkefninu meðal aðila sem sinna þjónustu við almenning og fyrirtæki en ljóst er að verkefnið er til þess fallið að auka og bæta aðgengi almennings og fyrirtækja að stjórnsýslu og auðvelda samskipti við stjórnvöld.

Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri mennta- og menningarmálaráðuneytisins, setti málþingið, en aðrir framsögumenn voru:

 • Andrejs Vasiljevs, stjórnarformaður lettneska máltæknifyrirtækisins Tilde og stjórnarmaður í ELRC.
 • Markus Foti, verkefnisstjóri vélrænna þýðinga hjá Framkvæmdanefnd Evrópusambandsins.
 • Josef van Genabith, deildarstjóri fjöltyngdrar máltækni hjá Rannsóknamiðstöð Þýskalands í gervigreind (DFKI).
 • Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands.
 • Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu.
 • Steinþór Steingrímsson, verkefnisstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar.
 • Jón Guðnason, lektor í tækni- og verkfræðideild við Háskólann í Reykjavík.
 • Anna Björk Nikulásdóttir, rannsóknarmaður við Háskólann í Reykjavík.
 • Rihards Kalniņš, þróunarstjóri fyrir vélrænar lausnir í máltækni hjá lettneska máltæknifyrirtækinu Tilde og stjórnarmaður í ELRC.
 • Erla S. Árnadóttir, hæstaréttarlögmaður hjá Lex lögmannsstofu. 
 • Sigrún Þorgeirsdóttir, ritstjóri Hugtakasafns utanríkisráðuneytisins, fyrir Katrínu Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins.
 • Magnús Hauksson, rekstrarstjóri Neyðarlínunnar.
 • Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
 • Kolbeinn Björnsson, rekstrarráðgjafi hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

Fundarstjóri var Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

Hér má sjá ljósmyndir sem teknar voru á málþinginu í Safnahúsinu.

Aðrar fréttir
X