í Fréttir, VIMIUC

Margét II Danadrottning heimsótti Veröld – hús Vigdísar 1. desember og tók þar þátt í dagskrá í tilefni fullveldisafmælis Íslands. Með henni í för voru forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, en það voru þau Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sem tóku á móti þeim og gengu með þeim um hið glæsilega hús tungumálanna.

Eftir stutta skoðunarferð um opnunarsýningu Veraldar og Vigdísarstofu, þar sem Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku hélt ávarp, lá leiðin á Heimasvæði tungumála þar sem Danadrottning opnaði sýninguna Sagatid-Nutid, á teikningum Karin Birgitte Lund.

Næst tók við hátíðardagskrá í Veröld – húsi Vigdísar sem hófst með tónlistarflutningi Háskólakórsins.

Við tók kynning Eiríks Rögnvaldssonar og Jóhönnu Vigdísar Guðmundsdóttur á máltækniáætlun ríkisins og máltæknistofnuninni Almannarómi, og stuttar kynningar Margrétar Hallgrímsdóttur, þjóðminjavarðar á Þjóðminjasafni Íslands og Mette Skougaard, safnstjóra á Nationalhistorisk Museum. Í kjölfar þeirra var undirritaður samstarfssamningur Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Þjóðminjasafns Íslands og Nationalhistorisk Museum.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Flemming Besenbache, framkvæmdastjóri Carlsbergfondet, tilkynntu að því loknu um veitingu nýdoktorastyrkja, sem Margrét II. Danadrottning afhendi styrkþegum. Hátíðardagskrá lauk með því að Birna Arnbjörnsdóttir, stjórnarformaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, þakkaði gestum fyrir komuna.

Kynnir viðburðarins var Ann-Sofie Nielsen Gremaud, lektor í dönsku við Háskóla Íslands.

Upptöku af hátíðardagskránni má sjá á Youtube-rás Háskóla Íslands.
Myndir frá heimsókn Danadrottningar í Veröld er að finna á myndasíðu Háskóla Íslands.  Myndirnar tók Kristinn Ingvarsson.

Aðrar fréttir
X