í Fréttir, News, VIMIUC

Margt var um manninn í Veröld – húsi Vigdísar þegar sýning um fyrstu kynni Grænlendinga og Íslendinga var opnuð. Sýningin fjallar um þann merkilega atburð í sögu Íslands, þegar danska skipið Gustav Holm kom til Ísafjarðar árið 1925 með 89 Grænlendinga um borð. Segja má að samskipti Íslendinga og Grænlendinga hafi þá hafist og átti heimsókn Grænlendinga til Ísafjarðar mikinn þátt í að glæða skilning á milli þjóðanna tveggja.

Meðal viðstaddra var fyrsti sendimaður Grænlendinga á Íslandi, Jacob Isbosethsen sem ávarpaði sýningargesti og talaði um mikilvægi þess að styrkja enn frekar samgöngur milli landanna og menningarleg tengsl Grænlendinga og Íslendinga.

Sumarliði R. Ísleifsson sýningarhöfundur sagði frá sýningunni í útvarpsviðtali í þættinum Samfélagið sem hægt er að nálgast hér  og í viðtali sem birtist á vefsíðu Háskóla Íslands hér.

Aðstandendur sýningarinnar eru Stofnun Vígdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Byggðasafn Vestfjarða. Sýningarhöfundur er Sumarliði R. Ísleifsson. Sýningarhönnun í Veröld – húsi Vigdísar var í höndum Björns G. Björnssonar en í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni sá Ólafur Engilbertsson um hönnun. Grafískur hönnuður sýningarinnar var Helga Dögg.

Sýningin Fyrstu kynni – Grænlendingar á Ísafirði árið 1925 stendur  yfir í sýningarsal Veraldar – húss Vigdísar, frá 17. janúar til 30. júní 2019, og á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

 

Aðrar fréttir
X