í Fréttir, VIMIUC

Nýjasta hefti Milli mála er komið út. Milli mála er veftímarit í opnum aðgangi: millimala.hi.is

Nokkur áhersla er lögð á bókmenntaþýðingar í þessu hefti.

Í heftinu er að finna grein Guðrúnar Kristinsdóttur um franska gamanleikinn Tartuffe sem verður sýndur í Þjóðleikhúsinnu í apríl í nýrri þýðingu Hallgríms Helgasonar. Marion Lerner fjallar um hliðartexta í þýðingu Austurríkismannsins Josefs C. Poestions á Pilti og stúlku og rússneski þýðandinn Olga Markolova segir frá þýðingu sinni á skáldsögunni 101 Reykjavík. Erla Erlendsdóttir segir frá tökuorðum með rætur í samfélögum frumbyggja spænsku Ameríku og Irma Erlingsdóttir beinir sjónum að Hélène Cixous og túlkun hennar á hlutverki Norodoms Sihanouks í leikritinu L’histoire terrible mais inachevée de Norodom Sihanouk, roi du Cambodge.

Meðal bókmenntaþýðinga sem birtast í þessu hefti eru tvö ljóð eftir Wang Wei í þýðingu Jóns Egils Eyþórssonar og smásagan „Stöðvarstjórinn“ eftit Aleksander Púshkín í þýðingu Rebekku Þráinsdóttur. Kristín Guðrún Jónsdóttir þýðir tvær smásögur eftir argentínsku skáldkonuna Silvina Ocampo, „Rekkjuvoð jarðar“ og „Flauelskjóllinn“ og Áslaug Agnarsdóttir sömuleiðis tvær smásögur eftir rússneska rithöfundinn Varlam Tíkhnovítsj Shalamov, „Að næturlagi“ og „Smiðir“.

Milli mála er gefið út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Enn er hægt senda inn greinar í næsta hefti og er skilafrestur til 15. apríl. Ritstjórar Milli mála eru Rebekka Þráinsdóttir (rebekka@hi.is) og Ásdís R. Magnúsdóttir (asdisrm@hi.is).

Aðrar fréttir
X