í Fréttir, News, VIMIUC

Út er komið nýtt tölublað tímaritsins Milli mála hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Milli mála er gefið út í opnum vefaðgangi, millimala.hi.is. Ritstjórar heftisins eru Geir Þórarinn Þórarinsson, aðjunkt í klassískum málum, og Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku. 

Að þessu sinni eru sjö ritrýndar greinar í heftinu og er efni þeirra á sviði bókmennta, málvísinda, kennslufræði erlendra tungumála, þýðinga og ritunar. Kristín Ingvarsdóttir fjallar um Japansdvöl Nonna 1937–1938 og gerir grein fyrir áhrifum hans í japanskri menningu. Erla Erlendsdóttir fjallar um norrænan orðaforða sem barst inn í spænsku fyrr á öldum og af hvaða rótum hann er runninn. Samband minninga og málfræðilegrar þátíðar í frönsku er umfjöllunarefni François Frans Heenen. Birna Arnbjörnsdóttir lýsir þeirri þróun sem orðið hefur innan ensku-kennslunnar í að þjálfa nemendur í að skrifa á viðurkenndan hátt og á máli sem þykir við hæfi í fræðaheimi háskóla. Þórhallur Eyþórsson rekur dæmi um hvað lesa megi úr fornum heimildum og hugleiðir hvers eðlis dæmi þurfi að vera, þegar þau eru fá, til þess að draga megi af þeim ályktanir um tilvist málfræðifyrirbæra í fornu máli. Þorgerður Anna Björnsdóttir gerir hér  grein fyrir því efni sem þýtt hefur verið bæði úr íslensku á kínversku og úr kínversku á íslensku ásamt því að nefna höfunda og þýðendur. Angela Rawlings, Lara W. Hoffmann og Randi W. Stebbins rita um höfunda af erlendum uppruna sem vilja koma sér á framfæri á íslenskum ritvelli.

Í heftinu er einnig að finna verk átta höfunda sem þýdd hafa verið úr sex tungumálum. Geir Þórarinn Þórarinsson þýðir úr forngrísku varnarræðuna „Um morðið á Eratosþenesi“ eftir Lýsías. Helgi Skúli Kjartansson þýðir úr latínu ljóðið „Dies Irae“ eftir Tómas frá Celano með ítarlegum skýringum. Geir Sigurðsson þýðir úr þýsku söguna „Ragna og Níls“ eftir Hans Henny Jahnn og kynnir lífshlaup höfundar í stuttu máli. Undanfarið hafa verk Jahnns vakið eftirtekt fyrir að beina sjónum að ýmsum jaðarhópum.  Raddir kvenna heyrast í smásögum fjögurra kvenhöfunda. Hólmfríður Garðarsdóttir þýðir þrjár smásögur frá Paragvæ: „Þar til dauðinn aðskilur okkur“ eftir Neida de Mendonça, „Allt fór fjandans til“ eftir Chiquita Barreto og „Amalía leitar unnusta“ eftir Delfina Acosta. Sú fjórða er sagan „Matsí“ eftir Sidaóruang sem Hjörleifur Rafn Jónsson þýðir úr tælensku. Loks er þýðing Gunnhildar Jónatansdóttur á írska ljóðinu „Spurning um tungumálið“ (Ceist na Teangan) eftir Nuala Ní Dhomhnaill ásamt stuttri kynningu á höfundi.

Skilafrestur greina og þýðinga í næsta hefti er 1. mars 2021. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu tímaritsins, millimala.hi.is, og hjá ritstjórum þess, Geir Þórarni Þórarinssyni (gtt@hi.is) og Þórhildi Oddsdóttur (thorhild@hi.is).

Aðrar fréttir
X