í Fréttir, News

Bókin Heiman og heim – Sköpunarverk Guðbergs Bergssonar er komin út hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Hinu íslenskra bókmenntafélagi. Guðbergur er lykilhöfundur íslenskra nútímabókmennta og jafnframt mikilhæfur þýðandi heimsbókmennta á íslensku.

Bókin geymir sýn erlendra og innlendra skálda, rithöfunda, myndlistarmanna, þýðenda og fræðimanna á sköpunarverk Guðbergs. Höfundar greina eru Eric Boury, Hans Brückner, Ármann Jakobsson, Enrique Bernárdez, Erik Skyum-Nielsen, Massimo Rizzante, Birna Bjarnadóttir, Colm Tóibín og Ástráður Eysteinsson. Að auki geymir bókin viðtal Kristínar Ómarsdóttur við Guðberg Bergsson og smásögu eftir Luísa Costa Gomes.

Birna Bjarnadóttir er ritstjóri bókarinnar en hún er sérfræðingur í skáldskap Guðbergs. Birna starfar sem verkefnisstjóri hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Hún segir bókina byggja að stórum hluta á erindum sem flutt voru Guðbergi til heiðurs á alþjóðlegu málþingi í Hátíðarsal Háskóla Íslands 1. júní 2013 og við veitingu heiðursdoktorsnafnbótar þann sama dag.

Í bókinni birtist einnig æviágrip Guðbergs Bergssonar og fáeinar ljósmyndir úr lífi hans, þökk sé Guðbergsstofu, safni um líf og feril Guðbergs.

Guðbergur gefur einnig út bók fyrir jólin. Skáldið er eitt skrípatól – um ævi og skáldskap Fernando Pessoa er þýðing á meginhluta kvæða portúgalska rithöfundarins Pessoa auk þess sem greint er frá uppvexti, áhrifavöldum og bakgrunni skáldsins.

Til að fagna útgáfu bókanna tveggja verður haldið útgáfuhóf í Veröld – húsi Vigdísar á fimmtudag, 28. nóvember, klukkan 17. Það er öllum opið og boðið verður upp á léttar veitingar.

Dagskrá:

  • Birna Arnbjörnsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, býður fólk velkomið og stjórnar dagskrá
  • Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávarpar samkomuna
  • Birna Bjarnadóttir, verkefnisstjóri við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, segir fáein orð um bókina Heiman og heim. Sköpunarverk Guðbergs Bergssonar
  • Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingarfræðum, les úr Heiman og heim
  • Guðbergur Bergsson, skáld og þýðandi, segir fáein orð um portúgalska rithöfundinn Fernando Pessoa og les ljóð úr bókinni Skáldið er eitt skrípatól

 

Tómas R. Einarsson og Ómar Guðjónsson spila tónlist.

 

Aðrar fréttir
X