í Óflokkað

Miðvikudaginn 27. janúar opnuðu Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Aþena Vigdís Eggertsdóttir, dótturdóttir Vigdísar, Finnbogadóttur, nýja heimasíðu Vigdísar á nokkrum tungumálum (www.vigdis.is).

Vinnu við síðuna var hrint af stað í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á síðasta ári fyrir styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu.

Þær Þóra Kristín Jónsdóttir og Steinunn Stefánsdóttur endurskoðuðu innihald heimasíðunnar eins og hún var áður og þær Guðrún Kristinsdóttir, verkefnisstjóri Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Valgerður Jónasdóttir, grafískur hönnuður, og Sindri Snær Einarsson vefsmiður hafa unnið að endurgerð síðunnar sem nú birtist á fjórum tungumálum auk íslensku. Erlendu málin eru enska, danska, franska og þýska, en þýðingarnar önnuðust Anna Jeeves, Erik Skyum-Nielsen, Catherine Eyjólfsson og Sabine Leskopf.

Það er mikill veigur í því að fá síðuna á erlend mál, þar sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur berast mjög oft fyrirspurnir um ævi og störf Vigdísar erlendis frá.

Heimasíðan var opnuð með viðhöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands. Jón Atli Benediktsson rektor setti athöfnina og frú Vigdís Finnbogadóttir flutti ávarp. Athöfninni stjórnaði Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

Við sama tækifæri undirrituðu forsvarsmenn 11 fyrirtækja samninga um styrki til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem nú vinnur að undirbúningi að starfsemi Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar sem starfa mun undir merkjum UNESCO í nýbyggingu sem nú rís við Suðurgötu.

Aðrar fréttir
X