í Fréttir, VIMIUC

Nýtt vefnámskeið í finnlandssænsku sem byggist á hugmyndafræði Icelandic Online opnaði þann 23. maí 2019. Þetta er annað námskeiðið sem unnið hefur verið af Helsinkiháskóla í samstarfi við Icelandic Online, en samvinnan hófst árið 2016. Námskeiðið má finna undir slóðinni https://finlandswedishonline.fi/

Icelandic Online er samstarfsverkefni Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Um er að ræða vefnámskeið í íslensku sem öðru máli sem tekin voru til notkunar á tímabilinu 2004-2013 og eru ætluð til sjálfsnáms og öllum opin án endurgjalds. Um 200.000 manns víðs vegar um heim skráð sig í námskeiðin og þar af eru nú um 70.000 virkir notendur. Til að mæta snjalltækjavæðingu og breyttum áherslum í tölvustuddri tungumálakennslu var hafist handa við endurforritun Icelandic Online námskeiðanna árið 2014 sem lauk í desember árið 2018.

Icelandic Online hóf samvinnu við Fróðskaparsetrið í Færeyjum um að gera sams konar námskeið í færeysku sem öðru máli árið 2015 en fyrsta netnámskeiðið í færeysku opnaði 13. september 2016. Vinna við nýtt Icelandic Online námskeið ætlað börnum hófst í maí 2019 og er áætlað að það opni vorið 2020.

 

Aðrar fréttir
X