í Óflokkað

Vígsla Veraldar – húss Vigdísar í dag, sumardaginn fyrsta

Háskólabíó 20.04.17 kl: 15:00 – Sjá nánar.

Veröld – hús Vígdísar, sem helgað verður kennslu í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands og starfsemi Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, verður opnað við hátíðlega athöfn í dag, sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 20. apríl. Efnt verður til glæsilegrar hátíðardagskrár helgaðri tungumálum í Háskólabíói af því tilefni. Jafnframt verður fyrsta sýningin í sýningarsal hins nýja húss opnuð en hún er helguð störfum og hugðarefnum helsta hvatamanns hússins, Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands.

Eins og kunnugt er var efnt til samkeppni um heiti á húsið og bárust alls 800 tillögur í keppnina. Nafn hússins er samsett úr tveimur tillögum sem bárust, annars vegar „Veröld“, og hins vegar „Hús Vigdísar“.

Veröld – hús Vigdísar mun hýsa Vigdísarstofnun – alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar sem starfrækt er á grundvelli samkomulags milli íslenskra stjórnvalda og Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Í húsinu er einnig aðstaða fyrir fyrirlestra-, ráðstefnu- og sýningarhald og fyrir kennslu og rannsóknir í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Í húsinu er jafnframt sýningarsalur og Vigdísarstofa, rými sem er sérstaklega helgað kjöri Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta Íslands þann 29. júní 1980.

Við opnun hússins í dag, verður slegið upp sannkallaðri menningarveislu tengdri tungumálum. Hátíðin hefst í Háskólabíói kl. 15. Yfirskrift hennar er „Tungumál ljúka upp heimum“ og þar munu fjölmargir innlendir listamenn og kórar flytja tónlist og önnur verk á ótal tungumálum. Auk þess ávarpa samkomuna þau Vigdís Finnbogadóttir, velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO, Irina Bokova framkvæmdastjóri UNESCO, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Rigmor Dam, mennta- og menningarmálaráðherra Færeyja, Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Mònica Pereña, forseti Linguapax International, og Auður Ava Ólafsdóttir, rithöfundur og forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar um hátíðardagskrána.

Að lokinni hátíðardagskrá verður gengið að nýbyggingunni þar sem Vigdís Finnbogadóttir og Jón Atli Benediktsson bjóða gestum að ganga í bæinn. Á leiðinni milli húsanna hljóma söngvar frá ýmsum löndum.

Við vígslu hússins verður jafnframt opnuð sýningin „SAMTAL – DIALOGUE“ í sýningarsal hússins. Þar er fjallað í máli og myndum um störf og hugðarefni Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Munir á sýningunni eru í eigu Vigdísar Finnbogadóttur sem góðfúslega lánar þá á sýningartíma.

Nánari upplýsingar um sýninguna.

Viðburðurinn er öllum opinn meðan húsrúm leyfir og ég vonast til að sjá ykkur sem flest.

 

Aðrar fréttir
X