í Óflokkað

Norræn ráðstefna um skapandi samstarf þvert á landamæri tungumála og menningar – í Veröld 24. og 25-05-

Allir eiga sína sögu hvaðan sem þeir koma. Í fjölmenningarlegu samfélagi er það sameiginlegt verkefni okkar allra að flétta saman þessar sögur og skapa nýjar. 

Menningar- og menntastofnanir í samstarfi við ýmsa aðila í samfélaginu gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að skapa samtal í fjölbreyttu landslagi tungumála og menningar. Frá árinu 2008 hefur Borgarbókasafnið þróað öflugt fjölmenningarstarf sem byggir á þverfaglegu samstarfi við félög, stofnanir og einstaklinga, innanlands sem utan. 

Til að fagna þessum 10 ára áfanga og miðla reynslu okkar er þér boðið á norrænu ráðstefnuna “Rætur og vængir” í Veröld – húsi Vigdísar, 24. og 25. maí 2018. 

Hugmyndin er að sýna fram á hversu miklum árangri má ná með fjölbreyttu skapandi samstarfi sem nær þvert yfir samfélagið allt, skapa ný tengsl og hvetja til þróunar fleiri samstarfsverkefna á þessu sviði. Auk fjölmenningarlegra verkefna Borgarbókasafnsins og fjölmargra samstarfsaðila verða kynnt þrjú verkefni frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Meðal þeirra sem koma fram eru Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti og velgjörðarsendiherra tungumála á vegum UNESCO- menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Eliza Reid, forsetafrú. 

Við hvetjum sérstaklega fólk sem starfar á sviði menningar, menntunar, mannréttinda, lista og tungumála, og aðra áhugasama, að taka þátt á ráðstefnunni með okkur og þannig hafa áhrif á framtíð fjölmenningar og fjölbreytni í samfélaginu okkar.

Ráðstefnan er samstarf Borgarbókasafnsins við Norrænu ráðherranefndina, Norska menningarráðið, Vigdísarstofnun, mennta – og menningarmálaráðuneytið og íslensku UNESCO nefndina og er hluti af samnorræna verkefninu “Inkluderende kulturliv i Norden”.

Ráðstefnutungumál: Íslenska og enska Ráðstefnustjóri: Eva María Jónsdóttir

Skráning fer fram á ráðstefnusíðunni www.rootsandwings.is. Einnig er hægt að fylgjast með viðburðinum á Facebook. Fyrir nánari upplýsingar er hægt að senda tölvupóst á netfangið rootsandwings@reykjavik.is Við vonumst til að sjá sem allra flesta.

Myndband um ráðstefnuna má sjá hér.

Aðrar fréttir
X