í Óflokkað

Á fjölmennu málþingi í Hátíðarsal Háskóla Íslands í tilefni af evrópska tungumáladeginum, 26. september sl., færðu bræðurnir Guðmundur Andri og Örnólfur Thorssynir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur að gjöf viðamikið safn föður þeirra, Thors Vilhjálmssonar rithöfundar, af erlendum bókum. Safnið hefur að geyma margar af helstu perlum heimsbókmenntanna, einkum evrópskra samtímabókmennta. Þessi rausnarlega bókagjöf eins ástsælasta rithöfundar Íslendinga á síðari tímum og mikilvirks þýðanda erlendra bókmenna á íslensku eru stofnuninni mikils virði, ekki síst þar sem þýðingum er ætlað sérstakt hlutverk í alþjóðlegu tungumálamiðstöðinni, sem nú er í undirbúningi. 

Í gjafabréfi bræðranna segir svo: „Alla sína ævi leitaðist Thor við að fylgjast grannt með því sem efst var á baugi í bókmenntum heimsins hverju sinni. Hann leit á það sem hluta af rithöfundarstarfinu og þeirri menningarkynningu sem hann rækti alla tíð hér á landi. Hann viðaði að sér bókum, las þær vandlega, oft með pennann á lofti, svo að bækurnar bera þess persónuleg merki hver fór um þær höndum. Hann lagði sig sérstaklega eftir bókmenntum frá Frakklandi og Suður-Ameríku, Ítalíu, Spáni, Bandaríkjunum og Japan, án þess þó að vanrækja ýmis önnur lönd eða menningarsvæði.

Það er von okkar að bækur þessar megi nýtast áhugasömum lesendum og stúdentum um ókomin ár innan vébanda þessarar merku stofnunar og vera lifandi vitnisburður um mikilvægi þess að fylgjast með straumum sinnar tíðar af vakandi forvitni.“

Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands, veitti bókagjöfinni viðtöku. Hún þakkaði bræðrunum rausnarlega gjöf og góðan hug þeirra í garð stofnunarinnar en Thor reyndist stofnuninni mikill haukur í horni og sýndi henni mikla ræktarsemi. Bækurnar verða aðgengilegar í nýbyggingu stofnunarinnar sem tekin verður í notkun á næsta ári.  

Hér má heyra viðtal sem tekið var við Guðmund Andra, um bókagjöfina, í Víðsjánni 29. september 2016.

Hér má sjá myndir frá Evrópska tungumáladeginum.

 

Aðrar fréttir
X