í Óflokkað

Sebastian Drude, nýr forstöðumaður Vigdísarstofnunar, hóf störf 1. apríl. Hlutverk forstöðumanns er að annast daglegan rekstur stofnunarinnar auk þess að efla rannsókna- og þróunarstarf hennar.

Vigdísarstofnun verður starfrækt á grundvelli samkomulags milli íslenskra stjórnvalda og UNESCO. Auk rannsókna- og vísindastarfs er hlutverk Vigdísarstofnunar að vekja athygli á mikilvægi tungumála fyrir menningu alls mannkyns og gildi þýðinga og tungumálakunnáttu fyrir farsæl samskipti þjóða.

Formlega opnun Vigdísarstofnunar verður 20. apríl nk.

Áður gegndi Sebastian Drude starfi stjórnanda CLARIN stofnunarinnar í Hollandi, en hún er alþjóðlegur vettvangur fyrir samstarf og innviði á sviði málfræðirannsókna og stafrænnar tækni.

Hann lauk meistaraprófi í málfræði frá Freie Universität í Berlín árið 1997, doktorsprófi (Ph.D.) frá sama skóla 2002, og doktorsprófi hinu meira (Habilitation) frá Goethe-Universität Frankfurt am Main. Síðan þá hefur hann m.a. gegnt rannsóknarstöðu við samanburðarmálfræðistofnun Goethe-háskólans í Frankfurt, starfað sem vísindalegur verkefnastjóri hjá Max-Plank stofnuninni og yfirmaður tungumálasafns sömu stofnunar. Í störfum sínum hefur Drude lagt áherslu á skráningu tungumála, málgerðarfræði og máltækni.

 

Við hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur bjóðum hann velkominn til starfa og óskum honum velfarnaðar í starfi sínu.

 
Aðrar fréttir
X