Pistill um eldsvoðann sem gjöreyðilagði Þjóðminjasafn Brasilíu í gær, eftir Sebastian Drude, framkvæmdastjóri Alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar.
Í gærkvöldi missti heimurinn eina af sínum helstu vísinda- og menningarstofnunum, Þjóðminjasafn Brasilíu, staðsett í fyrrum kongungshöll landsins í Rio de Janeiro. Þar gjöreyðilagðist í miklum eldsvoða, elsta og stærsta safn náttúrugripa og sögulegra minja í Suður-Ameríku. Yfir 2 milljónir jarðfræðilegra og mannfræðilegra sýningargripa urðu eldinum að bráð, þar með taldar fornleifar á borð við elstu líkamsleifar mannfólks sem fundist hafa í Ameríku.
Dagurinn er ekki síst sorglegur fyrir frumbyggja Brasilíu og tungumál þeirra. Brasilía er eitt þeirra landa heims sem býr yfir flestum tungumálum, 150 til 220 tungumálum eftir því hvaða forsendur eru notaðar til aðgreiningar á tungumálum og mállýskum. Brasilía var eitt af fáum löndum heims sem unnið hefur á markvissan hátt að varðveislu og skráningu tungumála, og verið leiðandi í því verkefni, jafnt í Suður-Ameríku sem og á heimsvísu. Skrifstofur þeirra sem unnu að slíkum verkefnum gjöreyðilögðust í eldsvoðanum, en safnið hýsti ekki eingöngu sýningar og safngripi, heldur einnig mikilvæg fræðastörf mannfræðinga og málvísindamanna, ásamt því sem þar fór fram kennsla.
Bókasafnið sem glataðist í eldsvoðanum var án efa stærsta sérhæfða bókasafn Suður-Ameríku um frumbyggja og tungumál álfunnar. Þar voru einnig fjölmargar geymslur og hirslur, fullar af mikilvægum gögnum rannsóknarleiðangra fyrri tíma, sem biðu frekari rannsókna og útgáfu.
Bruni safnsins á sér stað á táknrænum tímamótum, aðeins nokkrum vikum eftir að 200 ára afmæli safnsins var fagnað í því vanrækta ástandi sem einkennt hefur safnið árum saman. Atburðurinn á sér stað í miðri stjórnmálakreppu sem felur ekki aðeins í sér ógn við borgaraleg réttindi, einkum frumbyggja og annarra minnihlutahópa, heldur einnig við menningu og vísindi í Brasilíu almennt, þar sem miklar framfarir höfðu orðið undanfarin 15 ár.