Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er rannsóknastofnun innan Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Stofnunin var sett á laggirnar í október 2001 í tengslum við 90 ára afmæli Háskóla Íslands og evrópska tungumálaárið. Stofnunin hefur notið þess heiðurs að bera nafn Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrum forseta Íslands og notið mikilvægrar liðveislu hennar í uppbyggingarstarfi stofnunarinnar.

Vigdís Finnbogadóttir hefur gegnt starfi velgjörðarsendiherra tungumála hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) frá árinu 1998. Jafnframt kenndi hún erlend tungumál um árabil í framhaldsskólum og við Háskóla Íslands auk þess sem hún hefur stutt tungumálakennslu í verki á margvíslegan hátt.

Stofnunin fær árlegt framlag frá Háskóla Íslands. Einnig hefur stofnunin notið velvildar fjölmargra innlendra og erlendra stuðningsaðila við að hrinda ákveðnum verkefnum í framkvæmd. Sjá nánari upplýsingar um Styrktaraðila Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, um Byggingarsjóð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og um Styrktarsjóð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

Stofnunin er starfrækt samkvæmt reglum sem samþykktar voru á stjórnarfundi Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands þann 22. desember 2010.

X