Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er rannsóknastofnun innan Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hún er vettvangur fræðimanna í Mála- og menningardeild sem stunda rannsóknir og kennslu í tengslum við þau tungumál sem nú eru kennd við deildina: arabísku, dönsku, ensku, frönsku, grísku, ítölsku, japönsku, kínversku, latínu, rússnesku, spænsku, sænsku og þýsku.
Fastir kennarar við Mála- og menningardeild eru félagar í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, nema þeir óski eftir og fái aðild að annarri grunnstofnun. Stundakennarar, sérfræðingar og styrkþegar stofnunarinnar, doktorsnemar á fagsviðum stofnunarinnar og aðrir kennarar við Háskóla Íslands geta sótt um og fengið aðild að stofnuninni með samþykki stjórnar á meðan þeir eru í námi eða starfa við Háskólann.

Hlutverk Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er:

  1. að vera vettvangur rannsókna í erlendum tungumálum, kennslufræði erlendra mála, máltileinkun, málvísindum, menningarfræðum, þýðingafræðum, bókmenntum og notagildi tungumála, ein eða í samvinnu við aðra;
  2. að stuðla að upplýstri umræðu á fagsviðum stofnunarinnar með því að gangast fyrir útgáfu, ráðstefnum, fyrirlestrum og hvers kyns annarri starfsemi sem stutt gæti rannsóknir og kennslu og eflt tengsl við alþjóðlegt háskólasamfélag sem og við íslenskt þjóðlíf;
  3. að veita rannsóknanemum, nýdoktorum og gestafræðimönnum aðstöðu og tækifæri til rannsóknastarfa eftir því sem kostur er og efla um leið tengsl rannsókna og kennslu
  4. að styðja starfsemi Alþjóðlegrar tungumálamiðstöðvar

Stofnunin er starfrækt samkvæmt reglum sem samþykktar voru á stjórnarfundi Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands þann 22. desember 2010.

Eins og aðrar undirstofnanir Hugvísindastofnunar fær Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur árlegt framlag frá Háskóla Íslands í gegnum Hugvísindastofnun. Einnig hefur stofnunin notið stuðnings fjölmargra innlendra og erlendra aðila við að hrinda ákveðnum verkefnum í framkvæmd. Sjá nánari upplýsingar um Styrktaraðila Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, um Byggingarsjóð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og um Styrktarsjóð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

X