Fræðimenn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur stunda margvíslegar rannsóknir á sviði tungumálakennslu, máltileinkunar, bókmennta, og menningarfræði. Stöðugt er verið að þróa nýjar aðferðir í tungumálakennslu og miðlun bókmennta og menningarfs mismunandi málheima og þjóða. Einnig fást margir við þýðingar, orðabókagerð og almennt kynningarstarf til að auka vægi tungumála í samfélaginu.

Rannsóknasvið fræðimanna stofnunarinnar eru: tungumálanám og -kennsla, máltaka, máltileinkun og tvítyngi, bókmenntir, menningarfræði, þýðingarfræði og málvísindi.

Fræðimenn stofnunarinnar eiga í viðamiklu alþjóðlegu samstarfi um rannsóknir, kennslu, þróunar- og nýbreytnistarf á síni sviði. Kennara- og nemendaskipti við erlenda háskóla eru snar þáttur í starfsemi stofnunarinnar. Stofnunin hefur notið þess að fjölmargir erlendir fræðimenn hafa starfað tímabundið við kennslu og rannsóknir á undanförnum árum.

RANNSÓKNASTOFUR, RANNSÓKNAVERKEFNI OG SAMSTARFSNET INNAN STOFNUNAR VIGDÍSAR FINNBOGADÓTTUR

 

Birtingarmynd tungumáls og menningar í námsgögnum til tungumálakennslu á Norðurlöndum
Megintilgangur þessa verkefnis, sem styrkt er af Nordplus Sprog, er að skoða námsefni ætlað til dönskukennslu á Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og Danmörku, ásamt sænskukennslu í Finnlandi. Áhersla er lögð á að skoða stöðuna á lokaári grunnskólanáms, en einnig námskeið fyrir útlendinga í Danmörku og sértæka sænskukennslu (sprogbad) fyrir yngri börn í Finnlandi. Þátttakendur koma frá háskólum á Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Færeyjum og njóta aðstoðar grunnskólakennara í öllum fimm löndum.
Nánari upplýsingar veitir Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku, thorhild@hi.is 

EDDA rannsóknasetur
EDDA er þverfaglegt rannsóknasetur í gagnrýnum samtímarannsóknum, með sérstaka áherslu á jafnrétti og margbreytileika. Setrið hóf starfsemi sína árið 2009. Rannsóknir setursins eru m.a. á sviði stjórnmála, þverþjóðlegra fræða, samfélags, menningar- og öryggismála, sjálfbærni og þróunar.
Nánari upplýsingar veitir Irma Erlingsdóttir, prófessor í frönsku, irma@hi.is

Fornfræðistofa
Fornfræðistofa er vettvangur fyrir rannsóknir í klassískum fræðum og fyrir þverfræðilegt samstarf um verkefni sem varða málefni og miðlun klassískra fræða.
Nánari upplýsingar veitir Geir Þórarinn Þórarinsson, aðjunkt í grísku og latínu, gtt@hi.is

Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð: Tekist á um borgaraþátttöku, vald stofnana og sameiginleg gæði
Í verkefninu er leitast við að rannsaka þá lærdóma sem draga má af íslenska stjórnarskrárferlinu sem hófst árið 2010. Fjallað er um vinnu Stjórnalagaráðs, sem afhenti Alþingi drög að nýrri stjórnarskrá árið 2011, og tilraunir til að vinna að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á árunum 2018 til 2025. Einnig eru fræðilegar forsendur þessarar endurskoðunar teknar til rækilegrar skoðunar.
Nánari upplýsingar veitir Jón Ólafsson, prófessor í menningarfræði, jonolafs@hi.is 

PRISEAL
Alþjóðlegt samstarfsnet um ritun fræðigreina á ensku og áhrif þess samkeppnishæfni fræðimanna sem skrifa á ensku sem öðru máli, á miðlun rannsóknarniðurstaða, og framlags til þekkingar. Ráðstefnur eru haldnar hvert þriðja ár, nú síðast við Vigdísarstofnun. Valdar greinar koma út í ráðstefnuritum s.s. hér.
Nánari upplýsingar veitir Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum, birnaarn@hi.is

Rannsóknaverkefni um birtingarmyndir syndarinnar
Syndin er vel þekkt stef í kristinni hugsun og um hana hefur verið fjallað frá fjölmörgum sjónarhornum, s.s. trú, heimspeki, sálarlífi og sektarvitund, lögum, ást, iðrun og ótta, í bókmenntum, listum og á fræðilegum vettvangi.  Í þessu verkefni er m.a. unnið út frá eftirfarandi spurningum: Hvernig kom syndin inn í heiðinn hugarheim Íslendinga? Hvaða breytingum tók hún við siðaskiptin? Hvar á syndin heima í trúlausum heimi? Hvernig birtist hún í bókmenntum, í samtímanum?  Á syndin sér rætur í náttúrunni, og tengist birtingarmynd hennar í mannheimi afstöðu okkar til náttúrunnar?
Nánari upplýsingar veitir Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönsku, asdisrm@hi.is

Rannsóknaverkefni um Norðurheimskautssvæðið í skoskum bókmenntum
Verkefnið snýst um að kortleggja skoskar bókmenntir sem fjalla um Norðurheimskautssvæðið (the Arctic) á einn eða annan hátt, allt frá nítjándu öld til dagsins í dag. Áhersla verður á að skoða bókmenntir sem fjalla um eða endurspegla á einhvern hátt sögulegar hvalveiðar á svæðinu, landkönnunarleiðangra þangað og tengsl/samskipti við frumbyggja svæðisins. Leitast er við að setja slíka bókmenntalega umfjöllun í samhengi við söguleg tengsl Skotlands við svæðið sem og þann mikla áhuga sem skosk stjórnvöld hafa sýnt á Norðurheimskautssvæðinu síðustu ár.
Nánari upplýsingar veitir Ingibjörg Ágústsdóttir, dósent í ensku, ingibjoa@hi.is

Rannsóknaverkefni um viðtökur franskra bókmennta á Íslandi
Í þessu verkefni er fjallað um þýðingasögu franskra bókmennta á íslensku, allt frá miðöldum til dagsins í dag. Markmiðið er að fá yfirsýn yfir þýðingarsöguna, til að byrja með þó aðeins afmarkaða kafla hennar. Aðferðir þýðenda verða skoðaðar og gerð grein fyrir stöðu og áhrifum þýddra verka innan íslenskrar bókmenntasögu og menningar.
Nánari upplýsingar veitir Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönsku, asdisrm@hi.is

RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum
Aðalmarkmið RIKK er að efla og samhæfa jafnréttisrannsóknir og rannsóknir í kvenna, kynja- og jafnréttisfræðum jafnframt því að vinna að og kynna niðurstöður rannsókna. RIKK miðlar þekkingu á sviði kvenna-, kynja- og jafnréttisfræða með því að gangast fyrir námskeiðum, fyrirlestrum, ráðstefnum og útgáfu.
Nánari upplýsingar veitir Irma Erlingsdóttir, prófessor í frönsku, irma@hi.is

RÍM – Rannsóknastofa í máltileinkun
Rannsóknastofa í máltileinkun er starfrækt við Háskóla Íslands og heyrir undir Hugvísindasvið. Hún byggist á samstarfi Málvísindastofnunar, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Tungumálamiðstöðvar og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Nánari upplýsingar veitir Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands, ems@hi.is

Roma in the Centre
Rannsóknanet fræðimanna sem stunda rannsóknir á bókmenntum, tungumáli og félagslegum málefnum Rómafólks um heim allan. Verkefnið stendur meðal annars fyrir ráðstefnum og útgáfu á smásagnasafninu Raddir Rómafólks: smásögur Sígauna sem kemur út árið 2020.
Nánari upplýsingar veitir Sofiya Zahova, rannsóknarsérfræðingur í bókmenntum Rómafólks, zahova@hi.is

Sprog- og kulturkontakt i Vestnorden
Tengsl tungumála og menningar og vistfræði tungumála á Vestur-Norðurlöndum eru í brennidepli hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur um þessar mundir. Markmiðið er að stuðla að aukinni þekkingu á stöðu tungumála á svæðinu jafnt í sögu sem samtíð. Með þetta að leiðarljósi hefur stofnunin komið á fót samstarfsnetinu Tengsl tungumála og menningar á vestnorræna svæðinu og hrint af stað tveimur rannsóknaverkefnum. Annað verkefnið er Tengsl færeysku, íslensku og norsku við dönsku á tímabilinu 1890-1920 og hitt er Tungumála barómeter, sem hefur að markmiði að skoða tengsl færeysku, grænlensku og íslensku við dönsku og ensku í samtímanum.
Nánari upplýsingar veitir Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku, auhau@hi.is

STUTT – Rannsóknastofa í smásögum og styttri textum
Markmið stofunnar er að vera vettvangur fyrir rannsóknir, þýðingar og miðlun á smásögum og styttri textum fyrir fræðimenn og þýðendur úr ólíkum áttum. Með styttri textum er meðal annars átt við örsögur, brot, exempla, anekdótur, ævintýri, þjóðsögur, fabúlur, strengleika/stuttar ljóðsögur og esseyjur.
Nánari upplýsingar veitir Kristín Guðrún Jónsdóttir, dósent í spænsku, krjons@hi.is

WILA Workshop on Immigrant Languages in the Americas
Alþjóðlegt samstarfsnet um erfðarmál í Ameríku, WILA, hófst með ráðstefnu í Noregi 2010 og hefur haldið ráðstefnur í Evrópu og Ameríku til skiptis. Netverkið hefur gefið út ráðstefnurit á hverju ári síðan 2015.
Nánari upplýsingar veitir Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum, birnaarn@hi.is

Nánari upplýsingar um rannsóknir fræðimanna stofnunarinnar er að finna á heimasíðum þeirra.

X