Vigdís Finnbogadóttir og Auður Hauksdóttir tóku við gjöfinni frá húsnefnd Hallveigarstaða.

Veröld fær gjöf frá Hallveigarstöðum

Veröld – hús Vigdísar fékk veglega gjöf frá kvennaheimilinu Hallveigarstöðum í gær, á kvenréttindadaginn 19. júní og 50 ára afmæli Hallveigarstaða.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, veittu gjöfinni viðtöku í afmælisveislunni á Hallveigarstöðum síðdegis í gær. Þær tóku báðar til máls og þökkuðu fyrir þann vinarhug sem gjöfinni fylgir.

Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands og formaður húsnefndar Hallveigarstaða, ávarpaði fundinn. Það gerði einnig Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Ragnheiður Gröndal söng við afmælishátíðina. Rúmlega tvö hundruð manns, langmest konur, komu á afmælishátíðina.

Safn bóka Thors Vilhjálmssonar

Á fjölmennu málþingi í Hátíðarsal Háskóla Íslands í tilefni af evrópska tungumáladeginum, 26. september sl., færðu bræðurnir Guðmundur Andri og Örnólfur Thorssynir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur að gjöf viðamikið safn föður þeirra, Thors Vilhjálmssonar rithöfundar, af erlendum bókum. Safnið hefur að geyma margar af helstu perlum heimsbókmenntanna, einkum evrópskra samtímabókmennta. Þessi rausnarlega bókagjöf eins ástsælasta rithöfundar Íslendinga á síðari tímum og mikilvirks þýðanda erlendra bókmenna á íslensku eru stofnuninni mikils virði, ekki síst þar sem þýðingum er ætlað sérstakt hlutverk í alþjóðlegu tungumálamiðstöðinni, sem nú er í undirbúningi.

Í gjafabréfi bræðranna segir svo: „Alla sína ævi leitaðist Thor við að fylgjast grannt með því sem efst var á baugi í bókmenntum heimsins hverju sinni. Hann leit á það sem hluta af rithöfundarstarfinu og þeirri menningarkynningu sem hann rækti alla tíð hér á landi. Hann viðaði að sér bókum, las þær vandlega, oft með pennann á lofti, svo að bækurnar bera þess persónuleg merki hver fór um þær höndum. Hann lagði sig sérstaklega eftir bókmenntum frá Frakklandi og Suður-Ameríku, Ítalíu, Spáni, Bandaríkjunum og Japan, án þess þó að vanrækja ýmis önnur lönd eða menningarsvæði.

Það er von okkar að bækur þessar megi nýtast áhugasömum lesendum og stúdentum um ókomin ár innan vébanda þessarar merku stofnunar og vera lifandi vitnisburður um mikilvægi þess að fylgjast með straumum sinnar tíðar af vakandi forvitni.“

Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands, veitti bókagjöfinni viðtöku. Hún þakkaði bræðrunum rausnarlega gjöf og góðan hug þeirra í garð stofnunarinnar en Thor reyndist stofnuninni mikill haukur í horni og sýndi henni mikla ræktarsemi. Bækurnar verða aðgengilegar í nýbyggingu stofnunarinnar sem tekin verður í notkun á næsta ári.

Hér má heyra viðtal sem tekið var við Guðmund Andra, um bókagjöfina, í Víðsjánni 29. september 2016.

Stofnun Vigdísar hlýtur styrk frá Creditinfo, Íslandsbanka, Veritas og Pfaff

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fékk afhent safn upplýsinga um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur í gær. Efnið verður gert aðgengilegt á www.vigdis.is ásamt fjölda ljósmynda sem eru til vitnis um mikilvægt framlag hennar hér heima og erlendis. Áhersla verður lögð á skýra framsetningu efnisins.

Valdar verða ljósmyndir sem verða skannaðar, unnar og aðlagaðar að vef. Notast verður við fjölmiðlaefni í þremur bókum sem safnað var af fjölmiðlavakt Creditinfo en auk þess verður nýju efni bætt við frá árinu 2009 til dagsins í dag. Hluta efnisins verður hægt að skoða í Vigdísarstofu sem verður til húsa í nýbyggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem nú rís við Suðurgötu. Stofnunin verður vígð vorið 2017.

Þetta viðamikla verkefni mun sjá til þess að varðveita heimildir um forsetatíð Vigdísar og auka aðgengi allra að efni um hana.

Creditinfo, Íslandsbanki, Veritas Capital og Pfaff standa að verkefninu.

Styrktaraðilar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur 27. janúar 2016

Veglegir styrkir til starfsemi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur

Forsvarsmenn ellefu stórra fyrirtækja úr íslensku atvinnulífi og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu í dag samninga um veglega styrki til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Undirritunin fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands að viðstaddri Vigdís Finnbogadóttur, Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra og fjölda annara gesta.

Fyrirtækin sem standa að samningunum eru Landsbankinn, Icelandair Group, Radisson Blu Hótel Saga, Arion banki, Alvogen, Bláa Lónið, Kvika, Reginn, Íslandsbanki, Íslandshótel og N1. Styrkirnir eru allir nema einn til þriggja ára og nema árleg framlög frá 500 þúsundum til tveggja milljóna króna. Hæstu framlögin eru frá  Landsbankanum (6 milljónir), Icelandair Group (4,5 milljónir) og Radisson Blu Hótel Sögu (3,5 milljónir). Alvogen, Arion banki, Bláa Lónið, Kvika og Reginn leggja stofnuninni til 3 milljónir og Íslandsbanki, Íslandshótel og N1 1,5 milljón króna. Alls nema styrkirnir því 33,5 milljónum króna á samningstímanum.

Styrkjunum verður varið til daglegrar starfsemi vegna undirbúnings Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, sem mun starfa undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Með starfsemi alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar er ætlunin að heiðra störf Vigdísar í þágu tungumála og halda áfram því brautryðjendastarfi sem hún hefur unnið á alþjóðavettvangi sem fyrsti og eini velgjörðarsendiherrra tungumála í heiminum hjá UNESCO.

Við sama tækifæri opnuðu Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Aþena Vigdís Eggertsdóttir, dótturdóttir Vigdísar, nýja heimasíðu Vigdísar á nokkrum tungumálum (www.vigdis.is). Vinnu við síðuna var hrint af stað í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á síðasta ári fyrir styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. Þær Þóra Kristín Jónsdóttir og Steinunn Stefánsdóttur tóku að sér að endurskoða innihald hennar og þær Guðrún Kristinsdóttir, verkefnisstjóri Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Valgerður Jónasdóttir grafískur hönnuður og Sindri Snær Einarsson vefsmiður, hafa unnið að endurgerð síðunnar, sem nú birtist á fjórum tungumálum auk íslensku. Erlendu málin eru enska, danska, franska og þýska, en þýðingarnar önnuðust Anna Jeeves, Erik Skyum-Nielsen, Katrín Eyjólfsson og Sabine Leskopf. Það er mikill veigur í því að fá síðuna á erlend mál, þar sem við fáum mjög oft fyrirspurnir um ævi og störf Vigdísar erlendis frá.

Á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu rís nú bygging Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, en hún mun hýsa alþjóðlegu tungumálamiðstöðina auk kennslu og rannsókna í erlendum tungumálum. Þar verður einnig Vigdísarstofa og aðstaða fyrir ráðstefnur og sýningar um framandi tungumál og menningu sem opnar verða gestum og gangandi. Sérstök áhersla verður lögð á að miðla upplýsingum um tengsl Íslands við umheiminn í sögu og samtíð til erlendra ferðamanna. Í þessu nýja þekkingarsetri felast gríðarleg tækifæri til nýsköpunar, ekki síst í tengslum við vísindastarfsemi og menningartengda ferðaþjónustu.

Með veglegum framlögum sínum taka fyrirtækin höndum saman við Háskóla Íslands um að hrinda þessu metnaðarfulla verkefni í framkvæmd.

Guðný Ýr Jónsdóttir með heildarsafn Proust og frönsk ljóð frá 16. öld

Frönsk öndvegisverk úr bókasafni Sigfúsar Daðasonar

Guðný Ýr Jónsdóttir, ekkja Sigfúsar Daðasonar skálds, færði Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur að gjöf heildarútgáfu La Pléiade-bókaflokks Gallimard-bókaútgáfunnar á heildarsafni Marcels Proust, A la recherche du temps perdu. Einnig færði hún stofnuninni að gjöf bókina Poètes du XVIème siècle, frá sömu bókaútgáfu. Þar er um að ræða safn franskra ljóða frá 16. öld.

Í bréfi Guðnýjar segir m.a.: „…Sigfús hafði einlægan áhuga á frönskum bókmenntum, allt frá námsárunum í Frakklandi til hinsta dags. Í einni ferð okkar til Parísar keyptum við þessa frábæru útgáfu sem nú hefur fengið nýjan samastað við hæfi, 19 árum eftir andlát Sigfúsar…“

Kann stofnunin Guðnýju miklar þakkir fyrir þessa fallegu gjöf.

Auður Hauksdóttir og Jóna Kjartansdóttir, amma Ragnars

Ragnar Halldórsson kvikmyndagerðarmaður gefur SVF höfundarrétt að heimildamynd sinni Ljós heimsins

Kvikmyndagerðarmaðurinn Ragnar Halldórsson gaf Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum höfundarrétt og eignarrétt á heimildamyndinni Ljós heimsins frá árinu 2001 ásamt kvikmynduðu myndefni sem tekið var upp í tengslum við heimildamyndina. Ragnar kvikmyndaði myndina og var alfarið framleiðandi, leikstjóri og höfundur hennar.

Myndin er 70 mín að lengd og naut á sínum tíma styrks frá Kvikmyndasjóði Íslands. Það var amma kvikmyndagerðarmannsins, Jóna Kjartansdóttir, sem færði stofnuninni myndefnið föstudaginn 20. nóvember 2015, en Ragnar er búsettur erlendis. Heimildamyndin verður sett á stafrænt form og gerð aðgengileg til áhorfs á heimasíðu Vigdísar Finnbogadóttur, www.vigdis.is/. Hún mun einnig koma sér vel við hönnun sýningar um Vigdísi í alþjóðlegu tungumálamiðstöðinni sem nú er í byggingu við Suðurgötu.

Hér má sjá gjafabréf Ragnars.

Fleiri styrkir

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur fær árlegt framlag frá Háskóla Íslands en auk þess hafa fyrirtæki, stofnanir og rannsóknar- og menninarsjóðir lagt stofnuninni lið. Til vinstri í veftré má sjá yfirlit yfir styrktaraðila og aðra styrki sem stofnunin hefur hlotið, eftir árum.

2015

Bakhjarlar stofnunarinnar á árinu 2015 var Arion banki sem styrkir stofnunina með tveggja milljón kr. framlagi samkvæmt samningi frá árslokum 2012, og fyrirtækin Íslandshótel, Landsbankinn, MP-banki, Promens og fasteignafyrirtækið Reginn sem styrkja Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur með einnar milljón króna árlegu framlagi, og Bláa lónið, Icelandair Group, Icelandic Group og olíufélagið N1 sem lögðu stofnuninni til 500.000 krónur í samræmi við samning sem gerður var árið 2013.

Ásdís Thoroddsen, kvikmyndagerðarkona og framleiðandi, færði Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur að gjöf bókina Íslenzk-rússnesk orðabók sem gefin var út árið 1962 af Ríkisútgáfu orðabóka yfir erlendar og innlendar tungur í Moskvu. Valerij P. Bérkov ritaði bókina með aðstoð Árna Böðvarssonar. Orðabókin er 1032 bls. Í bréfi til stofnunarinnar dagsettu 11. október 2015 segir Ásdís að bókina hafi átt faðir sinn Sigurður S. Thoroddsen verkfræðingur sem lærði dálitla rússnesku þegar hann var settur í viðskiptanefnd á vegum íslensku ríkisstjórnarinnar, líklega árið 1964. Nefnd þessi seldi Rússum síld, málningu og Álafoss-teppi. Einnig var verkfræðingurinn sendur í kynnisferð suður eftir Sovétríkjunum til að skoða stórvirkjanir í Dnépr og fleiri fljótum. Sigurður hafði allar götur síðan mikið yndi af rússnesku og rússneskum kvikmyndum.
Systkinin Elísabet og Kristín Bjarnadætur og Eiríkur og Vilhjálmur Bjarnasynir færðu í byrjun árs 2015 Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum bókagjöf úr safni föður síns, Bjarna Vilhjálmssonar, cand. mag., þjóðskjalavarðar. Um er að ræða dýrmætar orðabækur og önnur rit um danskt og íslenskt málfar sem eru kærkomin viðbót við bókakost Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Bækurnar munu sóma sér vel  í alþjóðlegu tungumálamiðstöðinni sem rísa mun á næstu misserum.

Bækurnar sem um er að ræða eru eftirfarandi :

 1. Björn Halldórsson. (1814). Lexicon islandico-latino-danicum. Ritstj. R. K. Rask. Fyrra hefti. Kaupmannahöfn: Apud J. H. Schubothum, Aulae Regiae Bibliopolam. 488 bls.
 2. Björn Halldórsson. (1814). Lexicon islandico-latino-danicum. Ritstj. R. K. Rask. Síðara hefti. Kaupmannahöfn: Apud J. H. Schubothum, Aulae Regiae Bibliopolam. 520 bls.
 3. Gunnlaugur O. Oddsen. (1819). Ordabók, sem inniheldr flest fágiæt, framandi og vandskilinn ord, en verda fyrir i dønskum bókum. Kaupmannahöfn: Þorsteinn E. Rangel. 184 bls.
 4. Jón Þorkelsson. (1876). Supplement til islandske ordbøger. Reykjavík: Einar Þórðarson. 639 bls.
 5. Konráð Gíslason. (1846). Um frum-parta íslenzkrar túngu í fornöld. Kaupmannahöfn: S. Trier. 242 bls.
 6. Konráð Gíslason. (1851). Dönsk orðabók með íslenzkum þýðingum. Kaupmannahöfn: Bianco Luno, hirðprentari. 596 bls.
 7. Magnús Jónsson. (1856). Stuttur leiðarvísir fyrir alþýðu til þess að skrifa íslenzku rjett og greinilega. Reykjavík: Prentsmiðja Íslands. 44 bls.
 8. Otto Jespersen. (1906). Stutt ensk mállýsing. Í íslenskri þýðingu Árna Þorvaldssonar og Böðvars Kristjánssonar. Reykjavík: Bókaverslun Guðmundar Gamalíelssonar. 91 bls.
 9. Rasmus Kristian Rask. (1811). Vejledning til det islandske eller gamle nordiske sprog. Kaupmannahöfn: Hofboghandler Schubothes Forlag. 286 bls.
 10. Thorleif T. Evanths. (1917). Norsk og dansk handels-leksikon. Kristiania: H. Aschehoug & co (W. Nygaard). 655 bls.
 11. Orð eins og forðum. (1985). Greinasafn til heiðurs Bjarna Vilhjálmssyni sjötugum.
X