Útgáfa Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur leggur áherslu á útgáfu fræðirita og þýðinga á erlendum bókmenntum og gefur árlega út tímaritið Milli mála með það að markmiði að styrkja fræðisvið stofnunarinnar.  Tvímála ritröð stofnunarinnar telur nú á annan tug bóka. Fyrsta verkið í röðinni var Yerma. Harmljóð í þremur þáttum og sex atriðum, sem kom út árið 2004. Ritröðin gegnir margþættu hlutverki. Hún nýtist nemendum á sviði tungumála, bókmennta og hugvísinda almennt, þar sem hún gefur þeim færi á að lesa þýðingu með frumtexta sér við hlið og auðveldar þannig skilning á verkinu og tungumáli þess. Tvímála útgáfur eru einnig ætlaðar unnendum fagurbókmennta og klassískra verka sem fá með þessu tækifæri til að bera saman textana tvo. Sérstök ritnefnd hefur starfað á vegum stofnunarinnar, en hana skipa:

  • Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönsku, asdisrm@hi.is
  • Kristín Guðrún Jónsdóttir, dósent í spænsku, krjons@hi.is

Útgáfuferli á verkum á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

Milli mála – Tímarit um erlend tungumál og menningu er gefið út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum (SVF) við Háskóla Íslands.  Milli mála birtir ritrýndar fræðigreinar á sviði erlendra tungumála, bókmennta, þýðinga, málvísinda og menntunarfræði en einnig birtir tímaritið þýðingar, viðtöl, ritdóma eða bókakynningar eftir því sem rúm leyfir hverju sinni.

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Milli mála.

Sunnudagsmatur og fleiri sögur Rómafólks

Smásagnasafnið Sunnudagsmatur og fleiri sögur Rómafólks er áttunda verkið sem kemur út í einmála ritröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og hefur að geyma smásögur eftir sex rithöfunda frá 20. og 21. öld: Georgí Tsvetkov, Ilonu Ferková, Jess Smith, Jorge Emilio Nedich, Jovan Nikolić og Matéo Maximoff. Verk þeirra eru fjölbreytileg og samin á ólíkum tungumálum en þeir sækja allir í sama menningarbrunn.

Sofiya Zahova, sérfræðingur í menningu og bókmenntum Rómafólks og Sígauna, valdi sögurnar sem eru frá Argentínu, Frakklandi, Rússlandi, Serbíu, Skotlandi og Tékklandi. Bókmenntir Rómafólks og Sígauna eru lítt þekktar hér á landi. Þær eru gjarnan nátengdar munnmælahefð og endurminningum. Verkin voru valin með það í huga að gefa sem fjölbreyttasta mynd af smásögum rómískra rithöfunda.

Sofiya Zahova og Ásdís Rósa Magnúsdóttir rita inngang bókarinnar þar sem saga rómískra bókmennta er rakin og sagt frá helstu einkennum þeirra. Málvísindamaðurinn Ian Hancock skrifar eftirmála en hann er þekktur talsmaður Rómafólks og Sígauna og hefur gefið út ýmis rit um sögu þeirra og bókmenntir.

Renata Emilsson Peskova, Rebekka Þráinsdóttir, Irena Guðrún Kojic, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Ásdís Rósa Magnúsdóttir þýddu sögurnar. Ritstjórar bókarinnar eru Sofiya Zahova, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Ásdís Rósa Magnúsdóttir.

Sunnudagsmatur og fleiri sögur Rómafólks er gefin út á Alþjóðlegum degi rómískunnar, þann 5. nóvember, af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaúgáfunni. Verkið er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta og Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Afmælisrit til Auðar Hauksdóttur sjötugrar

Út er komið Afmælisrit Auðar Hauksdóttur, fyrrum prófessors í dönsku og forstöðumanns Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, í tilefni sjötugsafmælis hennar vorið 2020.
Gísli Magnússon ritstýrði afmælisritinu, sem er á íslensku, dönsku og ensku. Eftirtaldir höfundar rituðu greinar í ritið: Anne Holmen, Birgit Henriksen, Birna Arnbjörnsdóttir, Oddný G. Sverrisdóttir, Þórhildur Oddsdóttir, Peter Juel Henrichsen, Erla Erlendsdóttir, Guðmundur Hálfdanarson, Ann-Sofie N. Gremaud, Sofiya Zahova, Birna Bjarnadóttir og Ásdís R. Magnúsdóttir.
Afmælisrit til Auðar Hauksdóttur sjötugrar er gefið út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og hægt að hlaða niður rafrænni útgáfu þess hér.

Við kvikuna – örsögur frá Rómönsku-Ameríku

Út er komin bókin Við kvikuna – örsögur frá Rómönsku-Ameríku. Örsagan á sér langa hefð í álfunni og sýnir bókin gróskuna og fjölbreytileikann sem hún hefur öðlast í meðförum rithöfunda álfunnar.
Bókin er sýnisbók og geymir alls kyns sögur. Oft er stutt í húmorinn, háðið og fantasíuna, stundum vilja sögurnar bíta og koma við kvikuna. Í Hugvarpi – hlaðvarpi Hugvísindasviðs Háskóla Íslands má fá nasasjón af örsögum bókarinnar. Þær eru 156 talsins eftir 49 höfunda frá Rómönsku-Ameríku, sú elsta er frá 1893 og sú yngsta frá 2014.
Kristín Guðrún Jónsdóttir valdi sögurnar, þýddi og skrifaði inngang.
Ritstjóri: Ásdís R. Magnúsdóttir. Ritnefnd Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum: Ásdís R. Magnúsdóttir og Rebekka Þráinsdóttir
Bókin við kvikuna – örsögur frá Rómönsku-Ameríku er gefin út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfan sér um dreifingu hennar.

Hernaðarlist Meistara Sun

Hernaðarlist Meistara Sun, eða á frummálinu Sunzi bingfa 孫子兵法, er eitt rómaðasta og víðlesnasta fornrit Kínverja. Bein áhrif þess á hernaðartækni Kínverja og þjóðanna í kring í tímanna rás verða vart ofmetin. Inntak ritsins endurspeglar einnig almennari „strategíska“ hugsun Kínverja sem beitt hefur verið á fjölmörgum sviðum daglegs lífs, til dæmis í stjórnmálum, viðskiptum og jafnvel kænskubrögðum sem tengjast ástum.

Þýðing Geirs Sigurðssonar sem hér birtist er fyrsta íslenska þýðingin úr fornkínversku og er frumtextinn birtur við hlið þýðingarinnar. Við þýðinguna hefur Geir ritað fjölmargar skýringar og ítarlegan inngang sem setur ritið í sögulegt samhengi og gerir grein fyrir heimspekinni sem bæði birtist og leynist í textanum.

Ritstjóri bókarinnar: Rebekka Þráinsdóttir
Ritnefnd Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum: Ásdís R. Magnúsdóttir og Rebekka Þráinsdóttir

Hernaðarlist Meistara Sun er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta og gefin út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfunni.

Milli mála 2019

Í Milli mála 2019 eru birtar greinar um ljóð Emily Dickinson, liti í spænskum og íslenskum orðasamböndum, tungumálanám og nýjungar í tungumálakennslu, íslenska þýðingu á Ríkharði III og verk rómíska rithöfundarins Matéos Maximoff. Kynningu á víkingum við Volgubakka og íslenska þýðing á kafla úr ferðabók Ibn Fadlan er að finna í heftinu ásamt þýðingum á verkum Caju Rude, Alejandrinu Gutiérrez, Carmen Quintana Cocolina og Matéos Maximoff.

Ritstjórar þessa heftis voru Ásdís R. Magnúsdóttir og Rebekka Þráinsdóttir.

Útgáfa Milli mála 2019 er styrkt af Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og heftið er aðgengilegt á heimasíðu tímaritsins: millimala.hi.is.

Raddir frá Spáni. Sögur eftir spænskar konur

Smásagnasafnið Raddir frá Spáni er komin út. Í safninu eru sögur eftir tuttugu og sex spænskar konur. Rithöfundarnir koma frá héruðum á meginlandi Spánar og frá Kanarí- og Baleareyjum. Smásögurnar – langar sögur og stuttar, örstuttar sögur og örsögur – spanna rúma öld og eru fjölbreyttar að efni og stíl. Þær fjalla um ástir og hatur, gleði og sorg, misrétti og ójöfnuð, vináttu og fjandskap, konur og karla, stöðu kvenna í samfélaginu og margt fleira. Erla Erlendsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands, valdi sögurnar, þýddi og skrifaði inngang. Ásdís Rósa Magnúsdóttir, prófessor í frönsku við Háskóla Íslands ritstýrði.

Útgáfan er styrkt af Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Miðstöð íslenskra bókmennta og Rannsóknasjóði Hugvísindastofnunar. Útgefandi er Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum en Háskólaútgáfan sá um dreifingu.

Languages Open Up Worlds – Words for Vigdís

Út er komin í enskri þýðingu Megan Matich, bókin Tungumál ljúka upp heimum – Orð handa Vigdísi, undir heitinu Languages Open Up Worlds – Words for Vigdís, en árið 2018 kom hún út í danskri þýðingu. Bækurnar koma nú allar þrjár út með nýrri og glæsilegri kápuhönnun Ragnars Helga Ólafssonar.

Bókin hefur að geyma hugleiðingar 27 íslenskra rithöfunda um tungumál. Textarnir eru ólíkir að gerð og lengd en fjalla um erlendar tungur og tungumálakunnáttu frá ýmsum sjónarhornum. Bókin var fyrst gefin út árið 2010 á áttatíu ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur og þegar 30 ár voru liðin frá sögufrægu forsetakjöri hennar. Með þessu vildu rithöfundar heiðra Vigdísi á merkum tímamótum og leggja sitt af mörkum svo að draumur hennar um Alþjóðlega tungumálamiðstöð gæti ræst. Bókin var endurútgefin á frummálinu í tilefni af opnun Vigdísarstofnunar og vígslu Veraldar 20. apríl 2017. Efnisyfirlit bókarinnar á íslensku má sjá hér.

Bókin fæst í íslenskri, enskri og danskri útgáfu, í Veröld – húsi Vigdísar. Tekið er á móti pöntunum í gegnum netfangið infovigdis@hi.is.

Hafið starfar í þögn minni: Þýðingar á ljóðum eftir Pablo Neruda

Í bókinni Hafið starfar í þögn minni: Þýðingar á ljóðum eftir Pablo Neruda er að finna, í tvímála útgáfu, heildarsafn þýðinga – af spænsku á íslensku – á ljóðum eftir síleska ljóðskáldið Pablo Neruda (1904-1973), sem hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1971.

Í ljóðasafninu birtast þýðingar á 40 ljóðum og ljóðabálkum eftir Neruda, sem 18 þýðendur hafa snúið á íslensku. Þetta er í fyrsta sinn sem umrædd ljóð koma út í heildstæðu ljóðasafni og er markmiðið að gera þau aðgengileg öllum þeim fjölmörgu sem áhuga hafa á ljóðlist, ljóðagerð Neruda, íslenskum þýðingum á verkum hans og ekki hvað síst þýðinga- og fagurfræði. Ekki er um frumþýðingar að ræða, heldur endurútgáfu ljóðaþýðinga sem margar hverjar birtust fyrir margt löngu og ekki eru aðgengilegar almenningi. Með hverju ljóði kemur fram hvar og hvenær þau komu út, bæði á frummálinu og í þýðingu.

Í bókinni er enn fremur að finna almennan inngang um ævi og störf Neruda sem Hólmfríður Garðarsdóttir ritar og þýðingu á grein eftir Edwin Williamson, prófessor við Exeter College í Oxford, um ljóðagerð Neruda. Grein Willamsons ber yfirskriftina „Remembering Pablo Neruda“. Sigrún Á. Eiríksdóttir íslenskar. Í grein sinni fjallar Williamson um efnistök og áherslu í nokkrum af þekktustu ljóðasöfnum Neruda. Bæði gera Willamson og Hólmfríður ljóðagerð skáldsins og sérkenni hans sem ljóðskálds að sérstöku umtalsefni og velta fyrir sér hlutverki Neruda í bókmenntasögu Rómönsku Ameríku. Sérstök áhersla er lögð á það hvernig uppvaxtarár skáldsins í Síle fylgja honum alla tíð og hvernig ástin og átökin sem móta viðburðaríka tilveru hans flettast með táknrænum hætti utan um þann stofn sem uppvaxtarárin mynda.

Ritstjóri bókarinnar er Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands en hún er gefin út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfunni. Útgáfan var styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta og Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Milli mála 2018

Milli mála 2018 er komið út í opnum aðgangi á síðunni millimala.hi.is. 

Nokkur áhersla er lögð á bókmenntaþýðingar í þessu hefti. Í heftinu er að finna grein Guðrúnar Kristinsdóttur um franska gamanleikinn Tartuffe sem verður sýndur í Þjóðleikhúsinnu í apríl í nýrri þýðingu Hallgríms Helgasonar. Marion Lerner fjallar um hliðartexta í þýðingu Austurríkismannsins Josefs C. Poestions á Pilti og stúlku og rússneski þýðandinn Olga Markolova segir frá þýðingu sinni á skáldsögunni 101 Reykjavík. Erla Erlendsdóttir segir frá tökuorðum með rætur í samfélögum frumbyggja spænsku Ameríku og Irma Erlingsdóttir beinir sjónum að Hélène Cixous og túlkun hennar á hlutverki Norodoms Sihanouks í leikritinu L’histoire terrible mais inachevée de Norodom Sihanouk, roi du Cambodge.

Meðal bókmenntaþýðinga sem birtast í þessu hefti eru tvö ljóð eftir Wang Wei í þýðingu Jóns Egils Eyþórssonar og smásagan „Stöðvarstjórinn“ eftit Aleksander Púshkín í þýðingu Rebekku Þráinsdóttur. Kristín Guðrún Jónsdóttir þýðir tvær smásögur eftir argentínsku skáldkonuna Silvina Ocampo, „Rekkjuvoð jarðar“ og „Flauelskjóllinn“ og Áslaug Agnarsdóttir sömuleiðis tvær smásögur eftir rússneska rithöfundinn Varlam Tíkhnovítsj Shalamov, „Að næturlagi“ og „Smiðir“.

Milli mála 2018 er gefið út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Ritstjórar heftisins eru Rebekka Þráinsdóttir (rebekka@hi.is) og Ásdís R. Magnúsdóttir (asdisrm@hi.is).

Sprog åbner verdener – Ord tilegnet Vigdís Finnbogadóttir.

Út er komin í danskri þýðingu, bókin Tungumál ljúka upp heimum – Orð handa Vigdísi, undir heitinu Sprog åbner verdener – Ord tilegnet Vigdís Finnbogadóttir. Bókin hefur að geyma hugleiðingar 27 íslenskra rithöfunda um tungumál. Textarnir eru ólíkir að gerð og lengd en fjalla um erlendar tungur og tungumálakunnáttu frá ýmsum sjónarhornum. Bókin var fyrst gefin út árið 2010 á áttatíu ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur og þegar 30 ár voru liðin frá sögufrægu forsetakjöri hennar. Með þessu vildu rithöfundar heiðra Vigdísi á merkum tímamótum og leggja sitt af mörkum svo að draumur hennar um Alþjóðlega tungumálamiðstöð gæti ræst. Bókin var endurútgefin á frummálinu í tilefni af opnun Vigdísarstofnunar og vígslu Veraldar 20. apríl 2017. Efnisyfirlit bókarinn á íslensku má sjá hér.

Bókin fæst, jafnt í íslenskri sem danskri útgáfu, í Veröld – húsi Vigdísar og kostar 4.500 kr. Einnig er tekið á móti pöntunum í gegnum netfangið infovigdis@hi.is.

Frá Púshkín til Pasternaks: Kennslubók í rússneskum bókmenntum 19. og 20. Aldar 
/ От Пушкина до Пастернака: Учебное пособие по русской литературе XIX-XX веков

Höfundur: Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku við Háskóla Íslands.
Meðhöfundur: Olga Korotkova, dósent við Lomonosov-háskólann í Moskvu.

 

 

 

 

Milli mála 2017 

Í japönsku eru margar ólíkar leiðir til að tjá kurteisi en fáar leiðir til þess í íslensku. Engu að síður eiga íslenska og japanska ýmislegt sameiginlegt og viðhorf Íslendinga og Japana til móðurmála sinna eru svipuð. Þetta er á meðal þess sem þær Karítas Hrundar Pálsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir rekja í greininni „Tungumál tveggja eylanda: Að hvaða leyti er japanska frábrugðin íslensku?“

Greinin birtist í nýju hefti af Milli mála – tímariti um erlend tungumál og menningu, sem er komið út hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í  erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Tímaritið kemur út einu sinni á ári í opnum vefaðgangi (millimala.hi.is) og birtir efni á sviði erlendra tungumála, þýðinga, málvísinda og menntunarfræði. Enn fremur skal vakin athygli á merkilegri grein á dönsku eftir Børge Kristiansen, sem er einkum kunnur fyrir skrif sín um Thomas Mann. Í greininni í þessu hefti fjallar Kristiansen um klofna sjálfsmynd í skáldsögunni Lord Jim eftir Joseph Conrad og tekur þar mið af heimspekikenningum Kierkegaards og Sartres.

Auk ritrýndra greina og þýðinga er í heftinu fróðlegt viðtal við Vigdísi Finnbogadóttur eftir Ásdísi R. Magnúsdóttur sem nefnist „Að spjalla við heiminn“. Ritstjórar eru þeir Gísli Magnússon og Þórhallur Eyþórsson.

Milli mála 2017

Heimar mætast. Smásögur frá Mexíkó

Út er komin hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunni bókin Heimar mætast. Smásögur frá Mexíkó. Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í löndum Rómönsku-Ameríku alla 20. öldina og fram á okkar daga, ekki síst í Mexíkó en þaðan koma margir af helstu rithöfundum álfunnar. Í bókinni eru sextán smásögur eftir sextán höfunda og spanna tímabilið frá 1952 til 2009. Þær veita innsýn í hið fjölbreytta mannlíf í Mexíkó þar sem ólíkir menningarheimar og ólíkir tímar mætast.

Kristín Guðrún Jónsdóttir valdi sögurnar, þýddi og skrifaði inngang. Ritstjóri er Erla Erlendsdóttir.

Í bókinni eru sögur eftirtalinna höfunda:

Juan de la Cabada / Juan José Arreola / Juan Rulfo / Carlos Fuentes / Inés Arredondo / Elena Garro / José Emilio Pacheco / Rosario Castellaños / Elena Poniatowska / Hernán Lara Zavala / Silvia Molina / Guillermo Samperio / Ángeles Mastretta / Rosario Sanmiguel / Eduardo Antonio Parra / Cristina Rivera Garza

Bókin er 236 bls. að lengd.

Intimacy of Words / Innileiki orðanna

Pétur Knútsson (Peter Ridgewell) lét af störfum sínum sem dósent í enskum málvísindum við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda í Háskóla Íslands haustið 2012 eftir 34 ár í starfi. Pétri til heiðurs og sem þakkarvottur fyrir frábæra samvinnu og samveru ákváðu samstarfsmenn hans að gefa út rit þar sem kæmu saman fræðigreinar sem tengdust þeim margvíslegu fræðasviðum sem hann hefur sinnt. An Intimacy of Words/Innileiki orðanna. Essays in Honour of Pétur Knútsson/Festschrift til heiðurs Pétri Knútssyni mun koma út hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfunni um miðjan nóvember 2015, með liðsinni Málvísindastofnunar. Ritið verður um 350 bls. að lengd.

ACTES/ACTAS/ATTI ROM Reykjavík 2014

ACTES/ACTAS/ATTI ROM Reykjavík 2014

Ráðstefnurit frá Ráðstefnu norrænna rómanista í Reykjavík 2014, XIXème Congrès des romanistes scandinaves, Université de Islande, du 12 au 15 août 2014.
Ritstjóri: Sigrún Á. Eiríksdóttir.

Vefútgáfa af ritinu.

Rangan og réttan – Brúðkaup – Sumar: Þrjú ritgerðasöfn

Út er komin hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunni bókin Rangan og réttan – Brúðkaup – Sumar: Þrjú ritgerðasöfn eftir franska rithöfundinn og heimspekinginn Albert Camus.

Albert Camus var einn af þekktustu rithöfundum Frakka á 20. öld. Hann hóf rithöfundarferil sinn sem blaðamaður og ritgerðasmiður og fyrsta útgefna verk hans var ritgerðasafnið Rangan og réttan (L’envers et l’endroit) sem kom út í Algeirsborg árið 1937. Brúðkaup (Noces) kom út tveimur árum síðar en Sumar (L’été) árið 1954. Í þessum þremur verkum sem hér birtast í íslenskri þýðingu má finna skáldlegustu skrif Camus. Þar fléttar höfundurinn saman endurminningar og hugleiðingar um manninn og veröldina sem hann er hluti af.

Bókin er þriðja verkið sem út kemur í einmála ritröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Þýðandi er Ásdís R. Magnúsdóttir og ritstjóri Rebekka Þráinsdóttir.

Útgáfa bókarinnar er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta og Hugvísindastofnun.

Latína er list mæt

Latína er list mæt er úrval greina Sigurðar Péturssonar um latínumenntir Íslendinga á tímabilinu 1550–1800. Í bókinni er fjallað um fjölda latneskra kvæða eftir íslenska höfunda og allnokkur kvæði birt í tvímála útgáfum ásamt umfjöllun og skýringum. Rætt er um nám í latneskri málfræði, latínumenntun kvenna, þýðingu latínukunnáttu í embættiskerfi fyrri alda, klassísk stef í meðförum íslenskra skálda og aðlögun latneskra bókmenntaforma að íslenskum veruleika. Bókinni fylgir kvæðaskráin Index carminum ab Islandis latine compositorum sem geymir brag- og bókfræðilegar upplýsingar um latínukvæði íslenskra skálda í aldanna rás.

Ritstjórar bókarinnar, sem gefin var út af SVF og Háskólaútgáfunni, voru þeir Gunnar Marel Hinriksson og Hjalti Snær Ægisson.

Útgáfa bókarinnar var fjármögnuð af Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Miðstöð íslenskra bókmennta og Rannsóknasjóði Hugvísindastofnunar.

Frá hjara veraldar (Vom Rand der Welt)

Út er komin í tvímála ritröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunnar ljóðbókin Frá hjara veraldar (Vom Rand der Welt) eftir Melittu Urbancic. Þýðandi ljóðanna á íslensku er Sölvi Björn Sigurðsson en eftirmála ritar Gauti Kristmannsson.

Melitta Urbancic, fædd Grünbaum (1902-1984) leitaði hælis á Íslandi árið 1938 ásamt eiginmanni sínum, tónvísindamanninum, tónskáldinu og hljómsveitarstjóranum Victor Urbancic (1903-1958) og börnum þeirra. Fjölskyldan fluttist hingað frá heimalandinu, Austurríki, eftir valdatöku nasista, en Melitta var af gyðingaættum. Bæði hafa þau markað varanleg spor í menningarlíf Íslendinga.

Melitta Urbancic lagði stund á heimspeki og germönsk málvísindi við háskólann í Vínarborg og Ruprecht-Karls háskólann í Heidelberg. Hún lauk doktorsgráðu í Heidelberg með rannsókn sinni á verkum skáldsins Christian Dietrich Grabbe. Meðfram háskólanáminu stefndi hún á feril sem leikkona og fékk fyrsta ráðningarsamning sinn við leikhúsið í Koblenz undir listamannsnafninu Makarska. Hún hafði einnig áhuga á sviðum leikstjórnar og leikbókmennta.

Ferill hennar sem listakona tók snöggan enda vegna ofsókna nasista, hún flúði til Íslands og sneri ekki til baka til Austurríkis eftir lok stríðsins 1945. Á Íslandi starfaði Melitta við tungumálakennslu, bæði í MR og sem einkakennari heima fyrir. Hún kenndi ensku, frönsku og þýsku.

Ljóðabókina Vom Rand der Welt skrifaði Melitta um reynslu sína af útlegðinni á Íslandi en bókin kemur nú út í fyrsta sinn. Útgáfan er á þýsku og íslensku, með ítarlegum eftirmála um ævi og verk Melittu eftir Gauta Kristmannsson. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfan gefa út. Melitta má heita óþekkt sem höfundur nema meðal þeirra sem hafa rannsakað verk fólks í útlegð. Engu að síður er framlag hennar á sviði ljóðlistar, bréfaskrifta, þýðinga og menningarlegra samskipta landanna tveggja verulegt, að ógleymdu frumkvæði hennar á sviði býflugnaræktar á Íslandi.

Útgáfa bókarinnar er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta og Mannréttindaráði Íslands.

Rangan og réttan – Brúðkaup – Sumar: Þrjú ritgerðasöfn

Út kom hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunni Milli mála – Tímarit um erlend tungumál og menningu. Tímaritið kemur í stað ársrits Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og er hið fjórða í röðinni. Þema heftisins er tungumál frá ýmsum sjónarhornum og eru greinarnar skrifaðar á íslensku, ensku, ítölsku, norsku, spænsku og þýsku. Í tímaritinu eru einnig nokkrar þýðingar af erlendum málum á íslensku.

Þeir fræðimenn SVF sem eiga greinar í tímaritinu Milli mála eru Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum, Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku, Gro-Tove Sandsmark, sendikennari í norsku, Hafdís Ingvarsdóttir, prófessor í menntunarfræðum, Jessica Guse, sendikennari í þýsku, Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor í þýsku, Pétur Knútsson, dósent emeritus í ensku, Stefano Rosatti, aðjunkt í ítölsku, Þórhallur Eyþórsson fræðimaður og Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku.

Þeir fræðimenn SVF sem eiga þýðingar í tímaritinu eru Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönskum fræðum, Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í frönskum fræðum, Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku, og Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku.
Ritstjórar bókarinnar eru Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönskum fræðum, og Sigrún Á. Eiriksdóttir þýðandi.

Sjá nánar hér.

Útgáfa tímaritsins var fjármögnuð af Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Rannsóknasjóði Hugvísindastofnunar.

Morð í dómkirkju

Bókin Morð í dómkirkju eftir T.S. Eliot er komin út hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunni. Bókin kemur út í tvímála ritröð stofnunarinnar.

Morð í dómkirkju er vinsælasta leikrit T.S. Eliots, eins þekktasta ljóðskálds tuttugustu aldar. Leikritið var fyrst sett upp árið 1935 í Kantaraborg í Englandi og fjallar um píslarvætti Tómasar Beckets erkibiskups sem var veginn í dómkirkjunni í Kantaraborg 29. desember árið 1170.

Íslensk þýðing Karls J. Guðmundssonar er hér birt í fyrsta skipti í heild sinni við hlið enska frumtextans. Í inngangi að leikritinu er fjallað um ævi Eliots, hugmyndir hans um ljóðaleikritun, tilurð verksins, sögulegan bakgrunn þess og fleira því tengt.

Í sérstökum bókarauka hefur ritstjóri verksins sett saman spurningar og verkefni til að nota í kennslu leikritsins á framhaldsskólastigi.

Ritstjóri bókarinnar er Ingibjörg Ágústsdóttir, lektor í enskum bókmenntum við Háskóla Íslands.

Yfir saltan mar

Bókin Yfir saltan mar er komin út hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunni. Bókin kemur út í tvímála ritröð stofnunarinnar og í henni er að finna safn þýðinga á ljóðum argentínska ljóðskáldsins, rithöfundarins og Íslandsvinarins Jorge Luis Borges. Þýðingarnar hafa áður birst í blöðum og tímaritum og er þetta í fyrsta sinn sem þær eru teknar saman og gefnar út í heild sinni.

Fjölmargir þýðendur hafa fengist við að snúa ljóðum Borgesar á íslensku og hafa sum ljóðin verið þýdd oftar en einu sinni. Lesendum gefst færi á að bera saman ólíkar þýðingar á sama texta. Ljóðaþýðingunum er fylgt úr hlaði með inngagni um ævi og yrkisefni Borgesar. Í bókinni er ennfremur að finna áður óbirta smásögu eftir Matthías Johannessen.

Ritstjórar bókarinnar eru Hólmfríður Garðarsóttir, prófessor við Háskóla Íslands og Sigrún Á. Eiríksdóttir, þýðandi.

Sjá nánar hér.

Milli mála : Ársrit Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur

Þriðja hefti tímarits Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur “Milli mála”, er komið út. Þema heftisins er erlendar bókmenntir frá ýmsum sjónarhornum og rita sjö fræðimenn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur greinar greinar í það. Sex af þessum sjö greinum fjalla um þemað en í þeirri sjöundu segir frá rannsókn á tungumálakennslu og aðlögun innflytjenda á Norðurlöndum.

Greinarnar eru skrifaðar á íslensku, ensku og ítölsku, enda hefur það verið stefna ritstjórnar frá upphafi að gefa höfundum kost á að skrifa á móður- eða kennslumáli sínu. Auk fræðigreinanna er einnig að finna nokkrar þýðingar í ársritinu.

Ritstjórar : Erla Erlendsdóttir og Sigrún Á. Eiríksdóttir.

Viðbrögð úr Víðsjá

Hafin er útgáfa nýrrar ritraðar á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem nefnist Vörður í menningarfræði samtímans. Fyrstu bækurnar í ritröðinni eru tvær, annars vegar Rekferðir, greinasafn eftir Guðna Elísson, prófessor í bókmenntafræðum við Háskóla Íslands og hins vegar Viðbrögð úr Víðsjá, safn ritdóma eftir Gauta Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði við Háskóla Íslands.

Að sögn Gauta Kristmannssonar hefur ritröðin það að markmiði að birta greinasöfn sem fjalla um menningar- og fræðileg málefni samtímans. Í formála að ritröðinni ritar Gauti: ,,Menningarhugtakið er skilgreint vítt og verður hér hægt að birta verk sem snúast um afar ólík málefni, en eiga það sameiginlegt að eiga erindi við okkur í samtímanum. Fræðimenn geta hér látið gamminn geisa með dálítið öðrum hætti en í hefðbundnum fræðiritum, án þess að stökkva nokkuð frá hinni fræðilegu ábyrgð. Hér geta þeir hins vegar verið frjálsari í forminu og vafalaust verða sumar vörður veglegri en aðrar, en allar þurfa þær að eiga það sameiginlegt að vísa okkur veginn með einhverjum hætti án þess að benda í austur eða vestur, aðeins með því að vera vegvísar þar sem þær eru.“

Rekferðir

Guðni Elísson er prófessor í almennri bókmenntafræði í Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann skrifaði doktorsritgerð um Byron lávarð, en hefur á undanförnum tveimur áratugum ritstýrt fjölda bóka og skrifað greinar um bókmenntir, kvikmyndir og menningarmál. Auk þess hefur hann talsvert fjallað um umhverfisverndarorðræðuna og gagnrýnt pólitísk skrif um loftslagsvísindi.

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði í Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann stundaði nám í ensku við Háskóla Íslands, skoskum bókmenntum við Edinborgarháskóla og lauk doktorsprófi frá Johannes Gutenberg-háskólanum í Mainz/Germersheim og fjallaði doktorsritgerð hans um þátt þýðinga í tilurð þjóðarbókmennta í Bretlandi og Þýskalandi. Gauti hefur á undanförnum árum skrifað, þýtt og ritstýrt fjölda bóka um þýðingar, bókmenntir og fagurfræði.

Tvímála útgáfa: Hliðargötur / Sideroads – Ljóð Jónasar Þorbjarnarsonar

Í þessari ljóðabók yrkir skáldið Jónas Þorbjarnarson sig frá einum stað til annars. Hann fer í bakarí í Brussel, röltir um Reykjavík og tjaldar á Langanesi. Smám saman birtist ljóðalandakort sem vekur spurningar með lesandanum um staðina í lífinu. Hvar endum við og hvar byrja þeir staðir sem skipta okkur máli?

Útgáfa bókarinnar hlaut styrk frá Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og forlagi skáldsins, JPV útgáfu, sem gaf leyfi til þess að birta þessa ljóðabók hans í tvímála útgáfu á ensku og íslensku.

Þýðendur: Ástráður Eysteinsson og Julian Meldon D’Arcy

Milli mála: Ársrit Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur

Annar árgangur ritsins er helgaður þýðingum. Í heftinu eru greinar eftir tólf fræðimenn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og kennara í Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda og í Uppeldis- og menntunarfræðideild Háskóla Íslands. Sex greinanna fjalla á einn eða annan hátt um þýðingar og auk þess eru sex greinar um annað efni. Höfundum er gefinn kostur á að skrifa á móður- eða kennslumáli sínu og að þessu sinni eru birtar greinar á íslensku, dönsku, ensku og frönsku.

Ritstjórar bókarinnar eru Erla Erlendsdóttir og Rebekka Þráinsdóttir.

Útgefandi: Stofnun Vigdisar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, 2011.

Milli mála: Ársrit Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur

Efni ritsins að þessu sinni einskorðast við fræðigreinar, bæði rannsóknargreinar og greinar með hagnýtari skírskotun.

Alls eru í ritinu 14 greinar, þar af níu ritrýndar, á alls sjö tungumálum: íslensku, dönsku, ensku, ítölsku, rússnesku, spænsku og þýsku.

Efni greinanna spannar mörg efnissvið þó allar tengist þær tungumálum eða bókmenntum með einum eða öðrum hætti. Auk greina sem falla undir bókmenntir og málvísindi í þrengri merkingu er hér að finna greinar með sterkri sagnfræði- eða heimspekilegri tilvísun að ógleymdri umfjöllun um kennslu erlendra tungumála á háskólastigi.

Ritstjórar bókarinnar eru Magnús Sigurðsson og Rebekka Þráinsdóttir.

Útgefandi: Stofnun Vigdisar Finnbogadóttur i erlendum tungumálum, 2010.

Tungumál ljúka upp heimum. Orð handa Vigdísi

Í tilefni af merkum tímamótum í lífi Vigdísar skrifuðu 27 íslenskir rithöfundar texta um mikilvægi tungumálakunnáttu fyrir Íslendinga.

Með bókinni vilja þeir leggja Vigdísi lið í baráttu hennar fyrir því að Alþjóðleg tungumálamiðstöð geti orðið að veruleika. Hér er á ferðinni afar litríkir, fróðlegir og áhugaverðir textir, sem með ólíkum hætti varpa ljósi á gildi tungumála fyrir einstaklinga og þjóðfélagið í heild.

Rithöfundarnir eru: Andri Snær Magnason, Auður Jónsdóttir, Auður Ava Ólafsdóttir, Árni Bergmann, Bragi Ólafsson, Einar Már Guðmundsson, Eiríkur Guðmundsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Friðrik Rafnsson, Gerður Kristný, Guðbergur Bergsson, Guðrún Eva Mínervudóttir, Hermann Stefánsson, Jón Kalman Stefánsson, Kristín Ómarsdóttir, Kristín Marja Baldursdóttir, Matthías Johannessen, Njörður P. Njarðvík, Oddný Eir Ævarsdóttir, Pétur Gunnarsson, Rúnar Helgi Vignisson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Sigurður Pálsson, Steinunn Sigurðardóttir, Sölvi Björn Sigurðsson, Thor Vilhjálmsson og Vigdís Grímsdóttir.

Prófarkalestur annaðist Uggi Jónsson og ritstjórn Auður Hauksdóttir. Prentsmiðjan Oddi annaðist  umbrot og prentun 5 tölusettra gjafaeintaka. Bókin hefur nú verið prentuð í stærra upplagi og mun allur hagnaður af sölu hennar renna til tungumálamiðstöðvarinnar. Fyrirhugað er að þýða bókina á fleiri tungumál.

Raddir frá Kúbu: Smásögur kúbanskra kvenna

Smásagnasafn með fjórtán sögum eftir konur frá Kúbu.

Sögurnar eru skrifaðar á áratugunum eftir byltingu og eru fjölbreyttar að stíl og efni. Þær fjalla um líf og dauða, ástir og hatur, sorgir og gleði, en einnig um lífsbaráttuna á Kúbu og flóttann frá eyjunni.

Meðal höfunda smásagnanna er Dora Alonso, einn þekktasti smásagnahöfundur 20. aldar í hópi kvenna á Kúbu og Ena Lucía Portela sem er nú talin meðal efnilegustu rithöfunda landsins.

Bókin er ritstýrt af Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur en Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku, valdi sögurnar og þýddi. Inngang rituðu Luisa Campuzano, forstöðumaður rannsóknastofu í kvennafræðum við Casa de las Américas stofnunina í Havana, og Erla Erlendsdóttir.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2009.

Útlendingurinn

Þetta fræga skáldverk eftir Albert Camus kom fyrst út í Frakklandi árið 1942. Þar segir frá skrifstofumanninum Meursault sem fær sér kaffi og sígarettu við kistu látinnar móður sinnar vegna þess að honum þykir kaffi gott og langar að reykja. Við jarðarförina er hann þjakaður af hita og brennandi sól en finnur ekki til sorgar. Þegar hann verður svo manni að bana í óbærilegu sólskini er hann dæmdur fyrir að hafa jarðað móður sína með hjarta glæpamanns.

Útlendingurinn er ein af perlum heimsbókmenntanna og kemur nú öðru sinni fyrir almenningssjónir hér á landi. Irma Erlingsdóttir er ritstjóri bókarinnar en Ásdís R. Magnúsdóttr þýddi. Ásdís ritar einnig eftirmála um ævi höfundarins og verk hans. Í bókarlok er viðauki með hugleiðingum og æfingum fyrir nemendur.

Bókin er fimmta verkið í tvímála útgáfu á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Önnur verk sem hafa komið út í ritröðinni eru leikritið Yerma eftir spænska skáldið Federico García Lorca, Umskiptin eftir rithöfundinn Franz Kafka, Gustur úr djúpi nætur, Ljóðasaga Lorca á Íslandi og Villa á öræfum eftir Pálma Hannesson.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2009.

Det norrøne og det nationale

Bókin Det norrøne og det nationale hefur að geyma greinasafn um áhrif íslenskra miðaldabókmennta í Noregi, Svíþjóð, Íslandi, Bretlandi, Þýskalandi og Danmörku.

Íslendingasögurnar, Eddukvæðin og aðrar miðaldabókmenntir gegndu mikilvægu hlutverki fyrir menningu þessara landa á 19. öld, einkum við uppbyggingu þjóðarímyndar þeirra. Rithöfundar og listmálarar sóttu innblástur í þessar bókmenntir fyrir skáldskap sinn og listaverk.

Í bókinni fjalla bæði íslenskir og erlendir fræðimenn um hlutverk miðaldabókmenntanna í þessum löndum frá ýmsum hliðum. Bókin hefur einnig að geyma fjölmargar teikningar og myndir frá þessum tíma sem vísa í gömul íslensk minni.

Ritstjórar bókarinnar eru ritstýrt af Annette Lassen og greinarhöfundar eru auk ritstjóra: Vigdís Finnbogadóttir, Andrew Wawn, Flemming Lundgreen-Nielsen, Sveinn Yngvi Egilsson, Julia Zernack, Þórir Óskarsson, Anna Wallette, Gunnar Karlsson, Gylfi Gunnlaugsson, Jon Gunnar Jørgensen, Gauti Kristmannsson og Pétur Knútsson.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2008.

Rússneska með réttu lagi

Kennslubók í rússneskri hljóðfræði og tónfalli handa íslenskumælandi nemnendum eftir Olgu Korotkova.

Meginefni bókarinnar er bæði á íslensku og rússnesku og sett fram á þann hátt að það nýtist jafnt kennurum og nemendum sem vilja ná réttu lagi á rússneskan framburð.

Efni bókarinnar miðast við 32 kennslustundir og skiptist í 16 kafla. Í hverjum kafla er fengist við hljóð og tónfallsform, og leiðbeiningar gefnar um þjálfun þeirra.

Reynt er að svara spurningum á borð við: Hvar eru tiltekin hljóð mynduð og hvernig? Hvernig er áhersla og tónhæð í fullyrðingasetningum, spurningum, ráðleggingum, kveðjum og skipunum? Hverjum kafla fylgir fjöldi æfinga og í æfingalykli í bókarlok má finna réttar lausnir á stórum hluta verkefnanna. Hljóðdiskur með æfingum fylgir bókinni.

Bókina þýddi Rebbekka Þráinsdóttir.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2008.

Mál málanna

Mikil gróska hefur verið í rannsóknum innan hagnýtra málvísinda. Þar skipta rannsóknir á tungumálakennslu, tileinkun erlendra tungumála og fjöltyngi sífellt meira máli enda varpa þær ljósi á eðli máltöku, málbeitingar og starfsemi mannsheilans. Sú þekking sem til hefur orðið með rannsóknunum setur nú svip sinn á umræðuna á þessu fræðasviði.

Í þessu fræðiriti er fjallað um nýjar rannsóknir á tileinkun og kennslu annars máls og erlendra tungumála. Mjög lítið hefur verið ritað á íslensku um þetta efni. Hér er því reynt að bæta úr brýnni þörf með því að koma á framfæri nýrri þekkingu í því skyni að styrkja fræðasviðið og efla umræðu um þessi mál á íslensku. Mál málanna inniheldur ellefu kafla eftir erlenda og innlenda höfunda. Nokkrir kaflanna eru frumsamdir fyrir bókina en aðrir hafa birst áður í erlendum tímaritum. Í sumum tilvikum er þar um að ræða lykilgreinar á fræðasviðinu.

Ritstjórar bókarinnar eru Auði Hauksdóttur, dósent í dönsku, og Birnu Arnbjörnsdóttur, dósent í rannsóknum og kennslufræði erlendra tungumála.

Útgefandi: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, 2008.

Villa á öræfum / Allein durch die Einöde

Bókin er ný tvímála útgáfa á þýsku og íslensku af kunnustu hrakningasögum Pálma Hannessonar, sem var rektor við Menntaskólann í Reykjavík og alþingismaður. Einnig fylgir ýtarleg greinargerð eftir Marion Lerner á þýsku og íslensku, en hún þýddi sögurnar á þýsku. Loks eru kort af sögusviði hverrar frásagnar í óbyggðum Íslands og er án vafa mikill fengur að þessu verki fyrir áhugamenn um hálendið og hrakningasögur Pálma Hannessonar sem hafa verið ófáanlegar árum saman.

Frásagnir Pálma hafa lengi notið hylli meðal landsmanna, bæði sem erindi flutt í útvarpi og á rituðu máli. Þær leika meira að segja hlutverk í glæpasögum Arnaldar Indriðasonar þar sem söguhetjan Erlendur er sífellt að lesa þær. Má því segja að frásagnir Pálma gegna því hlutverki í bókum Arnaldar að undirstrika íslensk sérkenni Erlends rannsóknalögreglumanns.

Þýðing Marion var hluti af viðfangsefni mastersritgerðar hennar í þýðingafræði við Háskóla Íslands.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2008.

Hegravarpið

Þorpið er sögusvið kanadíska rithöfundarins Lise Tremblay í smásagnasafninu Hegravarpið (La héronnière) sem kom út í Montréal árið 2003.

Í grennd við nafnlaust þorp 600 kílómetra norður af Montréal finnst lík aðkomumanns. Íbúar þorpsins þegja þunnu hljóði og morðinginn finnst ekki þótt allir viti hver hann er. Móðir hans var í tygjum við þann látna og var í þann veginn að yfirgefa þetta auma pláss þar sem ekkert er við að vera og lífsafkoman byggist á sumargestum úr borginni, gráhærðum fuglafræðingum og blóðþyrstum veiðimönn-um. Mikil spenna ríkir í samskiptum innfæddra og aðkomumanna og hatrið kraumar undir niðri. Höfundurinn lýsir vanmætti íbúanna og dregur upp ófagra mynd af lífinu á lands-byggðinni þar sem trú og hefðir hafa vikið fyrir breyttum tímum.

Bókin vakti strax mikla athygli gagnrýnenda og hún fór heldur ekki fram hjá íbúum Trönueyjar (Isle-aux-Grues) þar sem Lise Tremblay var þá búsett. Í titilsögunni sækir höfundurinn innblástur í atburði sem gerst höfðu í eynni. Eyjarskeggjar þóttust sjá sjálfa sig í sögupersónum Tremblay og kunnu henni litlar þakkir fyrir. Hún hrökklaðist burt og kom sér fyrir í Montréal þar sem hún kennir bókmenntir og stundar ritstörf. Viðfangsefni hennar ná þó langt út fyrir ónafngreinda bæinn í norðri: Hún skrifar um einmanaleikann, rótlausa einstaklinga og óttann við umheiminn.

Lise Tremblay fæddist árið 1957 í litlum bæ í norðurhluta Québec-fylkis. Hún lauk prófi í blaðamennsku og lagði svo stund á bókmenntir og ritlist við Québec-háskóla í Montréal. Áður en Hegravarpið kom út hafði Lise Tremblay sent frá sér þrjár stuttar skáldsögur en með Hegravarpinu tókst henni að skipa sér í röð efnilegustu rithöfunda í Québec. Fyrir stuttu sendi hún svo frá sér sína fjórðu skáldsögu. Þrátt fyrir alvöru og vægðarleysi hafa verk hennar hrifið fjölmarga lesendur vestan hafs og hlotið mörg verðlaun og viðurkenningar.

Þýðendur bókarinnar eru Ásdís R. Magnúsdóttir, dósent í frönsku, Davíð Steinn Davíðsson, nemanda í frönsku og Linda Rós Arnarsdóttir, nemanda í frönsku.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2008.

Teaching and Learning English in Iceland. In Honour of Auður Torfadóttir

Bókin er safn greina um nýjar rannsóknir á enskunámi og enskukennslu á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem bók um þetta efni kemur út og þótt enskukennsla sé í brennidepli á innihaldið einnig erindi til þeirra sem fást við tungumálakennslu almennt svo og áhugafólks um tungumál.

Ritstjórar bókarinnar eru Birnu Arnbjörnsdóttir, dósent í ensku við hugvísindadeild og Hafdísi Ingvarsdóttur, dósent við kennslu-og menntunarfræði Háskóla Íslands.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2007.

Gustur úr djúpi nætur – Ljóðsaga Lorca á Íslandi

Bókin er safn þýðinga á ljóðum spænska skáldsins Federico García Lorca sem birst hafa í blöðum og tímaritum á Íslandi. Hér er á ferðinni tvímála útgáfa þar sem frumtexti birtist við hlið þýðingarinnar. Margir þýðendur hafa fengist við að snúa ljóðum Lorca á íslensku í gegnum tíðina og hafa sum ljóðin verið þýdd oftar en einu sinni. Lesanda gefst hér færi á að bera saman ólíkar þýðingar á sama texta.

Ljóðaþýðingunum er fylgt úr hlaði með fræðilegum inngangi Hólmfríðar Garðarsdótturs um ævi og yrkisefni Lorca. Í bókarlok má svo finna leiðbeiningar um ljóðagreiningu. Er það von okkar að íslenskumælandi ljóðaunnendum þyki fengur í ljóðasafninu Gustur úr djúpi nætur og að það megi einnig nýtast öllum þeim sem leggja stund á spænskt mál og menningu.

Ritstjóri bókarinnar er dr. Hólmfríður Garðarsdóttir, dósent í spænsku við Háskóla Íslands.

Útgefandi: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, 2007.

Umskiptin

Umskiptin eftir Franz Kafka er vafalaust ein frægasta bók sem rituð hefur verið á þýska tungu og margar aðrar í þýðingum. Þetta er tvímála útgáfa í fjölmála ritröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og er þýski textinn samhliða þýðingunni. Það er von Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum að hún verði flestum að gagni, hvort sem þeir vilja læra tungumál eða kynna sér heimsbókmenntirnar.

Bókin er þriðja þýðing textans á íslensku og er hún þýdd af þeim Eysteini Þorvaldssyni og Ástráði Eysteinssyni sem áður hafa þýtt fjölmörg verk eftir Kafka. Þýðendur hafa einnig ritað ýtarlegan inngang og útbúið bókarauka með verkefnum og spurningum fyrir bæði nemendur og áhugamenn sem vilja spreyta sig á þeim hugleiðingum sem bókin býður upp á.

Ritstjóri bókarinnar er Gauti Kristmannsson en Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson þýddu.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2006.

Milli vetrar og vetrar

Bókin samanstendur af 25 ljóðum sem eru þýdd á íslensku, ensku og dönsku, auk frummálsins þýsku. Þessi bók er í nýrri ritröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem helguð er fjölmála útgáfu.

Ljóðabók eftir Manfred Peter Hein kom fyrst út árið 1987 hjá Rowohlt forlaginu í Þýskalandi og hefur nú verið þýdd á þrjú önnur tungumál og myndskreytt fagurlega af myndlistarmanninum og skáldinu Christoph Meckel. Þetta eru knöpp og myndskörp ljóð, nánast höggvin í stein og birtast þýðingarnar hlið við hlið og opna oft hinn sérstæða ljóðaheim Heins enn betur en mörg túlkunin.Myndskreytingar á kápu og við hvern hinna 5 bálka bókarinnar gefa bókinni aukið fegurðargildi.

Manfred Peter Hein er þekkt þýskt ljóðskáld og rithöfundur og eftir hann liggja nú sjö ljóðabækur fyrir fullorðna auk tveggja fyrir börn, skáldævisagan Fluchtfährte, fjöldi ritgerða og prósaverka auk mikils þýðingaverks úr finnskum bókmenntum, samtímaljóðlist, þjóðkvæði og sagnabókmenntir. Manfred Peter Hein hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga, nú síðast Rainer Malkowski verðlaunin sem Listakademían í Bæjaralandi veitir.

Þýðendur bókarinnar eru Gauti Kristmannsson, á íslensku, Tom Cheesman, á ensku og Henning Vangsgaard á dönsku.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2006.

Konur Rómönsku Ameríku sem hreyfiafl

Bókin er samstarfsverkefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Samtakanna HAINA, sem er félag norrænna fræðimanna sem láta sig málefni kvenna í Rómönsku Ameríku varða.

Í bókinni er að finna safn fræðigreina um málefni kvenna í Rómönsku Ameríku, á spænsku og ensku. Greinarnar eru á sviði félags- og stjórnmálafræði, bókmennta- og lista, auk umfjöllunar um mannfræðileg efni.

Bókin er í ritröðinni HAINA V og er gefin út í kjölfar málþings sem haldið var hér á landi árið 2004. Þróunarsamvinnustofnun Íslands [ÞSSÍ] styrkti útgáfu bókarinnar.

Ritstjóri bókarinnar er dr. Hólmfríði Garðarsdóttur, dósent í spænsku.

Útgefandi: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, 2006.

Subversive Scott, The Waverley Novels and Scottish Nationalism

Undanfarin fimmtíu ár hefur það verið viðtekin skoðun fræðimanna að sögulegar skáldsögur Sir Walters Scotts, hinar svo kölluðu Waverley-skáldsögur, séu í raun viðurkenning á þeirri staðreynd Skotland eigi sinn stað í Stóra-Bretlandi og breska heimsveldinu, þrátt fyrir að margar þeirra fjalli um forna frægð og hetjudáðir Skota, jafnvel í baráttu við Englendinga.

Bók Júlíans setur fram róttæka endurskoðun á þessari skoðun og sýnir fram á að innan frásagnanna er að finna undirtexta sem segja allt aðra sögu en hin viðtekna skoðun hefur til þessa viðurkennt.

Höfundur bókarinnar, Júlían Meldons D’Arcy er prófessor við hugvísindasvið Háskóla Íslands.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2005.

For the last fifty years or so the standard critical view of Sir Walter Scott’s fiction has been that, while paying full tribute to Scotland’s heroic, ancient independence and romantic Jacobite past, his Scottish Waverley Novels ultimately present Scotland’s future as nonetheless belonging within the peace, prosperity and progress of the United Kingdom and the British Empire.

Júlían Meldon D’Arcy’s Subversive Scott radically revises this conventional evaluation of Scott’s work and reveals that embedded in the Waverley Novels’ narratives are dissonant discourses and discreet subtexts which inspire far more subversive and nationalist readings than hitherto perceived.

The author, Júlían Meldon D’Arcy is a Professor of English Literature in the Faculty of Humanities at the University of Iceland. He is the author of Scottish Skalds and Sagamen: Old Norse Influence on Modern Scottish Literature, which was nominated for a Saltire Society literary award in 1997.

Publisher: Háskólaútgáfan, 2005.

Ordens slotte

Bókin er afmælisrit til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur 75 ára og inniheldur safn greina um norrænar bókmenntir og tungur ritaðar á dönsku, norsku og sænsku. Nokkrar greinanna byggjast á fyrirlestrum er fluttir voru á tveggja daga ráðstefnu, sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur stóð fyrir í tengslum við vígslu Norðurbryggju í Kaupmannahöfn í nóvember 2003.

Bókin inniheldur jafnframt greinar eftir norska rithöfundinn Thorvald Steen og danska rithöfundinn Suzanne Brøgger, ásamt greinum um samísku og stöðu sænskrar tungu í Finnlandi. Í bókinni er einnig að finna grein um sögu Norðurbryggju, m.a. hvernig það atvikaðist að húsið fékk nýtt hlutverk sem norrænt menningarhús. Bókin hefur að geyma 18 ljósmyndir frá Norðurbryggju teknar af sænska ljósmyndaranum Jens Lindhe.

Ritstjórar bókarinnar eru Auður Hauksdóttir, Jørn Lund og Erik Skyum-Nielsen.

Útgefandi: Stofnun Vigdisar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, 2005.

Yerma

Hið sígilda leikrit Yerma eftir Federico Garcia Lorca er gefið út á tvímála útgáfu á íslensku og spænsku.

Í bókinni birtist frumtexti við hlið þýðingarinnar, auk neðanmálsgreina þýðenda þar sem ýmis málleg og menningarleg atriði textans eru skýrð. Lesanda gefst hér færi á að bera saman ólíkar þýðingar á sama texta. Margrét Jónsdóttir hefur einnig ritað ýtarlegan fræðilegan inngang að bókinni til frekari skýringa og samið æfingar fyrir spænskunema sem er að finna aftast.

Ritstjóri bókarinnar er Álfrún Gunnlaugsdóttir en ritstjóri ritraðar er Gauti Krismannson og Peter Weiß. Þýðendur eru Margrét Jónsdóttir og Karl J. Guðmundsson.

Útgefandi: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, 2004.

Akten des V. Treffen der nordeuropäischen Germanistik Reykjavík, Island, 1.-6. Juni 1999

Höfundar bókarinnar eru Oddný Sverrisdóttir og Peter Weiß

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2002.

Rediscovering Canada: Culture and Politics, NACS Text Series 19

Various aspects of Canadian politics and culture are discussed in the book.

Contributors are Ólafur Ragnar Grímsson, Stéphane Dion, Alan C. Cairns, Michael Böss, Michael Bradfield, Julián Castro-Rea, John Erik Fossum, B. J. S. Hoetjes, Joan Whitman Hoff, Glyn Hughes, Russell R. Keddie, Nuala Lawlor, Douglas C. Nord, Edgars Osins, John Robinson, Matti Savolainen, Harvey Schwartz, Peter Stenberg, and Allan A. Warrack.

Editors: Guðrún Björk Guðsteinsdóttir and John Erik Fossum.

Publisher: The University of Iceland Press, 2002, for the Nordic Association for Canadian Studies (NACS) and the Vigdís Finnbogadóttir Institute of Foreign Languages.

Forskning i nordiske sprog som andet- og fremmedsprog

Bókin er samantekt ráðstefnu á ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík 23.-25. maí 2001.

Ráðstefnan fjallaði um norræn mál sem kennd eru sem annað mál eða framandi mál. Þetta var fimmta ráðstefnan sem haldin var um þetta málefni. Í bókinnu er að finna úrval erinda sem haldin voru á ráðstefnunni.

Ritsjórar bókarinnar eru Auður Hauksdóttir, Birna Arinbjörnsdóttir, María Garðarsdóttir og Sigríður Þorvaldsdóttir.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2002.

X