í Óflokkað

Orlando Luis Pardo Lazo, rithöfundur frá Kúbu í útlegð, heldur fyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO þriðjudaginn 12. apríl kl. 12-13 í stofu 101 í Lögbergi í Háskóla Íslands.

Í fyrirlestri sínum mun hann fjalla um stefnur og strauma í kúbverskum samtímabókmenntum, ekki síst þá hreyfingu innan bókmenntanna sem kölluð hefur verið kynslóð núll-áranna eða Generation Year Zero.

Orlando Luis Pardo Lazo er kúbanskur rithöfundur, blaðamaður, bloggari, ritstjóri, ljósmyndari og félagslegur aktívisti. Hann flúði Kúbu árið 2013 þar sem hann var ofsóttur fyrir skrif sín og stjórnmálaskoðanir og hann hefur nú fengið skjól hjá Reykjavíkurborg í gegnum alþjóðlega skjólborgarverkefnið International Cities of Refugee Network (ICORN). Hann kom til Reykjavíkur í september 2015.

ICORN eru samtök borga víðs vegar um heim sem gerst hafa skjólborgir rithöfunda sem ekki er gert kleift að búa í heimalandi sínu, sjá www.icorn.org. Þetta er annar rithöfundurinn sem Reykjavíkurborg tekur á móti.

Orlando Lazo fæddist árið 1971 á Kúbu. Hann útskrifaðist sem lífefnafræðingur frá Háskólanum í Havana árið 1994 og starfaði sem sameindalíffræðingur í Miðstöð erfðatækni- og líftæknirannsókna (1994-1999).

Hann er vefstjóri bloggsíðunnar Boring Home Utopics og heldur úti síðunni Lunes de Post-Revolución. Í heimalandi sínu Kúbu ritstýrði hann sjálfstæðu stafrænu tímaritunum Cacharro(s), The Revolution  Evening Post og Voces.

Árið 2013 varð hann að yfirgefa land sitt og síðan þá hefur hann haldið fyrirlestra í mörgum bandarískum háskólum um félagslegar aðgerðir á Kúbu, um borgaralegt samfélag og ritskoðun bókmennta af hálfu kúbverska ríkisins. 2014-2015 var hann félagi í International Writer Project við Brown-háskóla í Bandaríkjunum þar sem hann var einnig aðjunkt í ritlist í rómönskum fræðum.

Orlando Lazo ritaði bókina Boring Home sem hlaut tékknesku bókmenntaverðlaunin 2014 og ritstýrði smásagnasafninu Cuba in Splinters. Eleven Stories from the New Cuba en sú bók er í opnum aðgangi á netinu: http://www.orbooks.com/catalog/cuba-splinters

Aðrar fréttir
X