í Fréttir, News, VIMIUC

 
Ellefu styrkir voru nýlega veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til fræðimanna og nemenda við Háskóla Íslands sem vinna að fjölbreyttum rannsóknum og verkefnum sem snúa að stöðu íslenskrar tungu í samtímanum. Sjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2014 til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. 

Að þessu sinni voru þrír fræðimenn í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í hópi þeirra sem hlutu styrk úr sjóðnum:

Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor emerita í annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands, hlaut styrk fyrir lokafrágang bókarinnar „Máltileinkun, menntun og líðan fjöltyngdra barna á Íslandi“.  Fjöltyngi barna eykst á Íslandi, ekki eingöngu meðal þeirra sem læra íslensku sem annað mál heldur líka meðal barna sem eiga íslensku að móðurmáli en búa í nánu sambýli við ensku. Markmiðið er að gefa út aðgengilegt inngangsrit að fjöltyngi fyrir almenning og til kennslu t.d. kennaranema og annarra sem koma að menntun fjöltyngdra barna en hafa ekki sérþekkingu á því sviði. Mikill skortur er á yfirlits- og inngangsriti á íslensku sem fjallar um íslenskar aðstæður. Gildi verkefnisins felst m.a. í fræðslu þeirra sem ekki eru sérmenntaðir í annarsmálsfræðum og það eflir getu þeirra til að þjóna hagsmunum fjöltyngdra barna, hvaðan sem þau koma. Aðkallandi er að styrkja þekkingu almennra kennaranema og kennara á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi sem allir vinna í dag með fjöltyngdum nemendum. Auk þess er mikilvægt að fjölskyldur átti sig á eðli fjöltyngis og áhrifum þess á sjálfsmynd, samskipti og nám barna.

Rósa Elín Davíðsdóttir, stundakennari í frönsku við Háskóla Íslands, hlaut styrk fyrir verkefnið „Viðbótarorðaforði fyrir LEXÍU, nýja íslensk-franska orðabók“. Markmiðið með verkefninu er að vinna 5.000 viðbótarflettur fyrir nýja íslensk-franska veforðabók, LEXÍU, sem opnuð var í júní 2021 og er öllum aðgengileg án endurgjalds á vefslóðinni lexia.hi.is/is. Lexía er unnin í samstarfi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, sem hefur umsjón með vinnu við markmálið frönsku, og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sem mótaði gagnagrunninn og íslenska hluta verksins. LEXÍA samanstendur af um 50 þúsund uppflettiorðum, einkum orðum í nútímaíslensku, og fjölmörgum notkunardæmum og orðasamböndum sem öll eru þýdd á frönsku. Viðbótarorðaforðinn er fenginn úr nýrri íslenskri risamálheild og varðar einkum umhverfi, orku og samfélag. Eftir viðbæturnar mun LEXÍA innihalda 55 þúsund uppflettiorð. Orðabókin gerir íslenskum notendum kleift að nálgast orðaforða frönsku út frá móðurmálinu, íslensku, í stað þess að fara í gegnum annað erlent tungumál. Jafnframt nýtist orðabókin frönskumælandi nemendum í íslensku ásamt þýðendum og túlkum milli íslensku og frönsku.

Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræðum og við Þýðingasetur Háskóla Íslands, hlaut styrk til þýðingar á óperunni „L´Orfeo – Favola in musica“ eftir Claudio Monteverdi en Óperukompaníið Plúto og Barokkbandið Brák munu flytja verkið árið 2024. Þýðandi er Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, skáld, sellóleikari og sérfræðingur í upprunaflutningi á barokktónlist. Markmið þýðingarinnar er að gera óperutónlist aðgengilegri fyrir íslenska áhorfendur með því að flytja hana á íslensku. Þegar óperur eru fluttar á frummálum glatast ákveðin tækifæri til tengingar við áhorfendur og er þessi þýðing tilraun til þess að gera veg óperutónlistar meiri á Íslandi en líka tilraun til nýsköpunar í þýðingum.

Nánari upplýsingar um úthlutunina er að finna á vef Háskóla Íslands.

Aðrar fréttir
X