í Fréttir, News, VIMIUC

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum var nýverið úthlutað 5 milljón króna styrk úr Háskólasjóði til að  ljúka við íslensk-franska veforðabók, LEXÍU. Einnig fékk Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur styrk að upphæð 1.750.000- kr. til orðabókargerðarinnar úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur sem ætlað er að stuðla að eflingu íslenskrar tungu og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi. 

Veforðabókin mun innihalda um 50 þúsund uppflettiorð og verður öllum aðgengileg án endurgjalds. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur stýrir vinnunni við orðabókina sem byggir á nýjum íslenskum orðabókargrunni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, en ritstjórn franska hlutans er í höndum Rósu Elínar Davíðsdóttur.

Stofnunin þakkar kærlega fyrir styrkina sem gera aðstandendum kleift að ljúka við gerð LEXÍU á næstu mánuðum, en áætlað er að hún verði tilbúin til notkunar í apríl 2021.

Aðrar fréttir
X