í Fréttir, News, VIMIUC
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, afhenti í dag tvo styrki úr Sjóði Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli til verkefna sem snerta mál og menningu fólks af íslenskum uppruna í Vesturheimi. 
 
Birna Bjarnadóttir, rannsóknalektor við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, fékk styrk til að rannsaka sérblaðið Sólskin sem kom út samhliða íslenska dagblaðinu Lögbergi í Winnipeg fyrir um einni öld. Blaðið var ætlað börnum íslenskra innflytjenda í Vesturheimi. Fjölmörg bréf sem börn sendu til blaðsins veita áhugaverða innsýn í daglegt líf og kringumstæður íslenskra innflytjenda Norður-Ameríku. 
 
Birna Arnbjörnsdóttir prófessor við Mála- og menningardeild Háskóla Ísland og þeir Höskuldur Þráinsson og Úlfar Bragason, prófessorar emeritus, hlutu styrk til að gefa út bókina The Icelandic Heritage in North America sem kemur út hjá University of Manitoba Press á þessu ári. Um er að ræða enska útgáfu af bókinni Sigurtunga – Vesturíslenskt mál og menning sem kom út hjá Háskólaútgáfunni fyrir þremur árum. Þar er að finna niðurstöður nýlegra rannsókna á máli og menningarlegri sjálfsmynd Vestur-Íslendinga, en þeim fækkar ört sem hafa vesturíslensku á takteinum þar vestra.
 
Tilgangur Sjóðs Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli er að efla tengsl milli Háskóla Íslands og Háskólans í Manitoba í Kanada m.a. með því að veita stúdentum og fræðimönnum annars skólans styrki til rannsókna eða náms við hinn skólann eða til verkefna sem falla að tilgangi sjóðsins með öðrum hætti. Sjóðurinn er byggður á gjöf Páls Guðmundssonar til háskólans árið 1971 skv. erfðaskrá hans. Páll var fæddur 26. júní 1887 og var bóndi í Saskatchewan í Kanada en hann lést árið 1966.
 

Birna Arnbjörnsdóttir, Höskuldur Þráinsson, Birna Bjarnadóttir, og Úlfar Bragason tóku við styrkjum úr Sjóði Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli sem Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands afhenti.

Aðrar fréttir
X