í Óflokkað
Fyrsta sýningin í upplýsinga- og fræðslusetrinu í Veröld – húsi Vigdísar verður opnuð á laugardag, 1. júlí næstkomandi. Sýningin nefnist SAMTAL – DIALOGUE og þar er fjallað með hjálp ýmissa miðla um störf og hugðarefni Vigdísar Finnbogadóttur. 
 
Sýningin verður opin á laugardag milli klukkan 10 og 16. Fyrst um sinn verður hún opin milli klukkan 10 og 17 á virkum dögum og 10 og 16 á laugardögum. Aðgangseyrir er 1500 krónur. 
 
SAMTAL – DIALOGUE er opnunarsýningin í Veröld – húsi Vigdísar, þar sem fjallað er í máli og myndum um störf og hugðarefni Vigdísar Finnbogadóttur. 
 
Sagt er frá námsárum Vigdísar erlendis og starfi hennar sem frönskukennari, leiðsögumaður og síðar leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur 1972-1980. Gerð er grein fyrir fjölbreyttu hlutverki hennar sem forseti Íslands árin 1980-1996 og öllu því góða starfi sem hún hefur unnið eftir að forsetatíð lauk, m.a. sem velgjörðarsendiherra tungumála á vegum UNESCO – mennta-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og sem öflugur liðsmaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. 
 
Í sýningunni fáum við jafnframt innsýn í hugðarefni Vigdísar, sjáum nokkrar eftirlætisbækur hennar, tilvitnanir og kvæði og getum fylgst með vexti Vinaskógar í Þingvallaþjóðgarði, sem stofnaður var henni til heiðurs. Gestir eru hvattir til að taka beinan þátt í samtalinu við Vigdísi, setjast á bláu leikhússtólana og hugleiða hugtök á borð við heiðarleiki, mannréttindi, menning, þekking, jafnrétti, tungumál, framfarir, víðsýni og menntun. 
 
Um sýninguna:
 
Sýningarstjórn / hönnun: Þórunn S. Þorgrímsdóttir; ritstjórn / höfundur sýningartexta: Bryndís Sverrisdóttir; grafísk hönnun: Salbjörg R. Jónsdóttir; lýsingarhönnun: Páll Ragnarsson; þýðing: Anna Yates; heimasíða / öflun myndefnis: Valgerður Jónasdóttir; hönnun skjáturna: Ingibjörg J. Sigurðardóttir; myndband úr Vinaskógi: Nanna H. Grettisdóttir; brot úr kvikmyndinni Ljós heimsins: Ragnar Halldórsson; innréttingasmíð: Víglundur Möller Sívertsen; tækniráðgjöf; Jakob Kristinsson; andlitsmynd af Vigdísi: Nanna Bisp Bürchert. 
 
Kostun sýningarinnar: ríkisstjórn Íslands, Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Seltjarnarnesbær, Íslandsstofa, Íslandsbanki, Isavia, Eimskip, Landsbankinn, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Toyota á Íslandi, Hótel Holt, Exton og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. 
 
Sýningin er unnin í samráði við Auði Hauksdóttur, Kolbrúnu Halldórsdóttur og Ástríði Magnúsdóttur. 
Aðrar fréttir
X